Mara kemur í heimsókn

Mara kemur í heimsókn eftir ljóðabók Natöshu S. Bókfróð mágkona mína færði mér hana í afmælisgjöf á Þorláksmessu og taldi að ég gæti notið snilldarinnar. Ég las bókina á jóladagsmorgni og heillaðist. Þetta er mögnuð íslensk-rússnesk bók, persónuleg og menningarpólitísk lífsbók. 

Mara er leiðarstef bókarinnar, mara sem birtist í samskiptum, í heilsubresti fólks en líka í samfélagsfári. Hvað er mara? Orðið er eldgamalt og táknar hryllingsdrauma fólks, martraðir. Mara vísar til djúpótta manna í milljónir ára. Stofnorðið hefur eignast afkomendur í mörgum tungumálum og miðlar sameiginlegu minni. Natasha ljóðar um þessi tengsl.

Í norrænum menningarheimi er mara vættur sem þrýsti á brjóst þeirra er sváfu og olli köfnunartilfinningu og skelfingu. Maran leggst með þunga á fólk og martröð er þegar mara traðkar, treður, á fólki. Í ensku lifir orðið í nightmare, og mare vísar ekki til merar heldur óvætts. Í frönsku birtist orðið sem cauchemar, mara sem þrýstir, þ.e. treður. Orðið er líka til í slavneskum tungumálum – á rússnesku kaesmar – og er tengd bæði draugum, ranghugmyndum og blekkingu. Allir menn óttast eitthvað og mara vísar til djúpreynslu milljóna kynslóða. Maran er hið óttalega sem leggst yfir mann, lamandi, þögul, skelfileg og ósýnileg – en í mismunandi myndum, verum, aðstæðum og menningu. 

Natasha S. nýtir þessa orðsifjadýpt og vensl manna og tengir rússneska marglaga martröð við landflótta dóttur á Íslandi sem óttast bæði um föður og menningu sína.

Við upphaf bókarinnar kynnir hún heimsfjanda mannanna. Mara í meðförum hennar er ekki aðeins draumvættur heldur einnig pólitísk martröð og persónuleg aðsókn. Maran sækir að þegar fortíð og samtíð skella saman, þegar heimkoma verður ekki fagnaðarfundur heldur uppgjör og dapurleg átök. Maran er í ljóðunum það sem hrellir samfélag og þegar stríð geisa, vald er misnotað og lygar flæða um í kerfi óttastjórnar. Mara kremur fólk í sorg, sekt, minnistapi og hrörnun.

Með áhrifaríkum hætti fléttar bókin saman stórpólitíska martröð og líkamlega martröð veikinda. Natasha S. skilur og túlkar vel að pólitískt ofbeldi læðist inn í fólk, líkama, sál, menningu, samskipti fólks og hópa í margar kynslóðir. Og maran er djöfullega seig.  

Í bókinni er faðirinn marglaga tákn. Hann var sterkur og hugrakkur en er orðinn veikur og bugaður. Hinn frjálsi andi varð birtingarmynd martraðar, líkami sem ber ör sögunnar og nútíma. Hann er minnisberi þess sem var en líka tákn um sorglegan missi. Í veikindum hans birtist maran. Hvað gerist þegar hinir sterku eru sviftir mætti sínum,  gildum og frelsi? Mara er ekki aðeins ógn, heldur líka ákall um ábyrgð, að muna, að vera áfram til staðar.

Þótt maran sé óttaleg fer hún að lokum, jafnvel martröð endar. Natasha S. túlkar valdníðslu, pyntingar listamanna og andófsmanna, stríð og siðferðilegt rof sem mörur samtímans. En hið mikilvæga er að illt fólk og kúgandi stjörnvöld eru tímabundnar martraðir sem má greina, vakna og hverfa frá. Að nefna hið óttalega er fyrsta skrefið til að svipta möru stjórn. Veikleikinn afhjúpar ekki aðeins hið sorglega, heldur líka nærveru, mildi og ábyrgð. Von leysir höft.

Mara kemur í heimsókn er kraftmikil ljóðabók, pólitískur andófsgjörningur og mögnuð vonarbók. Natasha S. er meistari. 

Mara er sú bók sem kom mér mest á óvart á þessu ári sem er að líða – og hef ég þó lesið margar. 

