Mara kemur í heimsókn eftir ljóðabók Natöshu S. Bókfróð mágkona mína færði mér hana í afmælisgjöf á Þorláksmessu og taldi að ég gæti notið snilldarinnar. Ég las bókina á jóladagsmorgni og heillaðist. Þetta er mögnuð íslensk-rússnesk bók, persónuleg og menningarpólitísk lífsbók.
Mara er leiðarstef bókarinnar, mara sem birtist í samskiptum, í heilsubresti fólks en líka í samfélagsfári. Hvað er mara? Orðið er eldgamalt og táknar hryllingsdrauma fólks, martraðir. Mara vísar til djúpótta manna í milljónir ára. Stofnorðið hefur eignast afkomendur í mörgum tungumálum og miðlar sameiginlegu minni. Natasha ljóðar um þessi tengsl.
Í norrænum menningarheimi er mara vættur sem þrýsti á brjóst þeirra er sváfu og olli köfnunartilfinningu og skelfingu. Maran leggst með þunga á fólk og martröð er þegar mara traðkar, treður, á fólki. Í ensku lifir orðið í nightmare, og mare vísar ekki til merar heldur óvætts. Í frönsku birtist orðið sem cauchemar, mara sem þrýstir, þ.e. treður. Orðið er líka til í slavneskum tungumálum – á rússnesku kaesmar – og er tengd bæði draugum, ranghugmyndum og blekkingu. Allir menn óttast eitthvað og mara vísar til djúpreynslu milljóna kynslóða. Maran er hið óttalega sem leggst yfir mann, lamandi, þögul, skelfileg og ósýnileg – en í mismunandi myndum, verum, aðstæðum og menningu.
Natasha S. nýtir þessa orðsifjadýpt og vensl manna og tengir rússneska marglaga martröð við landflótta dóttur á Íslandi sem óttast bæði um föður og menningu sína.
Við upphaf bókarinnar kynnir hún heimsfjanda mannanna. Mara í meðförum hennar er ekki aðeins draumvættur heldur einnig pólitísk martröð og persónuleg aðsókn. Maran sækir að þegar fortíð og samtíð skella saman, þegar heimkoma verður ekki fagnaðarfundur heldur uppgjör og dapurleg átök. Maran er í ljóðunum það sem hrellir samfélag og þegar stríð geisa, vald er misnotað og lygar flæða um í kerfi óttastjórnar. Mara kremur fólk í sorg, sekt, minnistapi og hrörnun.
Með áhrifaríkum hætti fléttar bókin saman stórpólitíska martröð og líkamlega martröð veikinda. Natasha S. skilur og túlkar vel að pólitískt ofbeldi læðist inn í fólk, líkama, sál, menningu, samskipti fólks og hópa í margar kynslóðir. Og maran er djöfullega seig.
Í bókinni er faðirinn marglaga tákn. Hann var sterkur og hugrakkur en er orðinn veikur og bugaður. Hinn frjálsi andi varð birtingarmynd martraðar, líkami sem ber ör sögunnar og nútíma. Hann er minnisberi þess sem var en líka tákn um sorglegan missi. Í veikindum hans birtist maran. Hvað gerist þegar hinir sterku eru sviftir mætti sínum, gildum og frelsi? Mara er ekki aðeins ógn, heldur líka ákall um ábyrgð, að muna, að vera áfram til staðar.
Þótt maran sé óttaleg fer hún að lokum, jafnvel martröð endar. Natasha S. túlkar valdníðslu, pyntingar listamanna og andófsmanna, stríð og siðferðilegt rof sem mörur samtímans. En hið mikilvæga er að illt fólk og kúgandi stjörnvöld eru tímabundnar martraðir sem má greina, vakna og hverfa frá. Að nefna hið óttalega er fyrsta skrefið til að svipta möru stjórn. Veikleikinn afhjúpar ekki aðeins hið sorglega, heldur líka nærveru, mildi og ábyrgð. Von leysir höft.
Mara kemur í heimsókn er kraftmikil ljóðabók, pólitískur andófsgjörningur og mögnuð vonarbók. Natasha S. er meistari.
Mara er sú bók sem kom mér mest á óvart á þessu ári sem er að líða – og hef ég þó lesið margar.
Smekkleg hönnun og umbrot bókarinnar: Elías Rúni. Útgefandi: Benedikt bókaútgáfa.
