Nándin

Ég talaði við marga í dag um væntingar og vonir fólks til kirkjunnar. Og það sem stóð upp úr voru óskir fólks að sá biskup sem verði kosinn í kjörinu í vor verði ekki fjarlægur heldur nálægur. Biskupinn eigi ekki að týnast í snuddinu í kringum féð og framkvæmdir heldur vera meðal fólks. Og biskup (og reyndar var bætt við allir prestar) á líka að tala mannamál en ekki bara himnesku. Biskup þjóðkirkjunnar á að þora og þola breytingar en á þó ekki að efna til byltingar.

Þetta var gott samtal við mörg um þjónustu og kirkju. Ósk um nánd sveif inn í vitund mína. Ég er sammála. Biskupinn þarf að gleðjast með fólki, hafa gaman af að vera með öðrum. Og svo upplifði ég líka hvað það er merkilegt að eiga orðastað við svo marga og fá að hlusta. Ég ákvað því að fara um landið og eiga fundi sem víðast til að heyra í fólki, efna til samtals og til að ég heyri betur hjartslátt fólks. Nálægur og hlustandi – það er mikilvægt.