Er hægt að keyra á Sikiley? Já. Er öruggt að aka á eyjunni? Já. Í fjölskylduferð í apríl 2025 keyrði ég nærri 1300 kílómetra á alls konar sikileyskum vegum og við fjölbreytilegar aðstæður. Ég fékk því þokkalegt yfirlit og tilfinningu varðandi umferðina á eyjunni. Ítalir fjargviðrast gjarnan yfir traffíkinni og fórna höndum. Jú, vissulega er hún stundum skrautleg en þegar ég var búin að fá tilfinningu fyrir aksturslaginu og menningunni fannst mér auðvelt að keyra bæði í borgunum og utan þeirra. Akreinar skipta heimamenn litlu máli og allt er sveigjanlegt. En tillitssemi og umhyggja er áberandi í umferðinni. Tuddaskapur og ruddaskapur er fátíður og flestir þeirra innfæddu eru góðir og ökumenn. Sikileyingarnir sögðu líka að aðkomumennirnir væru hættulegastir því þeir ætluðust til að ökumenningin væri eins og heima hjá þeim. En menning – líka á götum og vegum – er alltaf svæðistengd og bundin. Á Sikiley ber manni að vera sem lukkulegur Sikileyingur.
Ég sá aldrei bílslys, árekstur eða lemstraða bíla í ferð okkar. En eyjarskeggjar voru ekkert að tvínóna og fóru yfir óbrotnar línur til að keyra fram úr mér ef þeim þótti ég bera of mikla virðingu fyrir hámarkshraðanum. Okkur fannst við aldrei í hættu nema í Taormina – þar kom bíll bakkandi á röngum vegarhelmingi í veg fyrir okkur í 90 gráðu beygju! Og allir í kring flautuðu í ofboði og bíllinn stoppaði á síðustu stundu.
Erfiðast var að fara um þröngu göturnar í miðaldaþorpunum en stíf þjálfun í dráttarvélaakstri unglingsáranna og sveitaakstri fullorðinsáranna kom að gagni og tryggði að aksturinn tókst. Oft voru aðeins einn eða tveir cm. sitt hvorum megin bíls þar sem við fórum um. Ég taldi okkur sleppa vel að rispa bílinn ekki. Amerískir kaggar henta illa á Sikiley en litlu Smartskutlurnar og gömlu Fíatarnir henta þessum aðkrepptu aðstæðum vel. Í bæjum og borgum er oft erfitt að finna stæði og vert að skoða stæðamál með góðum fyrirvara og hvernig borga á fyrir notkun. Hlaðið niður EasyPark-appinu og hugið að öppunum sem notuð eru mismunandi svæðum á Ítalíu.
Ég fór fyrst keyrandi um Evrópu og Norður-Ítalíu sumarið 1974. Þá voru vegirnir í Þýskalandi og Austurríki frábærir en þeir ítölsku verulega slæmir, lúnir, holóttir og hættulegir. Svo þegar komið var til Sviss var eins og fara af þvottabretti og á straujaðar hraðbrautir. Svo keyrði ég talsvert í Toskana fyrir og eftir aldamótin og þá hafði mikil breyting orðið á vegakerfinu til batnaðar. Það sama á við Sikiley. Vissulega eru margir sveitavegirnir gamlir en þeir eru vel malbikaðir og viðhald þeirra er gott. Nýju hraðbrautirnar eru góðar og margar glæsileg mannvirki. Um náttúrperlur og skrautdali er stundum ekið á margra kílómetra brúarhraðbrautum. Alls staðar eru afreinar utan tveggja stefnugreina svo auðvelt var að aka af hraðbrautunum. Og aðreinarnar voru allar sömuleiðis langar og góðar svo innakstur gengur greiðlega fyrir sig. Hægri akgreinarnar voru alltaf fyrir hægari umferð og hægt að nota hana án þess að nokkur væri að flauta eða pirra sig. Gamlir Fíatar fóru á sínum 60 km á hraðbrautinni og enginn kvartaði.