Smekkleg hönnun og umbrot bókarinnar: Elías Rúni. Útgefandi: Benedikt bókaútgáfa. 

Lifrarkæfa – lifrarpaté

Lifrarkæfu búum við til fyrir Þorláksmessupartí og jól. Lifrarkæfan er dásamleg sem smágjöf fyrir jólin og mörgum þykir gott að eiga hana fyrir jólamorgun eða dásemdarstundir jóladaganna. Melabúðin og góðar kjötvinnsluyr hafa hakkaða svínalifur og svínaspekk í hálfs kílós pakningum sem léttir kæfugerðina. Verði ykkur að góðu

1 kg svínalifur

½ kg svínaspik

3-4 laukar – handsaxað

1 hvítlaukur – smáskorinn

3 tsk krydd, tímían, rósmarín, oreganó og chili – hlutföll að smekk

2 tsk pipar

2 msk gróft sjávarsalt

120 gr smjör

200 gr hveiti

3 dl mjólk

4 stk egg

Bakað upp með smjöri og hveiti og þynnt með mjólkinni. Eggin sett út í eitt og eitt í senn og hrærð sama við. Ekki látið sjóða. Kryddið, laukur og hvítlaukur sett saman við. Síðan kælt aðeins. Hakkinu blandað saman við. Ofn á 160 °C. Allt sett í form.

Síðan eru formin sett á plötu með vatni – þ.e. vatnsbað og soðið í ofninum ca. 1 klukkustund.

Augngælur eru ekki síður mikivægar en bragðgælur. Kæfan gleður augu ef rennt er ribsgeli yfir kæfuna þegar fulleldað er og skreytt með t.d. rósmaríngrein – eða berjum – eða bara fallegu kryddi. Rósapipar er nýtanlegur líka. 

Verði ykkur að góðu – og vert að þakka skapara alls sem er fyrir lífsgæðin. 🙂

Kjúklingur, karrý og mango-chutney

Þessi kjúkingaréttur er fljóteldaður og bragðgóður. Í gærkvöldi komu allir heim svangir úr puði dagsins. Hvað er í matinn? Hvenær? Mmmmm. Það var sem sé einlæg matarsókn við kvöldverðarborðið. Samfélagsgleði, kátínan var smitandi og maturinn hjálpaði til. Allir nutu, borðuðu vel og þökkuðu hjartanlega og þá er kokksi kátur.  Þorvaldur Karl, vinur minn, gaf mér uppskriftina fyrir aldarfjórðungi og ég eldaði hana oft eftir aldamót. Svo datt hún út en ég fann hana fyrir nokkrum dögum og ákvað að endurnýta. Myndin er slæm  – maturinn er betri.

Fyrir 4.

Hráefni

  • 800 g kjúklingakjöt, t.d. bringur, og skorið í bita eða strimpla
  • 3 dl mangó chutney
  • 300 ml rjómi
  • 1 msk tímían
  • 1,5 msk karrý
  • 1 tsk sítrónupipar
  • kjúklingateningur
  • Salt og pipar að smekk

Matseld

Skerið kjúklingakjötið í bita og kryddið með karrý, salti og pipar. Hitið olíu á pönnu. Steikið kjúklingakjötið á pönnunni þar til bitarnir hafa brúnast vel. Leggið kjötið síðan í eldfast mót.

Sósan: Hellið rjóma og mangó chutney á pönnuna sem kjötið var steikt í (eða í pott). Hitið við vægan hita, kryddið með tímían, karrý, sítrónupipar, kjúklingakrafti, salti og pipar. Hrærið vel í. Þegar sósan er nærri suðu hellið þið henni yfir kjúklinginn í eldfasta fatinu og setjið síðan inn í ofn og steikið við 180°C í 35 mínútur.

Meðan kjúklingurinn er í ofninum er ljómandi sjóða hrísgrjón og rista grófar kókosflögur (eða kókosmjöl) á þurri pönnu til að setja yfir hrísgrjónin þegar maturinn er borinn fram.

Bananar, skornir í bita, passa þessum rétti vel sem og ferskt salat. Svo er hægt að leika sér með eitthvað litríkt úr ísskápnm til að auka litríkið á diskinum.

Bæn

Þökkum Drottni, því hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen.

