Ávaxtasamir dagar

Dagarnir eru litríkir þessar vikurnar. Birtan vex með hækkandi sól. En litríki daganna er þó fremur huglægt og andlegt. Ég tala við marga á hverjum degi. Tek við tugum skilaboða í tölvupósti og með hjálp samkiptavefja og síma. Ég var með viðtalstíma í kirkjunni, var við hádegisbænir í Neskirkju á meðan vinir mínir í Háskólaprenti prentuðu 600 bréf til kjörmanna í biskupskjöri. Kona mín smeygði bréfunum í umslög og skaut þeim í pósthús. Þau verða borin út á morgun og föstudag. Ég skrifaði svo pistil fyrir Fréttblaðið, líklega þann síðasta um tíma því ekki rímar saman að skrifa meðan ég verð í kjöri til biskups. Ég hitti ástvini til að undirbúa útför og gekk frá minningarorðum. Síðan þjónaði ég við kistulagningu og útför. Svo naut ég þess undurs, að annar drengurinn minn las fyrir mig úr lestrarbókinni sinni og ég launaði honum – og bróðir hans fékk að njóta þess með honum – með að lesa fyrir þá úr frábærri bók Elínar Elísabetar Jóhannsdóttur um Eddu og Snorra fara í tímaflakk um kristnisöguna. Þegar tímaflakkinu lauk og drengirnir voru sofnaðir fór ég á mitt ritflakk og skrifaði ég tvær greinar. Annasamir en ávaxtasamir dagar.