Til að leigja bíla í Evrópu þarf að taka með plastið – ökuskírteinið – og nýjar reglur Evrópusambandsins útiloka jafnvel skírteinin okkar svo við eigum á hættu að fá ekki bíla afhenta af því vantar skírteini sem heimila akstur í Evrópu. Ég fékk ekki bílinn sem ég var búinn að panta í Palermo og ekki heldur vinir okkar sem voru með sömu vél og við. Ég þurfti því að gera sérsamning við litla bílaleigu – sem auðvitað kostaði sitt. Tryggja þarf að Íslendingar geti ferðast og leigt bíla að vild. Og ungsveinarnir fengu ekki að keyra því þeir fengu ekki skírteinin sín vegna tafa hjá sýsla í Kópavogi. En svo gerðu þeir sér grein fyrir að gamli maðurinn hafði meiri og skilvirkari torfæruþjálfun en þeir og teygðu bara úr sér í baksætinu eða sáu um kortalesturinn á Googlemaps eða Applemaps.
Já, það er ljómandi gott að aka á Sikiley. Reglan að búast við eða gera ráð fyrir hinu óvænta og uppákomum og hafa vökul augu á nærumferðinni. Það minnkar hætu á óhöppum. Umferðin virðist hættuleg en er lífræn og flæðandi en ekki lögmálsbundin og vélræn. Dásamlega Sikiley – líka á vegunum.
Myndin hér að neðan er tekin nærri Etnu. Og kennimyndin ofan greinarinnar er tekin frá gríska leikhúsinu í Segesta og sér yfir hraðbrautina milli Trapani og Palermo. Í fjarska við ströndina er hluti bæjarins Castelmare del Gofo, sem er huggulegur strandbær.

Engill Drottins varðveiti þig á öllum vegum þínum.
Ekki bara undrablóm heldur ofurkonfekt fyrir öll skynfæri. Vídéóið er af afmælisbarninu færa lita- og formundur inn í veröldina. Svo fórum við síðdegis og tókum Vatíkansöfnin með trompi. Og eins og fyrir 25 árum fannst mér nútímadeildin best. Ég spurði mig þeirrar áleitnu spurningar hvort kaþólskan væri safngripur, stofnanirnar stirnaðar, allar kirkjudeildirnar. Við afmælisbarnið ræddum kostina á göngunni í Sistínsku kapelluna. Vorum sammála um að við hefðum engar áhyggjur af Guði eða kristninni en þeiim mun meiri af kirkjustofnunum. Og skildum svo þær spurningar og þanka eftir í egypskum könnum og ítölskum miðalda-steinþróm á safninu.
Fórum svo út í vorveðrið og nutum sólarlagsins á þakverönd á háhýsi við Vatíkanið – sem hefur verið okkur meiri og hjartfólgnari vettvangur vegna stóratburða kristni og kaþólsku síðustu daganna. Við höfum alla dagana í Róm komið í eða á einhvern hluta Vatíkansins. Og gaman er nú að gleðja Elínu á afmæli og aðra daga. Kannski prílum við upp í kúpul Péturskirkjunnar í fyrramálið – sjáum til hvað útfararundirbúningur Frans páfa leyfir. En konfektkassinn ekki bara Róm – sem er dásamleg – heldur þar sem Elín er.

Minnisvarðinn í Gibellina er rosalegur og bylgjast í landinu. Stærðin verkar sterkt á alla sem vitja skúlptúrsins. Hann er þátttökuverk og flestir sem koma ganga eftir götugöngunum og þau kraftmestu hoppa á milli flekanna. Steypuhlemmurinn þekur allt bæjarsvæðið verður hann enn ávirkari. Minnisvarðinn er sem legsteinn þeirra sem dóu, þeirra sem misstu fótanna í lífinu og hrun svæðismenningarinnar. Minnisvarði um vonir sem dóu.