Menntun, viðhorf og stjórnmál í Ameríku

Ég rakst á kort af menntunarstigi fólks í Norður-Ameríku sem opnaði augu mín. Á því sést að menntun er mjög misskipt og svæðabundin í Bandaríkjunum. Möguleiki til menntunar hefur löngum tengst fjárhag. Menntunarskortur eykur einfeldni en menntun veitir yfirsýn og eykur gjarnan getu til greiningar sem er forsenda víðsýni. Kanadabúar hafa notið mun meiri menntunar en Bandaríkjamenn.

Á síðustu áratugum hefur góð menntun eða skert menntun orðið æ gildari þáttur í þróun stjórnmála í Norður-Ameríku. Í Bandaríkjunum er fylgni milli þess hversu margir íbúar hafa lokið háskóla- eða starfsmenntun og hvort íbúar á viðkomandi svæði kjósa frjálslynda fulltrúa eða íhaldssama. Fræðimenn hafa talað gjarnan um “diploma divide”. Ríki og sýslur með hátt hlutfall háskólamenntaðra íbúa kjósa aðallega demókrata. Á svæðum með lægra menntunarhlutfall hallast fólk frekar að repúblikönum. Fólk með háskólapróf hefur oftast frjálslyndari afstöðu til félags- og menningarmála en þau sem hafa minni menntun. Aðalskýringin er peningaleg. Nám er ekki sjálfgefið. Háskólanám er mjög dýrt í Bandaríkjunum og fyrst og fremst opið þeim ríku. Elítugagnrýnin er vein hinna efnaminni.

Í Kanada er menntakerfið fjölbreytilegra en sunnan landamæranna. Fleiri en peningafólkið hafa þar möguleika á góðri menntun. Sérhæfð starfs- og tæknimenntun nýtur einnig meiri virðingar norðan mæranna, háskólanám er almennt aðgengilegra og félagslegt öryggi meira. Stjórnmálaafstaða er ekki í Kanada jafn tengd menntun eða menntunarskorti eins og í Bandaríkjunum. Pólitískur munur milli fylkja í Kanada snýst aðallega um orkumál, tungumál, menningu og samband ríkis og markaðar – og kannski líka nú afstöðu til tollastefnu og yfirgangs núverandi Bandaríkjastjórnar.

Samanburðurinn bendir til þess að munur á menntun hafi pólitískt sundrandi áhrif fyrst og fremst þegar hún er dýr. Kerfisvandi Bandaríkjamanna er dýr menntun og þar með spenna milli þeirra betur settu og hinna menntunarskertu. Þar sem menntakerfi eru djúp og breið og fólk getur menntast þrátt fyrir fátækt dregur úr líkum á að menntun verði stétta- og afstöðustýrandi í stjórnmálum. Sem sé: Það sem getur bætt líðan Bandaríkjamanna, minnkað spennu í Ameríku og öllum heiminum er ódýr gæðamenntun handa öllum íbúum Bandaríkjanna, ekki aðeins þeim ríku.

Þökk sé áherslu á alþýðumenntun á Íslandi og þeirri óumdeildu meginstefnu að allir eigi að njóta sömu möguleika til náms. Gætum þeirrar menningarstefnu að allir eigi að fá að njóta gæðamenntunar.

Og við Kanadabúa vil ég segja: Flytjið út menntunaráherslur ykkar suður fyrir landamærin. Það er enginn tollur á góðum hugmyndum og góðri menningu.

Já, blindur er bóklaus maður. Og „…þjóð mín mun farast því að hún hefur enga þekkingu.“ Hós 4.6. 

„Vísindin efla alla dáð,
orkuna styrkja, viljann hvessa,
vonina glæða, hugann hressa,
farsældum vefja lýð og láð …“

(úr ljóðinu: Til herra Páls Gaimard eftir Jónas Hallgrímsson)

 

 

Heimsljós

Fyrir nokkrum árum tók ég á móti skólabörnum á aðventunni og var beðinn um að fræða þau um messuna og atferli í kirkjunni. Einn daginn signdi ég mig, gerði krossmark og spurði hvað maður segði þegar maður gerði svo krossmerki á sér. Ég bjóst satt að segja við, að eittvert barnanna svaraði að orðin væru: „Í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda.” Einn drengurinn rétti snarlega upp hendi og vildi fá að svara. Ég benti á hann og hann svaraði kotroskinn: „Maður segir: Ég er ljós heimsins!“ Þetta var óvænt en flott svar!

