Undrið í leigubílnum

Leigubílstjórinn sofnaði, bensínfóturinn seig og skyndilega var bíllinn kominn upp í 150. Íslenskir þingmenn, ökumaðurinn og starfsmaður Alþingis í bráðri lífshættu. Hvað getur bjargað þeim? Eru englar meðal manna?

Undrið í leigubílnum

Ég byrja reisu mín,

Jesús, í nafni þín,

höndin þín helg mig leiði,

úr hættu allri greiði.

Jesús mér fylgi í friði

með fögru engla liði.

(493. sálmur í sálmabók)

Þetta er ferðbæn Hallgríms Péturssonar. Foreldrar mínir kenndu mér í bernsku þessi bænarorð. Á miðvikudaginn fór ég með þau þegar eldri borgarar fóru í Neskirkjuferð um Suðurnes og á prestskaparslóðir Hallgríms – m.a. í Hvalsnes. Ég byrja reisu mín – Jesús mér fylg í friði með fögru englaliði.

Í sumar fór vinur drengjanna minna með okkur í sumarbústaðarferð austur fyrir fjall. Þá kenndum við, fjölskyldan, honum þessa ferðabæn einnig. Með iðkun og orðum miðlast afstaða og traust og milli kynslóða. Svona bæn er líftrygging. Bæn um vernd og um styrka hendi sem vekur af dauðasvefninum – með fögru englaliði.

Hvenær er maður öruggur? Eru úrslit kosninga gærdagsins hættuspil á leið þjóðarinnar? Hvernig líður þér þegar þú leggur upp í langferð? Er í þér ferðakvíði eða flugkvíði? Ertu alltaf alveg viss um að ferðin þín verði eins og þú skipuleggur hana? Fólk hefur um aldir vitað að lífið er brothætt og leiðir ótryggar. Guðsríkið veitir bestu líftryggingarnar! Og því hafa ferðabænir verið beðnar.

Bréfið

Rétt áður en við lögðum af stað í Suðurnesjaferðina á miðvikudag kíkti ég á tölvupóstinn minn. Meðal fundarboða og ópersónulegra erinda beið mín bréf frá vini mínum. Ég fór að lesa, erindi hans var svo rosalegt að hjartað í brjósti mér sló örar, tár leituðu fram í augnakróka og ég hrópaði upp yfir mig: „Guð minn góður.“ Og svo hraðlas ég bréfið aftur og frásögn þess og erindið sökk í djúp sálar minnar.

Þetta bréf á erindi ekki bara við mig heldur alla. Ég fékk því leyfi bréfritans að lesa það í heyranda hljóði. En áður en ég les bréfið er vert að kynna ritarann og fjölskyldu hans. Sonur hans var drengurinn sem lærði ferðabæn Hallgríms í sumar. Bréfritarinn er stjórnmálafræðingur, býr hér í sókninni og er kunnáttusamur embættismaður sem þjónar vel alþingismönnum, Alþingi og þar með þjóðinni. Hann og kona hans eiga þrjá mannvænlega drengi. Ég hef löngum dáðst að hversu samhent hjónin eru, hve óhikað þau forgangsraða í þágu drengjanna sinna. Og ég hef líka séð þau syngja í Mótettukór Hallgrímskirkju. Þar lærðu þau að syngja ferðabæn Hallgríms. „Ég byrja reisu mín, Jesús í nafni þín,“ bæn um verndarhönd og helga engla. Og þá að bréfinu frá miðvikudeginum:

„Kæri Sigurður Árni.

Mikið undur gerðist í gær, í ferð minni erlendis með tveimur þingmönnum. Kann ekki að orða það öðruvísi, en ég upplifði mjög sterkt leiðarljós Guðs.

Leigubílstjórinn sofnaði með okkur í bílnum. Á 120 km hraða, en fótur hans fór niður í gólf svo við vorum eldsnöggt komin upp fyrir 150 km hraða. Þetta gerðist allt mjög hratt, en nú skal ég útskýra hvað gerðist. Þetta var eftir fundinn sem við sóttum. Þá barst mér svohljóðandi SMS frá konunni minni:

„Sendi í gmail ef thu kemst i tolvu, goda ferd minn elskulegi eiginmadur, hlakka til ad fa thig heim“ (Svo var broskall með kossi).

