Dýrleif Kristjánsdóttir – minningarorð

Þessi vel gerða og gifturíka kona var bæði döpur og glöð. Hún var næm kvika, jafnvel ofurnæm og oft henni til ama. Ástvinir, nánir vinir og vinkonur þekktu kátínu hennar en vissu líka um eldinn hið innra sem skaddaði.

Dýrleif var komin austur að Seljavallalaug, á fallegum vordegi í maí. Dilla var í hópi kollega, sem ætluðu á tindinn, alla leið upp á Eyjafjallajökul – og þetta var tæplega tveimur árum fyrir gos. Stór hópur göngugarpa, aðallega lögfræðingar og makar þeirra. Svo var lagt í hann, framundan voru margar brattar brekkur. Markið, jökultoppurinn, var langt í burtu. Kátína og sprell hljóp í hópinn. Sum sungu “druslur” og jafnvel “kommúnistasöngva” eins og það var orðað í mín eyru. Spennandi, ögrandi leið, mörg skref – og ákveðinn vilji. Mikil hækkun á stuttum tíma, hraður hjartsláttur, gengið greitt – eiginlega of hratt. Áfram og svo fór að síga í, lyfta fæti og færa fram. Og svo hinn fótinn upp og fram. Stíga niður, varast steina og það brakaði í snjónum efra. Verkir fóru að færast í bak og þreytan læddist að. Nei, hún ætlaði ekki að setjast niður, ekki gefast upp og gráta yfirbuguð og af vonbrigðum. Nei, hún ætlaði ekki að láta bíða eftir sér. Nei, það var ekki stíll Dýrleifar Kristjánsdóttur að láta sitt eftir liggja og gefa eftir. Hennar háttur var fremur að gera betur en flestir, afreka meira en krafist var og skara fram úr hvað sem aðrir gerðu eða vildu. Og hún komst á toppinn. Þar uppi mætir himininn hvítum jökli og til að orða Laxneskt: “…þar sem jökulinn ber við loft ríkir fegurðin ein, ofar allri kröfu.” Hún gerði til sín miklar kröfur, kláraði allt, gat eiginlega allt. Hið ytra var kyrrt en undir logaði eldur.

Göngur eru sem tákn um líf, lífsgangan í smækkaðri útgáfu. Gangan hennar Dýrleifar var ekki auðveld. Henni var flest vel gefið, en hið innra var nagandi funi og þó oftast haminn. Dýrleif barðist við að stjórna eldvörpunum, reyndi að nýta til góðs og tryggja að yrði ekki að fjörtjóni. Dýrleif var flott, framúrskarandi í öllu en þó var sprunga í henni, leið eldsins.

Uphafið og fjölskyldan

Hún hét fullu nafni Guðrún Dýrleif Kristjánsdóttir og fæddist í Reykjavík vorið 1958 en lést að hausti aðeins 54 ára gömul. Foreldrar hennar voru hjónin Kristján Jónasson og Unnur Jónsdóttur. Hún er ljósmóðir en hann var læknir. Dýrleif var elst, en svo kom Stefán í heiminn árið 1960 og systurnar Guðríður Anna og Kristín Jóna fæddust 1966 og 67. Kristján fór utan í læknisnám og fjölskyldan með honum. Bernska Dýrleifar var fjölbreytileg. Hún var eldsnögg að læra á nýjar aðstæður og setja sig inn í ný verkefni. Og það kom sér vel þegar hún var skyndilega komin til  Álaborgar í Danmörk og varð talandi á dönsku á fjórum mánuðum. Svo þurfti hún að beita sömu hæfni og getu í Eskilstuna í Svíþjóð þegar fjölskyldan flutti þangað. Þegar Kristján hafði lokið námi sneri hópurinn til baka og í Vesturbæinn. Dýrleif fór í Hagaskóla, við hlið kirkjunnar, og lauk landsprófi árið 1974. Svo lá leið hennar eins og flestra framhaldsskólanema vestan við Læk – á þessum tíma –  í MR og hún varð stúdent vorið 1978.

