Greinasafn fyrir flokkinn: Útfararræður

Ég birti margar útfararræður mínar en þó ekki allar – og sumar með hljóðskrá. Nálgast má minningarorð á sigurdurarni.annall.is.

Hulda Gunnarsdóttir – minningarorð

Hulda GunnarsdóttirMyndir eru mikilvægar. Sögur líka. Hvaða myndir af Huldu vakna í þínum huga við kveðjuathöfn?Hvaða sögur sagði hún þér? Nokkrar myndir verða dregnar upp og sögur sagðar.

1. Hulda var eins og hálfs árs og byrjuð að ganga með. Hún hreifst af tóbaksklútum föður síns. Án þess að pabbinn tæki eftir tók hún klútinn hans og faldi og þótti skemmtilegt að faðir hennar hringsnerist og leitaði. Hann þusaði yfir hvað orðið hefði af klútnum – og uppgötvaði auðvitað þátt hinnar stuttu. Hulda lærði að saklausir hrekkir geta orðið til skemmtunar.

2. Hulda var glaðsinna og leiksækinn. Þegar hún var fermd dró Útskálaprestur í nokkrar vikur að taka hin nýfermdu til altaris. Hulda hafði verið ráðin í vist og vildi móðir hennar að hún færi í vistina strax. Það vildi stúlkan þó ekki og benti móður sinni á að hún færi ekki svona hálf-fermd og ekki búin að ganga til altaris! Og svo bætti hún við í minningum sínum: „Undirniðri vildi ég fá að vera einni viku lengur heima til að leika mér.“ Hulda var sniðug.

3. Hulda sagði skemmtilega frá. Hún hafði enga þörf fyrir að gera sig breiða og draga að sér athygli í fjölmenni. En heima og á fundum fjölskyldunnar var Hulda ávallt kát og gladdist í góðra vina hópi. Hún sagði skemmtilegar sögur – frá sérkennilegum körlum og eftirminnilegum konum, sérstæðum atburðum, dramatískum örlögum og fór með skemmtilegar vísur. Um helgar vöknuðu börnin hennar jafnvel upp við hlátrana úr eldhúsinu. Hún sagði bónda sínum frá og hlustaði á sögur hans, skellti sér á læri og hló hjartanlega. Það eru kjöraðstæður fyrir börn að alast upp í húsi þar sem nótt og dagur kyssast í hlátri húsmóðurinnar.

Hulda var framúrskarandi sagnakona – „frábær sagnamaður“ sagði Ingólfur, dóttursonur hennar og þótti ekki verra, að hún var sem þrautþjálfaður spunaleikari og breytti sögum að þörfum hnokkans. Hulda var lestrarforkur og drakk í sig ævintýri og bókmenntir, ræktaði næmi fyrir hinu mannlega, framvindu góðrar söguflækju og lagði svo til glettni og gáska. Örlagasögum fólks miðlaði hún við eldhúsborð eða barnakodda með innlifun og tilheyrandi látbragði.

4. Hulda vann í veitingastofu Alþýðubrauðgerðarinnar, Laugavegi 63. Hún segir sjálf frá í æviminningunum sem Pálmi, sonur hennar, skrifaði upp eftir henni (Ævi óbreyttrar alþýðustúlku á fyrri hluta tuttugustu aldar. Handritið er á Kvennasögusafninu): „Einn morguninn kom inn ungur maður í rykfrakka með brúnköflóttan trefil um hálsinn og með stúdentshúfu. Þetta var laglegur maður, góðlegur og kurteis. Hann pantaði mjólk og vínarbrauð og bað um „lakrís“ sem hann bar fram með norðlenskum hreim, sem mér fannst skemmtilegt og ég brosti dálítið. Við töluðum lítið annað saman þennan vetur. Hann pantaði og ég afgreiddi. Svo áttum við eftir að hittast á balli í Iðnó haustið eftir (1942). Hann bjó á Njálsgötunni. Ég vissi ekki hvað hann hét fyrr en Borgþór, bróðir minn og piltur, sem var með honm mættu honum í dyrunum. Hann spurði hvort þeir þekktu þessa stúlku sem var að afgreiða þarna inni. Já, já, þeir héldu það nú að þeir þekktu þessa. Þegar Borgþór kom inn sagði hann: „Við höfum líklega eyðilagt eitthvað fyrir þér. Ingólfur Pálmason var að spyrja hvort við þekktum þig, og létum líklega yfir því.“ Svo sagði Borgþór mér hver hann væri og að hann væri að stúdera íslensku við háskólann. Mér leist vel á manninn.“

Þannig sagði Hulda frá fyrstu kynnum þeirra hjóna. Hulda tók viðburðum daganna með gleði og þorði að lifa í drama lífsins.

