Inga Sigurjónsdóttir 1929 – 2012

Inga var sumarbarn, eiginlega sumargjöf og svo dó hún inn í haustið. Lífið er að láni og svo skilum við af okkur og hverfum inn í eilífðina. Hvernig er það?

Sunnudagurinn síðasti er gjarnan kallaður páskadagur á hausti. Við þekkjum jú páskana, dag lífsins, dag upprisunnar, dag vonar og gleði. En páskar eru á vorin þegar vetri lýkur og lífið vaknar að nýju. En páskadagur á hausti? Af hverju? Þann dag er lesið hið merkilega guðspjall um konu, son hennar og lausnarann. Ungur maður lét lífið og móðir hans, ekkjan, átti ekki önnur börn. Og þegar gamalt fólk missti börnin sín var sem ellistoðin hyrfi. Í samfélagi fornaldar var engin félagsþjónusta eða ellilífeyrir. Þegar börnin dóu var endi náð. Þannig var staða ekkjunnar sem fylgdi syni til grafar. Öllu var lokið þegar líkfylgdin mætti höfundi lífsins, Jesú Kristi. Og þar sem dauðinn og líf Guðs mætast lifnar hið látna. Ekkjan fékk yndið sitt að nýju, sonur fékk líf og heimsbyggðin sögu til að lífga haust mannlífsins. Því eru þessir dagar páskavika á hausti, vika lífsins.

Og hvað ætlar þú að gera við þessa viku og upplifanir í þínu lífi? Getur þú hugsað þér að fara yfir líf Ingu og draga það besta og mikilvægasta sem hún var, gerði eða tjáði og læra af því til góðs. Hún átti margt í sér sem er eftirbreytnivert og vafalaust eitthvað sem þér líkaði þér kannski ekki við. Hún lagði börnum sínum til líf, átti stundir fyrir vinkonur og ættingja, bita í unga munna, umhyggju og athygli gagnvart bónda sínum og frændgarði. Líf Ingu var fjölbreyitlegt og nú er því lokið og komið að skilum. Hún dó inn í páska á hausti og er jarðsett í þessari viku lífsáminningar. Og þá er stóra samhengið komið og þitt og fjölskyldunnar að gera upp lífsþræðina til góðs og framtíðar.

Æviágrip

Inga Sigurjónsdóttir fæddist 15. júlí árið 1929. Já, hún var því sumarbarn. Foreldrar hennar voru Ingibjörg Hjálmarsdóttir og Sigurjón Sigurbjörnsson. Mamman var að austan, úr Loðmundarfirði, en pabbinn af Vesturlandi, frá Hítarnesi. Þau fóru svo bil beggja og bjuggu í Vestmannaeyjum þegar Inga fæddist. Ingbörg sá um heimilið og Sigurjón starfaði sem tollþjónn og verslunarstjóri. Selma, yngri systirin, fæddist svo á Alþingishátíðarárinu 1930.

Vestmannaeyjar voru uppeldisreitur Ingu. Mikil fjölgun íbúa varð í Eyjunum á fyrri hluta tuttugustu aldar og þegar þær systur fæddust voru íbúarnir á fjórða þúsund og hafði fjölgað tífalt á undanliðnum áratugum. Samfélag í þennslu er auðvitað spennandi. Mikið var um að vera, alltaf eitthvað nýtt á seiði og gaman fyrir börn að vaxa úr grasi. Já, Vestmannaeyjar urðu stórfang fyrir Ingu og hún naut alls sem samfélagið hafði að bjóða og vináttu og tengsla við fjölda fólks æ síðan.

Inga fékk menntun sína í Vestmannaeyjum og lauk gagnfræðaprófi. Hún var eðlisgreind, námfús og skörp. Þegar Inga var milli tektar og tvítugs var kominn ferðahugur bæði í hana og fjölskyldu hennar. Inga hafði tækifæri til að fara til Danmerkur sem au pair-stúlka. Sú reynsla gaf henni útsýn og varð henni málanáms- og menntunarhvati. Alla tíð síðan naut hún dönskukunnáttu sinnar og Danmerkurþekkingar, fylgdist með því sem var að gerast í dönsku samfélagi og las dönsku blöðin.

Fjölskylda þeirra Selmu og Ingu flutti svo til Reykjavíkur undir lok fimmta áratugarins. Sumarkonan Inga fékk strax vinnu á skrifstou Sumargjafar.

Guðmundur – Garðar og Sigrún

Inga hafði augun hjá sér í vinnunni og líka í prívatlífinu. Hún sá mannsefni sitt, Guðmund Magnús Kristinsson hjá tengslafólki í Sogamýrinni. Hann var glæsimenni, hún hreifst af honum og sagði um hann að hann hafi verið fallegur, já, fallegasti maður sem hún hafði séð og svo hafi verið svo góð lykt af honum líka! Og það er betra að skynjun sé góð og skynfærin í lagi í hjúskapnum.

Guðmundur var á sjó, farskipum, á þessum árum og kom reglulega í land, þau kynntust betur og svo hófu þau hjúskap, gengu í hjónaband í septemberbyrjun 1953. Svo komu börnin þeirra í heiminn og Inga hætti útivinnu og sá um heimilið.

Garðar fæddist í desember árið 1954. Hann er heila- og taugaskurðlæknir. Eiginkona hans er Guðrún Helgadóttir, þroskaþjálfi. Þeirra börn eru Fífa, Hugi og Arnar Helgi. Kona Huga er Guðríður Anna Grétarsdóttir og kona Arnars Helga er Margrét Björk Ólafsdóttir.