Konan mín vissi að við værum að fara út á flugvöll og þetta hlyti að vera mikilvægt, svo ég fékk að komast í tölvu niðri í anddyri hótelsins. Hún hafði sent mér tölvupóst með fallegri frásögn af drengjunum okkar, en svo bætt við öðrum pósti þar sem hún skrifaði eina línu:

„nú syngur allt í einu í huganum á mér… Ég byrja reisu mín….“

Mér fannst þetta vel til fundið. Í fyrsta skipti sem hún sendir mér texta með þessum hætti. Varð strax hugsi yfir að rifja upp þennan yndislega texta eftir Hallgrím og það fallega lag, sem við höfum sungið með Mótettukórnum:

Ég byrja reisu mín,

Jesús, í nafni þín,

höndin þín helg mig leiði,

úr hættu allri greiði.

Jesús mér fylgi í friði

með fögru engla liði.

 

Í voða, vanda og þraut

vel ég þig förunaut,

yfir mér virstu vaka

og vara á mér taka.

Jesús mér fylgi í friði

með fögru engla liði.

Var með þetta í huganum, því það næsta sem við gerðum var að setjast upp í leigubílinn. Hugsaði um hve falleg ferðabæn þetta er: Höndin þín helg mig leiði, úr hættu allri greiði… …yfir mér virstu vaka og vara á mér taka.

Við vorum á leið á flugvöllinn, um 45 mín akstursfjarlægð frá borginni. Ég sat beint fyrir aftan bílstjórann, horfði út um gluggann og fylgdist með landslaginu. Leigubílstjórinn ók talsvert greitt, hélt sér óslitið á hraðaukstursgreininni. Allt í einu er mér litið í spegilinn og sé framan í leigubílstjórann, og sé þá hvar hann bærir augnlokin afar hægt. Þau síga hægt, hægt og ég finn hárin rísa á hnakkanum. Svo lokast augun. Hann stígur bensínið í botn og ég hugsaði: „Guð minn góður.“

„Hann er sofnaður,“ sagði ég, á meðan ég teygði mig fram og snart vinstri öxlina hans, sagði rólega: „Okkur liggur ekkert á.“ Hann vaknaði og gerði það fumlaust, engir kippir eða erfiðleikar. Bíllinn fór einungis að hluta yfir á næstu akrein. Hann minnkaði hraðann og ég talaði við hann það sem eftir var til flugvallarins. …og hann var áhugasamur um aksturinn á meðan.

Ég áttaði mig á því, að við vorum í bráðri lífshættu. Allt fór vel. Sannkallað undur. Konan mín hafði ekki einungis sent póst um tilfinningar sínar, heldur sérstaklega sent SMS svo ég færi örugglega að skoða póstinn. Við njótum sannarlega blessunar. Ég þakka Guði fyrir, þakka honum fyrir daginn í dag. Þakka fyrir alla daga. Allt sem við gerum gott. Fyrir yndislegu fjölskylduna mína. Fyrir yndislega vini. Það er svo margt til að gleðjast yfir – til að vera hamingjusamur yfir.“

Vernd og mennskir englar

Hvílík blessun. Tveir íslenskir þingmenn í bíl, starfsmaður þingsins og leigubílstjóri sem sofnaði. Þarna var vökull maður, embættismaður sem ekki dottaði heldur hélt vöku sinni og bjargaði eigin lífi, lífi ferðafélaga sinna og líka ökumannsins. Konan hans varð manni sínum verndarengill og sendi honum ferðabæn, hann fór að syngja hana hið innra, hann tók hana með sér í ferðina og hann varðveitti vökuna í sér, lífsgætnina. Og þegar menn biðja heyrir Guð.

Ég sá fyrir mér fallegu drengina hans. Hvað hefði gerst ef hann hefði ekki verið á vaktinni, ég gat ekki hugsað þá hugsun til enda að hann hefði farið inn í eilífðina og að samferðarmennirnir tveir hefðu látist í bílslysi sem og bílstjóri þeirra. Jesús mér fylgi í friði með fögru engla liði.. segir í bænasálminum.

Ég minnti bréfritarann á símleiðis þegar hann var kominn heim til Íslands að hann hefði sjálfur orðið verndarengill ferðafélaga sinna. Ég hef fylgst með rósemd og styrk hans í uppeldi og skynjaði að með fullkomlega fumlausum hætti hefði hann snert öxl sofandi bílstjóra á 150 km. hraða og sagt honum að ekki þyrfti að aka svona hratt. Það var nóg. Engillinn hafði snert og talað. Bílstjórinn vaknaði og var haldið við samtal til leiðarenda. Yfir mér virstu vaka og vara á mér taka. Englar eru líka mennskir.