Upphaf og ævi

Málfríður Hulda Gunnarsdóttir kom í heiminn síðla vetrar meðan enn geisaði stríð í Evrópu. Hún fæddist á Gerðabakka í Garði þann 18. mars 1917 og var því á 97. aldursári þegar hún lést 22. janúar síðastliðinn.

Hulda var dóttir Guðrúnar Jónsdóttur (1895 – 1971) og Gunnars Jónssonar (1886 -1975). Móðir hennar var húsmóðir og faðir hennar sjómaður. Á heimilinu var barnafjöldi. Hulda var elst níu systkina og þar af lést eitt þeirra í fæðingu. Eftirlifandi er aðeins Jóhannes. Hin systkinin eru öll látin. Þau eru Ásta, Helga, Borgþór Valtýr, Sigurlaug, Jónfríður og Sigríður.

Hulda var skírð í lok apríl og nefnd Málfríður Hulda. Fyrra nafnið kom úr mannheimum en hið seinna úr draumheimi. Móðir hennar var send til vandalausra ung að árum. Sex ára var hún í hjásetu vestur á Mýrum, leiddist og sofnaði einu sinni við klettaborg. Hulda segir svo í minningum sínum: „Dreymdi hana þá að hún væri fyrir framan bæ og var gluggi á stofunni. Sér hún inn um gluggann unga stúlku sem er að sandskúra borð undir baðstofuglugganum og syngur hún svo yndislega að þegar mamma vaknaði þá er henni horfin leiðindi og kvíði. Mörgum árum seinna er hún var gift kona í Garðinum og nýbúin að eiga sitt fyrsta barn, þá 21 árs var hún í döpru skapi, því hún horfði með kvíða til framtíðarinnar af ýmsum ástæðum. Var hún milli svefns og vöku og fannst þá að inn kæmi kona og þekkti hún aftur ungu stúlkuna sem hana dreymdi í hjásetunni. Henni fannst hún ganga að vöggunni og færi að syngja gæfuljóð yfir barninu. Henni fannst að konan hefði elst eftir því sem árin sögðu til frá draumnum í hjásetunni. Mamma ákvað að barnið skyldi heita í höfuðið á huldukonunni og einnig Málfríður í höfuðið á vinkonu sinni sem dó ung.“

Huldunafnið festist svo við hana og var hún ánægð með nafn sitt.

Hulda sótti skóla í Garðinum, var fljót til bókar og naut hvatningar heima. Hún laumaðist gjarnan í bókakistilinn til að afla sér andlegrar næringar. Heimili Huldu var bókaheimili og hún var jafnan fyrst til að lesa bækurnar sem þangað komu. Móðir Huldu hvíslaði líka að Ingólfi, mannsefni hennar, að hann yrði að gæta þess að Hulda týndist ekki alveg í bókunum, svo bóksækinn hafði hún verið.

Foreldrar Huldu, sem höfðu bæði átt erfiðan uppvöxt, vildu tryggja börnum sínum góða æsku. Hulda fékk því líklega lausari taum í uppvexti en mörg önnur börn og naut elskusemi. Sjálf andaði hún ekki í hálsmálið á börnum sínum, heldur veitti þeim frelsi og óskaði þeim aga og hamingju. Af æviminningum er ljóst að Hulda fékk í æsku næði til leikja, tilrauna, þroskaverkefna og gleðiferða. Garðsminningar hennar eru bjartar, gleðilegar og góðar. Og í þessu minningasafni kemur vel fram fásinnisminni hennar, tilfinning fyrir veðri, litum og þeirri menningu sem miðlað var.

Hulda var elst í stórum barnahópi og axlaði leiðtogahlutverk sitt vel. Hún var áttviss í lífi og störfum. Hún hafði enga þörf fyrir að trana fram sínum skoðunum en átti heldur ekki í neinum erfiðleikum með að setja mörk, hvorki sjálfri sér, vinnuveitendum eða viðmælendum. Hún vissi hvað hún vildi og kunni sig vel, fékk fram það sem eðlilegt var og svo kryddaði hún með kímni eða leik ef með þurfti. Þegar Hulda hafði aldur til fór hún í vist til að gæta barna og sinna bústörfum. Hún var barnagæla, kunni að lúta að ungviði og efla til manns. Hún sótti ekki aðeins vinnu í Garðinum heldur réði Hulda sig til vinnu víða um land til að geta skoðað sem flesta hluta Íslands.