Seinna barn Ingu og Guðmundar er Sigrún Kristín sem fæddist í júlí 1957. Sigrún er leikskólakennari og sambýlismaður hennar er Torfi Ólafsson, rekstrarfræðingur. Sigrún á fjögur börn. Guðmund Brynjar, Magnús Má, Tinnu Björgu og Ingu Hrönn. Kona Magnúsar Más er Guðlaug Elísa, maður Tinnnu er Einar Logi. Og svo eru barnabörn Sigrúnar fjögur.

Tinna Björg er erlendis og getur ekki verið við þessa útför og biður fyrir kveðjur til þessa safnaðar.

Lífið og störfin

Guðmundur var á Esjunni og ýmsum öðrum strandferðaskipum þessi fyrstu ár sambúðar þeirra hjóna. Hann var stýrimaður og varð svo skipstjóri með tímanum. Þau Inga keyptu af foreldrum hennar íbúð á Miklubraut. Þau bjuggu um tíma á Kleppsvegi, líka í Kópavogi og fóru svo í Hvassaleiti. Þar var á þessum árum mikið fjör, börn í öllum skotum og íbúðum og mannlíf ríkulegt.

Þegar börnin voru komin í skóla fór Inga að vinna að nýju. Hún hafði unnið á skrifstofu og fékk vinnu á skrifstofu Mjólkursamsölunnar. Og þar var tölvuöld að hefjast með hinum risastóru spjaldtölvum, sem voru ekki árennileg tæki ófróðum. En Inga hafði skerpuna og það var grínast með að Mjólkusamsölufólkið hefði farið í gáfnapróf og hún hefði komst svo vel frá því að hún var sett í tölvuvinnsluna. Og Inga kunni alveg að gata spjöld og sjá um pantanir í búðirnar og alla umsýslu Mjólkursamsölunnar.

Guðmundur kom svo í land, stofnaði fiskverkun, sem ekki gekk og fjölskyldan varð fyrir fjárhagslegum búsifjum sem varð til að selja varð íbúðina. Til að afla tekna og leysa heimilishnútana fór Guðmundur til útlanda og vann fyrir ýmis skipafélög. Meðal þeirra var hið danska MAERSK. Og um tíma bjuggu þau Inga í Danmörk, keyptu sér hús í Kalundborg. Inga naut þessara ára – hafði sitt hús og sinn eigin garð sem hún ræktaði vel og bauð til sín vinafólki og fjölskyldu. Svo hafði hún um tíma tækifæri til að sigla með Guðmundi. Þau fóru um allan heim þegar hann vann á risastórum olíuflutningaskipum. Þau fóru á þessum árum á hafnir og staði sem Íslendingar almennt þekktu bara nöfnin á. Um tíma sigldi Guðmundur á næst-stærsta skipi heims.

Svo komu þau heim að nýju. Inga fór að vinna á Tryggingastofnun og sá m.a. um sjúkrasamlagsreikininga. Hún hætti svo vinnu um sjötugt og svo dó Guðmundur skömmu síðar svo það var dapðurlegt og tómlegt í húsinu hennar Ingu á Víðimelnum. Þar bjó hún þar til fór að halla undan hjá henni vegna hrörnunarsjúkdómsins Alzheimer. Hún for á Grund í upphafi þessa árs og lést þar 83 ára að aldri.

Minningar og lífið

Hvað gerir þú við minningarnar? Inga vildi stjórna sínu heimili eins og farmannskonur gerðu. Lífið var henni enginn rósadans og hún þurfti oft að beita sér gagnvart hvatvísum manni sínum sem gerði mistök sem hún þurfti stundum að leysa. Hún var reglukona og sá til þess að börnin komust til manns.

Inga var félagslynd, alltaf til í að fara á mannamót, sótti gjarnan í leikhús og ræktaði samband með löngum símtölum við fólkið sitt, vinafólk og þar með talda vini úr Eyjum.

Inga var fín í sér og vildi vera fín. Hún vildi alltaf eiga varalit og þótti gott að setja upp hárið eins og við sjáum vel á myndinni á sálmaskránni.

Hún var trúuð og signdi börnin sín þegar hún íklæddi þau í hreint. Hún tamdi sér æðruleysi sem kom henni oft vel þegar gaf á í lífssiglingunni. Hún gat jafnvel sagt þegar hún fékk brjóstakrabba um sjötugt að það væri nú ekkert mál þó hún fengi ofurlítið krabbamein, henni hefði ekki orðið misdægurt í sjötíu ár!

Og hún komst til hafnar í sinni lífssiglingu. Og var tilbúinn að fara inn í himininn. Hún bjóst við að hitta farmanninn sinn þar og allt hitt fólkið sitt líka. Og af því að lífið er ekki bara páskar á vori heldur lífgjöf – haust og allt árið – þá mátti hún vita að þar sem dauði manns mætir Guðssyni lífsins þar verður líf og upprisa.

Og hvað gerir þú svo við líf þitt, skuggasundin, áföllin, dagana, sorgir og gleði? Við erum öll á leið um tíma og við hlið himins. Inga naut svo margs og varð að vinna úr sínu. Og í hvaða samhengi viltu svo lifia, páskamegin eða ekki? Þú mátt trúa því að Inga fær að lifa í ljósinu, hún var sumargjöf og fæðist nú inn í ljósheim eilífðar. Þú mátt njóta þeirra sumargjafa sem þér eru gefnar og gera úr þeim gott.

Leyfðu Ingu að fara, lærðu að blessa allt það góða sem hún gaf og lærðu af henni þér til lífs og eflingar. Leyfðu páskum að verða á hausti.

Guð geymi hana í eilífu sumri Guðs. Guð geymi þig og blessi.

Amen.

Inga Sigurjónsdóttir 15.7. 1929 – 20.9. 2012