Í Landakotsspítala sá hún, kynntist og féll fyrir þýska læknanemanum Karl-Heiz Gerhard Grimm. Og það hitnaði á milli þeirra, þau hófu hjúskap og svo eignuðust þau Kristján Gerhard. Karl var við nám í Göttingen og þangað fór Dýrleif með honum. Og þó hún hefði enga þýsku lært í MR var hún svo málanæm að hún lærði þýsku á hálfu ári og innlendir héldu að hún væri innfædd. Þýskukunnáttan og hin mikla málafærni reyndist síðar vel á vinnustöðum Dillu, bæði á sjúkrahúsum og í lögmennsku. Þau Dýrleif og Karl skildu en ræktuðu tengslin og Kristján sonur þeirra átti ekki aðeins íslenska stórfjölskyldu heldur líka þýska. Dýrleif fór reglulega í heimsókn til fyrrum tengdamóður sinnar í Konstanz og engu breytti þó tengdamóðir hennar væri sjúk. Dýrleif var trygg vinum sínum og vandafólki og ekki síður þegar fólk þarfnaðist hennar.

Hjúkrunarfræði en líka lögfræði

Móðir hennar er ljósmóðir og faðirinn læknir – og Dilla velti vöngum yfir háskólanámi og endaði svo í hjúkrunarfræðinni. Hún lauk B.Sc.-námi frá HÍ í mars árið 1986. Hún vann við kennslu eitt ár, en á fyrri hluta starfsferilsins starfaði hún við hjúkrun. Hún vann á sjúkrahúsi, var á Heilsugæslustöðinni á Seltjarnarnesi og var deildarstjóri á Droplaugarstöðum. Þið, sem þekktuð hana, vitið hversu metnaðarfullur fagmaður hún var, klár og vel lesin í öllu sem hún tók sér fyrir hendur. Hún var náttúrulega og eðlilega framúrskarandi. Hún var leiðtogi og vildi hafa áhrif og móta stefnu. Samstarfsfólk Dýrleifar á Heilsugæslustöðinni á Nesinu biður fyrir kveðjur til þessa safnaðar.

Ýmsar sögur hef ég heyrt um hæfni Dýrleifar. Í fyrradag var ég á fundi út í bæ. Þar sagði kona mér frá að hún hafði hringt í Dillu vegna svefnvandræða ungabarns. Þá var Dýrleif orðinn lögfræðingur en hafði engu gleymt í hjúkruninni og ráðlagði uppgefinni móður svo vel að barnið svaf og foreldrarnir önduðu léttar.

Líf Dýrleifar var stöðug ferð á brattann. Hún var tilbúin að skoða mál frá nýjum og jafnvel óvæntum sjónarhornum. Og það sýnir mikið hugrekki að þora að vera búin með háskólanám og ganga vel í starfi, en leggja svo í alveg nýtt og strangt nám á miðjum aldri. Þegar Dýrleif var búinn að sjá allt sem hún vildi sjá og gera allt það sem hún vildi gera sem hjúkrunarfræðingur setti hún kappa og slopp inn í skáp og hóf laganám. Hún var í lávarðadeild eldri nemenda og eignaðist nýja vini og vinkonur í menningarkima lögfræðinnar. Hún hóf störf hjá Lagastofnun HÍ meðan hún var í námi. Dýrleif var cand. juris árið 2004 og varð þá lögfræðingur á sveitarstjórnarsviði félagsmálaráuneytis. Það fór ekki fram hjá glöggum lögfræðingum hvílíkur ofurstarfsmaður Dilla var og forystumönnum á Lex tókst að sannfæra hana um að færa sig yfir á þá lögfræðistofu árið 2005. Hún varð meðeigandi og Lex var hennar vinnustöð til dauðadags og þar eignaðist hún vini. Vinnufélagar á útibúi skrifstofunnar á Akureyri nutu starfskrafta hennar líka um nokkurra ára skeið. Þóra Leifsdóttir sendir þessum söfnuði kveðju sína og fjölskyldu. Dilla varð heimagangur á heimili Þóru fyrir norðan og Þóra kenndi henni á skíði sem Dilla hafði litla trú á að hún gæti lært. En hún hafði vilja til að prufa.

Dýrleif ræktaði með sér áhuga og þekkingu á auðlindarétti og alþjóðlegum umhverfisrétti. Með fullri vinnu fór hún með skipulegum hætti að bæta við sig í þeim greinum. Og á náttborðinu hennar – þegar hún féll frá – var fræðibók um olíu, pólitík og umhverfisrétt, sem gæti kannski kallast olíuréttur. Dilla stefndi að því að ljúka meistaraprófi í auðlinda- og umhverfis-rétti á næsta ári.

