Takk fyrir aðferðina – hún bjargaði mér alveg

limitNorrænir guðfræðingar, trúfræðingar og siðfræðingar, þinguðu í Háskóla Íslaands og Neskirkju 10-13. janúar 2013. Um sjötíu manns sóttu fundi og Neskirkja hentaði vel og fangaði hópinn vel. Fjöldi áhugaverðra fyrirlestra voru fluttir og umræður blómstruðu. Mér var falið að flytja setningarfyrirlesturinn í Hátíðarsalnum og er þakklátur fyrir þann heiður. Margir þökkuðu fyrir vatnsvídd lestursins. Ég mun síðan birta þetta efni sem grein í Studia Theologica – Nordic Journal of Theology.

Það var hressandi að hitta fjölda norrænna vitringa og njóta fræða þeirra. Samtalið var þroskað, gagnkvæm virðing ríkti, enginn var talaður niður né talað niður til nokkurs manns. En hins vegar var tekist á um mál og rök óspart notuð ef fólk var ósammála. Því var samtalið gjöfult.

Þinginu lauk á sunnudagsmorgni rétt fyrir messu í Neskirkju. Elisabeth Gjerle prédikaði og stjórnandi þingsins, Arnfríður Guðmundsdóttir prófessor, þjónaði fyrir altari með okkur Neskirkjufólki.

Í hádeginu kvaddi ég gamla og nýja vini sem voru á förum heim. Sara Gehlin, einn af vitringum þessa þings, kom til mín til að þakka fyrir fyrirlesturinn sem ég flutti. Við ræddum svo um ýmis mál og efni. En svo bætti hún við. „Mig langar líka til að þakka þér fyrir doktorsritgerðina þína. Takk fyrir aðferðina – hún bjargaði mér alveg.“ Ég spurði hana við hvað hún ætti. Þá kom í ljós að þegar þessi fræðikona skrifaði meistaraprófsritgerð sína leitaði hún að aðferð og nálgun fyrir eigin ritgerð. Og hún fann aðferðina í ritgerð minni, sem nýttist henni svo vel að hún gat náð utan um efnið og þróað með sínu móti.

Fræðimennska er þjónustustarf, þjónusta við fólk, fræði, hugmyndir og Guð. Þegar bókum er lokið eru þær sendar út í heiminn og svo hefur maður ekki hugmynd um afdrif, lestur eða notkun. Það var mjög gleðilegt og vermdi að fræðapuð mitt í fortíð hafði orðið til hjálpar og var notað sem rammi í fræðiritgerð í Svíþjóð. Vegir fræðaundranna eru margvíslegir og spennandi.

Takk sömuleiðis, það gleður mig að fræðin urðu til gagns og eflingar.