Kokkur, prestur og kvöldmáltíð

DSC07083Skírdagskvöld er ekki aðeins messukvöld í Neskirkju við Hagatorg heldur verður einnig boðið til máltíðar í anda síðustu máltíðar Jesú Krists. Hráefni og matseld í margrétta kvöldverði tekur mið af samhengi hennar. Ósýrt brauð, bitrar jurtir, fiskur og lambakjöt verða m.a. á borðum, saga Jesú íhuguð og tengd við upplifun og líf nútímafólks. Máltíðin hefst kl. 17,45. Miðar eru seldir á midi.is (sjá slóð einnig hér fyrir neðan.

Tvenn hjón undirbúa þessa upplifunarmáltíð. Meistarakokkarnir og veitingahjónin Friðrik V. og Arnrún Magnúsdóttir sjá um eldamennskuna og prestshjónin Elín Sigrún Jónsdótir og Sigurður Árni Þórðarson tengja skynjun og skírdag, himin og jörð. Maturinn heillar nef, munn og maga og matarguðfræðin er fyrir sálina.

Pamela di Sensi laðar fram Miðjarðarhafsstemmingu með flautuleik.

Skírdagsmáltíðin í Neskirkju er söguleg. Á Íslandi hefur líklega aldrei fyrr verið efnt til kvöldverðar af þessu tagi í kirkjuhúsi.

Kvöldmáltíðin verður í safnaðarheimili Neskirkju. Aðeins 50 miðar verða seldir. Kl. 20 hefst svo skírdagsmessa í Neskirkju. Í lok hennar verða altarisgripir bornir úr kirkju og rósir lagðar á altarið.

Slóðin til að kaupa miða: http://midi.is/forsida/?c=0&t=0&s=neskirkja