Haustið 1936 fór Hulda norður á Blönduós og hóf nám í Kvennaskólanum. Þar var hún til vors og raunar tók hún svo þátt í námskeiði haustið 1938 eftir kaupavinnu í Langadal um sumarið. Hafi hún ekki verið góður kokkur fyrir Blönduóstímann var hún það síðan. Næstu ár urðu vinnuár. Sumarið 1941 réðust hún og vinkona hennar til hótelstarfa austur á Reyðarfjörð – „tækifæri til að sjá landið“ segir í Hulduminningum. Ekki var staðið við samninga um kaup, kjör og vinnu. Og Hulda átti ekki í neinum erfiðleikum með að horfast í augu við mál lífsins og vinkonurnar sögðu strax upp vinnunni. En þær voru þó endurráðnar, á mun hærri launum og fengu að auki nokkra frægð af framgöngu sinni. Áratugum seinna frétti Hulda að sagan um „þær fínu“ sem ekki vildu vinna bretavinnuna hafi meira segja borist upp á Hérað. Þær vinkonur voru því í frásögur færðar.

Svo fór Hulda suður, með drýgri peningasjóð en hún hafði átt von á og hótelstjórinn gaf henni að skilnaði Hundrað bestu ljóð á íslenskra tungu. Hún var fullveðja. Minningin um ákveðnu stúlkuna með gulgrænu augun lifði þar sem hún hafði verið.

Hjúskapur

Og svo kom Ingólfur til hennar með bestu skáldsögur heimsins og ást sína. Hann kom í veitingastofuna á Laugaveginum með brúnköflóttan trefilinn. Svo dönsuðu þau síðar saman í Iðnó. Hulda lýsti fótaburðinum með orðinu „kálfastikl“ – að það hafi verið hjá þeim eitthvað „kálfastikl!“ Og drengurinn að norðan – frá Gullbrekku í Saurbæjarhreppi – átti einhvert gull í buddunni því hann bauð Huldu upp á kaffi á ballinu. Síðan röltu þau og nokkrir vinir upp á Smáragötu til að rabba saman. Ingólfur stundaði sitt íslenskunám í háskólanum, þau Hulda færðust nær hvoru öðru og svo urðu þau par.

Hulda og Ingólfur gengu í hjónaband 23. apríl árið 1948. Pálmi fæddist á sólríkum degi 19. júní sama ár. Gunnar fæddist svo tæpum fjórum árum síðar, 2. febrúar. Guðrún er yngst, fæddist 1. maí árið 1959. Pálmi starfar sem rannsóknarmaður hjá Raunvísindastofnun Háskóla Íslands. Gunnar – sem var örverufræðingur – lést árið 1990. Hann var kvæntur Liv Ringström Hansen. Þeirra dóttir er Marianne Tonja Ringström Feka. Hún er gift Daniel Feka og eiga þau soninn Dennis. Guðrún er íslenskufræðingur og doktor í sínu fagi. Eiginmaður Guðrúnar er Eiríkur Rögnvaldsson og sonur þeirra er Ingólfur.

Huldu var mjög annt um fólkið sitt og ræktaði það hið besta og tók fagnandi við ömmuhlutverkinu og þjónaði fús ungviðinu. Mér hefur verið falið að bera þessum söfnuði kveðju Marianne sem er búsett í Noregi og er ekki við þessa athöfn.

Maðurinn hennar Huldu

Ingólfur og Hulda voru sálufélagar. Hún hafði áhuga á viðfangsefnum hans, kennslu og þýðingarverkefnum. Hún ræktaði ekki aðeins tengsl við vinkonur sínar heldur tók skáldum og bókajöfrunum, vinum Ingólfs, hið besta og gerði vel við þá. Hulda hafði gaman af manni sínum og gerði líf hans ævintýralegt. Hann naut hennar og hún átti í engum vandræðum með að gera grein fyrir hvað hann var að sýsla. Ef ekki með nákvæmri útlistun þá með kátlegu móti. Þegar hún var spurð um hvað Ingólfur væri að aðhafast í Kaupmannahöfn eftir stríðið svaraði hún skýrt og ákveðið að hann væri að ná í handritin. Þótti erindi hans því stórmannlegt. En Ingólfur var alsaklaus við nám en heim komu handrit um síðir.

Ingólfur bara alla tíð mikla virðingu fyrir kostum og hæfni konu sinnar. Þau deildu jafnan skoðunum um menningarmál, stór mál og smá. Þau gengu erinda réttlætis í samfélagsmálum og voru samstiga í fjölskyldumálum sínum.

Þegar Ingólfur var að þýða eitthvert stórvirkið í bókmenntum heimsins leitaði hann til Huldu með vandasöm úrlausnarefni. Hún brást vel við, varð honum innblástur og sagði óhikað skoðun sína. Heimilislífið var gleðilegt, frjálslegt og jafnan var glatt á hjalla og mikið rætt.

Laglegi, góðlegi og kurteisi Ingólfur lést fyrir aldur fram í nóvember árið 1987.