Hún gegndi ýmsum félags- og  trúnaðarstörfum, sat um tíma í stjórn starfsmenntasjóðs Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, var prófdómari við HÍ um tíma og var einnig stundakennari við lagadeild HÍ.

Eigindir

Hvernig var Dýrleif? Hvað mannstu? Dilla fór víða, var útivistarkona, átti samskipti við marga, hugsaði sitt, ól Kristján upp, lagði til heimili fyrir hann og Hjördísi Ernu Sigurðardóttir. Svo varð hún amma. Rebekka Rut, Rannveig Lára og Rúnar Máni voru sólargeislar í lífi hennar sem hún kunni að meta og vildi vernda og efla.

Hún var vinur vina sinna, hafði vakandi áhuga á velferð þeirra og fólksins síns. Dilla hafði enga gleði af grunnhyggnu smáhjali í hóp og sótti ekki í samkvæmi en þráði hins vegar ærleg samtöl og djúp samskipti. Hún var fyndin, orðheppin og gat yddað ef hún vildi. Hún var bóngóð og þjónaði vel ef hún gat. Hún vildi fremur gæðastundir með vinum sínum og vinkonum en fjölmenni. Hún vildi vita um líðan vina sinna og ástvina þeirra og gat talað um eigin hag við þau sem voru henni náin. Því átti hún fremur vini en kunningja, átti trúnað þeirra og stóð með þeim þegar á þau hallaði eða á bjátaði í þeirra lífi. Og þeirra naut hún sömuleiðis þegar dimmdi í hennar lífi. Þeim skal þakkað við leiðarlok – takk þið góðu vinir og vinkonur.

Dýrleif var skipulögð og umfram allt kröfuhörð á sjálfa sig og verk sín. Allt sem hún tók að sér gerði hún vel og vann til enda. Hún gat verið veislustjóri í fimmtugsafmæli og var pollróleg þó kviknaði í gluggatjöldum í miðjum gleðskapnum. Þá var bara slökkt og samkvæmið hélt áfram.

Dilla var alla tíð mjög fróðleiksfús, leitandi og opin. Hún var afburða námsmaður í öllum greinum, hafði hæfnia enda skoraði hún ógnarhátt á greindarprófi. Hún var stórbrotin og gjafmild. Hún var leiðtogi, skaprík og ákveðin og með sterka siðferðiskennd. Já, Dilla var framúrskarandi í öllu.

Depurðin

Foreldrar Dýrleifar gáfu börnum sínum öryggi í uppeldi. Heimilislífið var rammað af reglusemi og festu. Alla tíð var Dýrleifu mikilvægt að tilvera hennar væri í góðum eða talsvert föstum skorðum, kannski ekki síður af því að stundum átti hún sjálf erfitt með að ákvarða hvar mörk væru og þyrftu að vera. Festuþráin kom fram í hve mikla nákvæmni hún vildi í forskriftum og uppskriftum. Dillu fannst t.d. ekki mikið til mataruppskrifta koma sem höfu slettu af þessu og dass af hinu! Í henni kepptu ýmsar þarfir og toguðu jafnvel í ólíkar áttir. Dilla var leitandi en jafnframt ákveðin, blíð en stórbrotin, heit en líka köld.

Og þá erum við komin að lífsglímu hennar. Þessi vel gerða og gifturíka kona var bæði döpur og glöð. Hún var næm kvika, jafnvel ofurnæm og oft henni til ama. Ástvinir, nánir vinir og vinkonur þekktu kátínu hennar en vissu líka um eldinn hið innra sem skaddaði. „Þú mátt gjarnan tala um það líka“ sagði fólkið hennar Dillu. Og svo létu þau ekki þar við sitja heldur hafa með stuðningi vina stofnað Minningarsjóð Dýrleifar Kristjánsdóttur, til styrktar auðlinda- og umhverfis-rétti en líka til styrktar geðvernd. Dýrleif glímdi frá unglingsárum við depurð. Eldurinn hið innra brenndi hana, vargur dró úr henni mátt og kjark og nagaði hana. Það var mein hennar og dró að lokum úr henni fjör, lífið sjálft. Þunglyndi er dauðans alvara.