Svo ræddum við um signinguna og aðra þætti messunnar. Svo var komið að lokum heimsóknarinnar og ég sagði þeim að þegar maður kveddi einhvern sem væri að fara út þá segðum við gjarnan bless. Þannig væri það líka í lokin á öllum messum. Þá lyfti presturinn höndum segði bless við fólkið í kirkjunni. En hvaða orð notaði presturinn þá, hvað segði hann: Aftur lyfti sami strákurinn upp hendina. Og ég átti von á að nú kæmi Guðsbless og benti á hann. Hvað segir presturinn? Aftur svaraði hann kotroskinn og algerlega fullviss: „Presturinn segir: Ég er ljós heimsins.”

Ljós heimsins – heimsljós. Þetta lifði í mér. Drengurinn var viss um að þetta væri aðalatriðið og mætti segja alls staðar. „Ég er ljós heimsins.“ Já, Guð er ljós heimsins, allt sem verðar Guð er ljós heimsins. Það er himinboðskapurinn – skýr og klár. Gildir fyrir okkur öll og í hvaða aðstæðum sem við erum.. Þegar undirstöður eru skeknar og að samfélaginu er kreppt er þarft að staldra við og spyrja um hvað skiptir máli. Hvað verður til hjálpar?

Einn veturinn gekk ég daglega fram hjá Landakotskirkju og vitjaði fárveikrar móður minnar á Landakotsspítala. Við kirkjuna er skúlptúr Steinunnar Þórarinsdóttur. Ég horfði jafnan á styttuna, sem er konumynd, hreifst af fegurð hennar og var djúpt snortinn af þeirri auðmýkt og lotningu, sem hún miðlar. Oft var ég áhyggjufullur þegar ég fór hjá, en þessi einfaldi en agaði minnisvarði um nunnuþjónustu Sankti Jósepssystra miðlaði mér trúartrausti og líka óttaleysi. Ég fór að skoða listarverkið. Glerkross sker ryðgaðan málminn. Fyrst sá ég að krossinn náði frá hjartastað og upp á andlit. Síðar tók ég eftir, að kross var líka á bakinu. Krossarnir minntu mig á signinguna, sem elskandi mömmur og pabbar hafa merkt börn sín með – að framan og aftan. Myndverkið minnti mig á, að við mannfólkið erum krossuð á bak og brjóst, sama hvað við erum frosin og lemstruð. Einn morguninn þegar áhyggjumyrkið var hvað dimmast gekk ég mót sól og að konumyndinni. Þá varð undur. Sólargeisli skein í gegnum krossinn á styttubakinu og út um krossinn á brjóststykkinu. Allur krossinn lýstist upp og glerið varð eins og stækkunargler og magnaði ljósljómann. Rústrauð mannsmyndin varð sem yfirjarðnesk vera, sem tók við himinljósinu og endurvarpaði því. Brjóstið opnaðist og miðlaði birtunni áfram í mynd krossins. Þetta varð mér sýn, sem ég túlkaði í krafti trúar. Verkið heitir Köllun og lífsgaldurinn er að við erum öll kölluð – kölluð til hamingju, til lífs, til hins guðlega veruleika. Enginn gengur að ljósundrinu að vild, þegar fólk er í stuði eða ætlast til að ná sambandi. Konumyndin við Landakot geislar aðeins á ákveðnum tíma og við ákveðnar aðstæður. Best er að koma með opnum huga og íhygli. Þá verður undur lífsins ljóst í málmi og gleri. Við erum öll kölluð til lífs og hamingju. Á göngu minni skein mér ljós. María, móðir Jesú, leyfði himinljósinu að skína um sig og undrið varð. Góðar mæður og góðir feður hafa speglað þetta ljós sem hefur orðið þeim og fólkinu þeirra til góðs á lífsgöngunni. Og þú ert kallaður eða kölluð til að leyfa undrinu að verða. Á lífsferð þinni skín þér ljós. Leyfðu ljósinu að skína til þín og gegnum þig. Það er köllun til ljóss og lífs. „Myrkur grúfði yfir djúpinu en andi Guðs sveif yfir vötnunum. Þá sagði Guð: „Verði ljós.“ Og það varð ljós.“ Jesús sagði: „Ég er ljós heimsins.“