Björn Erlingsson, safnaðarfulltrúi í Grafarvogssókn

Ég vil byrja á því að þakka Sr. Sigurði Árna fyrir að bjóða sig fram til biskups. Kirkjan stendur og fellur með þeim mannauð sem stígur á vaktina, – Sr. Sigurður Árni lýsir sig tilbúinn og ég hef trú á því að honum farnist vel í þessu hlutverki verði hann kjörinn og muni vaxa inn í þau nýju verkefni sem biskupsembættið færir. Biskup með áherslur á börn, ungmenni og fjölskyldur hlýðir því kalli sem þjóðin gerir til þjóðkirkjunnar í dag og beinir kröftum að mikilvægasta verkefni þjóðkirkjunnar. Allt annað er að mínu mati frágangssök og auðvelt að vinna úr með fagmennsku og trú að vopni. Þjóðkirkjan á að skipa mörgum frambærilegum fulltrúum, – en sá fulltrúi sem setur heimilis- og fjölskylduguðrækni á oddinn í íslensku kirkjusamfélagi vinnur í takti við þjóðina og er þar með líklegastur til að vinna þjóðkirkjunni gott gagn, og best þegar til lengdar lætur.

Kirkjan þarf að ,,yngjast“ og endurnýjast með kynslóðunum sem um hana renna, mannauðurinn í henni líka, en með hæfilegum hraða, – of hraðar breytingar veikja kirkjuna og það er engin stjórnviska að sigla henni á sker meðan verið er að laga til. Ef ég nota samlíkingu úr tölvuheiminum þá tala ég um að við ,,uppfærum hugbúnaðinn“ frekar en að skipta yfir í nýtt stýrikerfi sem ekki hefur verið þróað, prófað og enginn veit hvað er. Þegar fjallað er um breytingar þá hverfist umræðan um þörfina á því að losna við gömlu böggana, – en þegar lausnirnar eru skoðaðar þá er verið að koma á ómótuðum og óformuðum lausnum sem vitað er að koma með nýja og stundum verri og enginn getur sagt hvert ferðinni er heitið. Ég er ekki að mælast til þess að kirkjan takist ekki á við lagfæringar, hugbúnaðurinn er ekki bara böggarnir, og böggarnir eru ekki endilega hugbúnaðinum að kenna, heldur líka þeim sem nota hann ekki rétt. Í tölvubransanum er oft gott að keyra á sjóuðum hugbúnaði og fara ekki í nýjustu útgáfuna fyrr en búið er að aflúsa hana og tengja hana við þá gömlu, en það er nauðsynlegt að uppfæra stöðugt.

Ég tel að Sr. Sigurður Árni sé rétta manngerðin í þetta, horfir í nútímann fordómalaust og með gleraugu hefðarinnar inn í framtíðina með biblíuna í hönd, – að mínu mati rétta leiðin. Kjölfestan er best fundin í prestþjónustu og trúrækni í þjóðkirkjunni eins og hún gerist best. Þar hafið þið í Neskirju verið og staðið ykkur vel og gert margt sem er alveg til fyrirmyndar. Ég tel líka að biskup þurfi að geta lyft kirkjunni, opnað nýjar vistarverur, upplýst þær og innréttað, fært kirkjusamfélagið úr stað, ekki til að afmá það gamla heldur til að vaxa og þroskast. Þú hefur sýnt fram á að þú ert fær um þetta og getur leitt lifandi umfjöllun um trú og trúarlíf í nútíma samfélagi, með nútíma miðla að vopni. Við þurfum stöðugt að vera að opna nýjar vistaverur í húsi föðurins og það er best gert með því að sækja innblástur þangað sem vel hefur tekist til.

Gangi þér vel í þessu og enn og aftur þakka þér fyrir þitt framboð.

Björn Erlingsson, safnaðarfulltrúi í Grafarvogssókn.

Geir Guðsteinsson, blaðamaður og ritstjóri Vesturbæjarblaðsins

Kynni mín af sr. Sigurði Árna Þórðarsyni hófust þegar ég varð ritstjóri Vesturbæjarblaðsins fyrir nokkrum árum. Þá þegar mætti mér elskulegt viðmót og ekki síður áreiðanleiki hvað varðar allt sem hann samþykkti að gera fyrir mig, eða blaðið. Það hefur alla tíð staðið eins og stafur á bók. Ég hef einnig komið í messu í Neskirkju þar sem sr. Sigurður Árni hefur predikað, og það sem hann hefur þar sagt við söfnuðinn hefur m.a. vakið mig til umhugsunar um lífið og tilveruna, og ekki síður fyrir hvað við stöndum og hvers við væntum af lífinu. Það, og margt fleira, sannfærir mig um að sr. Sigurður Árni er afar hæfur til að gegna embætti biskups og manna líklegastur til að efla að nýju tiltrú landsmanna á Þjóðkirkjunni og starfsmönnum hennar, sem í sumum tilfellum hefur verið ábótavant.

Rakel Brynjólfsdóttir, háskólanemi og starfsmaður í æskulýðsstarfi kirkjunnar

Ég styð Sigurð Árna til biskupsþjónustu. Hann leggur til grundvallar það starf sem ég tel mikilvægast í kirkjunni í dag, barna og unglingastarfið. Ég vinn sjálf við barna og unglingastarf kirkjunnar og hef séð hversu mikil afturför hefur verið í þeim málaflokki. Þessu verður að breyta. Unga fólkið er framtíð kirkjunnar, ekki einhver flokkur sem er vel til þess fallinn að skera niður eingöngu vegna þess að börn og unglingar eiga ekki raddir sem ráðamenn kirkjunnar hlusta á. Ég trúi því að Sigurður Árni sé rétti maðurinn til að leiða kirkjuna okkar og muni gera barna og unglingastarf að flaggskipi kirkjunnar. Ég styð Sigurð Árna til biskupsþjónustu.

Þorsteinn K. Kristiansen, einn af stofnendum og starfsmaður Ungt fólk með hlutverk.

UFMH var sjálfboðaliðahreyfing innan Þjóðkirkjunnar.

Til að kirkjan geti orðið jákvæð og uppörvandi til framtíðar þarf hún að ganga í sjálfa sig og taka á syndum fortíðar.
Þjóð okkar þarfnast kirkju sem:

* vinnur að því leynt og ljóst að endurnýja trúverðugleika sinn
* við viljum bera börn okkar til
* er eins og andlegur faðir og móðir með uppörvandi / hughreystandi orð til þjóðarinnar
* er í stöðugu samtali við söfnuðinn / þjóðina

Ég hef þau kynni af sr. Sigurðurði Árna að hann geti orðið biskup með þannig áherslur. Því styð ég hann heilshugar.