Við erum á ferð á ævivegi okkar. Hvaða verndar njótum við? Kosningar eru afstaðnar. Hvaða sáttmála og framtíð fáum við? Það er eins gott að embættismennirnir og þingmennirnir aki ekki útaf á þeirri leið. Í guðspjalli dagsins er sagt frá konungsboði og veislan varðar lífsafstöðu, grunnreglur, trú og trúleysi? Sagan frá vernd í leigubíl í fjarlægu Evrópulandi speglast í sögu Jesú um boðið mikla. Taxisagan og konungssagan eru tvær lykilsögur til íhugunar hvernig við lifum, sem einstaklingar og þjóð. Við erum fólk á fleygiferð. Og niðurstaðan í lok bréfsins var frá þakklátum föður, embættismanni Alþingis sem er sprellifandi. Hann lýkur bréfi sínu og okkur til íhugunar:

„Þetta er yndislegt líf. Ég þakka fyrir höndina sem fylgir okkur og fyrir faðminn. Með kærri kveðju frá djúpt snortnum og lífsins þakklátum…” og svo skrifaði hann nafnið sitt undir.

Þannig lauk þessu bréfi. Jesús, Hallgrímur og bréfritarinn á Alþingi eru á sömu leið. „Höndin þín helg mig leiði….Jesús mér fylg í friði með fögru englaliði.“ Takk fyrir lífið og lífsverndina.

Amen.

Hugleiðing í Neskirkju 21. október, 2012, 20. sd. eftir þrenningarhátíð.

Textaröð:  A

Lexía:  Jes 55.1-5

Komið, öll sem þyrst eruð, komið til vatnsins

og þér sem ekkert fé eigið, komið,

komið, kaupið korn og etið,

komið, þiggið korn án silfurs

og endurgjaldslaust, bæði vín og mjólk.

Hvers vegna reiðið þér fram silfur fyrir það sem ekki er brauð

og laun erfiðis yðar fyrir það sem ekki seður?

Hlýðið á mig, þá fáið þér hina bestu fæðu

og endurnærist af feitmeti.

Leggið við hlustir og komið til mín,

hlustið, þá munuð þér lifa.

Ég ætla að gera við yður ævarandi sáttmála

og miskunn mín við Davíð mun stöðug standa.

Ég gerði hann að vitni fyrir þjóðirnar,

að höfðingja og stjórnanda þjóðanna.

Sjá, þú munt kveðja til þjóðir sem þú þekkir ekki

og þjóðir, sem ekki þekkja þig, munu skunda til þín

vegna Drottins, Guðs þíns, Hins heilaga Ísraels,

því að hann hefur gert þig vegsamlegan.

Pistill:  Ef 5.15-21

Hafið því nákvæma gát á hvernig þið breytið, ekki sem fávís heldur sem vís. Notið hverja stund því að dagarnir eru vondir. Verið því ekki óskynsöm heldur reynið að skilja hver sé vilji Drottins. Drekkið ykkur ekki drukkin af víni, það leiðir aðeins til spillingar. Fyllist heldur andanum og ávarpið hvert annað með sálmum, lofsöngvum og andlegum ljóðum. Syngið og lofið Drottin af öllu hjarta og þakkið jafnan Guði, föðurnum, fyrir alla hluti í nafni Drottins vors Jesú Krists.

Guðspjall:  Matt 22.1-14

Þá tók Jesús enn að segja þeim dæmisögu: „Líkt er um himnaríki og konung einn sem gerði brúðkaup sonar síns. Hann sendi þjóna sína að kalla boðsgestina til brúðkaupsins en þeir vildu ekki koma. Aftur sendi hann aðra þjóna og mælti: Segið boðsgestunum: Veislu mína hef ég búið, uxum mínum og alifé er slátrað og allt er tilbúið, komið í brúðkaupið. En boðsgestirnir skeyttu því ekki. Einn fór á akur sinn, annar til kaupskapar síns en hinir tóku þjóna hans, misþyrmdu þeim og drápu.

Konungur reiddist, sendi út her sinn og lét tortíma morðingjum þessum og brenna borg þeirra. Síðan segir hann við þjóna sína: Brúðkaupsveislan er tilbúin en boðsgestirnir voru ekki verðugir. Farið því út á stræti og torg og bjóðið í brúðkaupið hverjum þeim sem þið finnið. Þjónarnir fóru út á vegina og söfnuðu öllum, sem þeir fundu, vondum og góðum, svo að brúðkaupssalurinn varð alskipaður gestum.

Konungur gekk þá inn að sjá gestina og leit þar mann sem var ekki búinn brúðkaupsklæðum. Hann segir við hann: Vinur, hvernig ert þú hingað kominn og ert ekki í brúðkaupsklæðum? Maðurinn gat engu svarað. Konungur sagði þá við þjóna sína: Bindið hann á höndum og fótum og varpið honum í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna. Því að margir eru kallaðir en fáir útvaldir.“