Bréfið farið – svarið er?

Á blaðinu fyrir framan mig var prentuð tilkynning til kjörstjórnar um, að ég gæfi kost á mér í biskupskjöri. Svo voru þarna tilvísanir í starfsreglur um kjör og hæfi mitt. Ég fór yfir textann og hugsaði um merkingu hans. Svo tók ég sjálfblekung – ekki hæfir annað – og ritaði nafnið mitt, braut blað og smokraði í umslagið og lokaði.

Svo fór ég út í hraglanda morgunsins og ók niður í bæ. Eina stæðið, sem ég fann, var við Hallgrímskirkju. Mér þótti gott að leggja þar og rölti svo niður á Laugaveg. Á þriðju hæð Biskupsstofu var Hanna Sampsted, sem tók brosandi á móti bréfinu og kvittaði. “Þetta er fyrsta tilkynningin” sagði hún. Og við kvöddumst og Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir var þarna líka og við blessuðum hvort annað.

Svo fór ég út á Laugaveginn með vitund um, að ég hafði tekið skref í lífinu. Ég hef aldrei fyrr skilað inn tilkynningu um, að ég gefi kost á mér í biskupskjöri. Var þetta rétt ákvörðun, rétt skref? Ég hef verið kallaður í hinu ytra og innra. Ákvörðun hafði verið tekin áður, en enn einu sinni horfði ég í djúp sálar, speglaði allar víddir og álitamál. Já, þetta var skref til góðs og blessunar. En það er mál kjörmanna að ákveða. En bréfið er þegar í höndum kjörstjórnar, en bréfin frá kjörmönnum ókomin. Megi krossar atkvæðaseðlanna verða góðir biskupskrossar.