Dilla var stolt af vinum sínum sem þorðu að tala opinberlega um andleg mein. Hún vildi gjarnan að þau mál væru rædd opinskátt. En hún átti kannski ekki auðvelt með að tala um eigin vanda. En þau sem sáu hana vel, höfðu í sér næmni og getu til að staldra við, horfa djúpt í augu og spyrja, fengu svör og orð. Og víst er að fagmaðurinn Dýrleif hafði skoðað sín mál frá öllum hliðum og fræðum og unnið markvisst með vanda sinn í meðferðum.

Allar ferðir eiga sér enda. Ferðir á jökul geta tæmt og þá er lífið farið. Eftir erum við slegin – þið ástvinir, móðir, sonur og tengdadóttir, afkomendur, systkin, vinir og vinkonur, vinnufélagar og venslafólk. Af hverju? Hvílíkt reiðarslag og hvílíkur missir. Já, en hvernig er hægt að bregðast við og hvað er hægt að gera? Næra lífið. Fara vel með þitt eigið líf, hlúa að elskunni þinni, börnunum þínum, fólkinu þínu, lifa vel, horfast í augu við áföllin, missinn, gráta en hlægja líka. Strjúka fólkið þitt og faðma, tala og þora að tjá ást og dýpstu tilfinningar. Flýja ekki sprungusvæðin heldur binda sig saman þegar að þeim er komið, viðurkenna að andleg mein eru raunveruleg og með þau þarf að vinna.

Og leyfðu Dýrleifu að fara. Farðu vel með minningar, talaðu um hana, segðu sögur um hana og segðu að minnsta kosti eina í erfidrykkjunni á eftir.

Ljósufjöll eilífðar

Dýrleifu þótti gaman að göngum. Hún gekk kvöld eftir kvöld hér um Vesturbæinn og nýtti sér einnig fjallageim höfuðborgarsvæðisins. Hún gekk ekki aðeins Laugaveginn í Reykjavík heldur líka Laugaveginn milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Líf hvers manns er ferð og ferðir þínar eru táknmynd um æviferð þína. Hún fór upp á jökul þar sem fegurðin ríkir og fór líka í Ljósufjöll. Mörgum sést yfir að dagarnir eru stórkostlegir, líka þessir gráu og köldu. Og það er ekki sjálfgefið að við náum næturstað að kvöldi, rúmi til hvíldar og fæðu til næringar. Og hvað er ofar hverri kröfu?

Barnabörn Dillu og ungt frændfólk hennar sátu hér á kirkjutröppunum í gær og við ræddum að nú væri líkami hennar dáinn en lífið hennar hefði farið til Guðs. Hvernig við eigum að skilja þau sannindi verður ekki skilgreint með lagagreinum, stjórnarskrárákvæðum eða lífeðlisfræði. En það er vonarmál gagnvart vinkonu og stórbrotinni konu sem er farin. Og það hefur löngum verið svo að í dauðanum er uppspretta lífs, í óreiðunni vex upp viska, í myrkum aðstæðum kviknar ljós vona. Og lífið sprettur upp úr dauðagrjóti, páskar eru á eftir löngum föstudegi. Við megum alveg sjá Dillu fyrir okkur í Ljósufjöllum vona okkar. Og við megum leyfa henni að fara og þurfum að leyfa henni að fara. Mér þótti gott að heyra sögurnar um hana sem barn í sandkassa í Álaborg að læra dönsku – eða í Eskilstuna að læra sænskan framburð eða renna sér sér í gegnum dativus og accusativus í þýskunni síðar. Ég trúi að hún hafi hæfni til að læra himneskuna hvernig sem hún er. Og hún má gjarnan vinna í auðlindarétti eilífðar – þar eru aldeilis stórkostleg verðmæti, góð pólitík, óspilltur réttur og dómstólarnir óflekkaðir. Og þar eru meistaraefnin metin að verðleikum. Í Ljósufjöllum eilífðar má barnið Dilla verða allt það sem hún átti í vonum sálar alla ævi, losna við myrkrið og baða sig í ljósinu.

Guð blessi Dillu og varðveiti í eilífð sinni.

Guð geymi þig, blessi og líkni.

Amen.

Minningarorð flutt í Neskirkju 7. nóvember, 2012.