Mannvinur

Frá 1963 vann Hulda á næturvöktum á Kleppsspítala. Hún lét af störfum þar í júní 1992 – þá 75 ára að aldri. Hulda varð sem lífsengill vistmönnum og hafði lag á góðri reglu og samskiptum. Hún þurfti ekki að aga sjúklingana, heldur gaf þeim sem ekki gátu sofið mjólkursopa eða sígarettu. Vinnustíll Huldu þótti helst til frjálslyndislegur og yfirvaldið óskaði að hún hætti aðferðinni “sopi-sígaretta.” En Hulda var lagin, líka við þau sem ætluðu að sveigja hana. Nei, það mætti alveg segja henni upp, en hún hefði ekki hugsað sér að svipta vini sína og skjólstæðinga því sem sefaði og friðaði. Síðan var ekki meira rætt um hennar hátt – en sjúklingarnir prjónuðu marga sokka og vettlinga handa börnum Huldu og voru plöggin sem tákn um hæfni hennar í samskiptum. Þetta þykir mér vera helgisaga um Huldu.

Að leiðarlokum

Nú eru skil. Sú Huldusaga sem hófst í Garðinum fyrir nærri öld er lokið. Hulda steikir ekki lengur schnitzel eða býr til eðalkjötsúpu fyrir sitt fólk. Hún dramatíserar engar örlagasögur og fer ekki í dagstúra lengur með Pálma austur fyrir fjall. Hún hlýðir engum framar yfir námsbækurnar, hvíslar ekki skemmtiyrði í eyra eða rifjar upp kátleg atvik frá síldarævintýri á Sigló forðum. Engir bókakassar koma lengur frá Borgarbókasafninu til hennar. Hún gefur ekki oftar stórmannlegar gjafir en minningar lifa. Ekki situr hún framar á leikhúsbekk, opineyg og næm kvika.

Nú er það stóra leikritið, stóra sviðið, stærsta sagan. Hún kenndi börnum sínum bænir, kunni að signa sig og þekkti Jesúsöguna vel – stóra dramað sem Guð segir mannkyninu um sig. Hulda naut þess að upplifa sögur, ferðast og vera með fólkinu sínu. Ferðin inn í himininn fléttar saman það sem gladdi hana. Og þið megið sleppa, leyfa Huldu að fara inn í ljósið þar sem allt er gott – inn í Garð eilífðar. Þar er fullkomið skjól og þar eru börnum manna sungin gæfuljóð.

Guð geymi hana alla tíð – Guð geymi þig.

Amen.

Minningarorð við útför Huldu Gunnarsdóttur. Kapellan í Fossvogi, 31. janúar, 2014.

Bálför – jarðsett á afmælisdegi Huldu 18. mars. Eftir útfararathöfnina verður erfidrykkja í Víkingasal 4 á hótel Natura.

Ásdís Jóhannesdóttir – minningarorð

Ásdís mynd 1b_ppÁsdís fór á bak hestinum. Vinkonur ætluðu í útreiðartúr. Svo lögðu þær af stað í góðviðri og sumarhita. Ásdís sat hestinn vel og alveg óþarfi að láta hann fara bara fetið. Grannur stúlkulíkaminn var léttur á baki, fingur héldu um taum og hestarnir fóru fljótt yfir, gangþýðir og viljugir – út tungurnar, alla leið út að Norðurá. Og svo fóru þær niður að ánni óhræddar. Þær þekktu Hábrekknavaðið og styttu sig ef áin næði upp á kvið hestanna. Svo fóru þær yfir, óttuðust ekki að falla í ána og svo upp á bakkann í Ytri-tungu og síðan alla leið heim til ömmu á Laxfossi. Þar var þeim vel tekið og bornar fyrir þær veitingar og gert við þær sem héraðshetjur.

Það er birta og yndisleiki í þessari mynd frá fjórða áratug tuttugustu aldar. Ásdís á ferð á heitum sumardegi, frjáls, fagnandi, skynug og meðvituð. Hún sá blómin, þekkti sögu umhverfisins, las landið, naut ferðarinnar, kunni að varast hættur, dró að sér ilm landsins og lyktina af heitum hestinum og gætti að sér að horfa ekki í struminn á vaðinu til að hana svimaði ekki. Svo heilsaði sínu fólki stefnuföst og frjálshuga. Það er gaman að gæla við þessa björtu ferðamynd og sjá í henni táknmynd um Ásdísarævina. Hún fór það sem hún vildi, var tengd gildum, sögu, landi og samhengi. Hún ræktaði tengslin við ættmenni og vinafólk, henni mátti alltaf treysta og hún stóð með lífinu.

Viturt hjarta

Matthías Jochumsson hreifst af nítugasta Davíðssálmi og orti út af þeim sálmi Lofsönginn árið 1874 sem síðar varð þjóðsöngur Íslendinga. Davíðssálmurinn er ljóð um mannlíf, samhengi og hlutverk mennskunnar í heiminum og er jafnan lesinn í kirkjum við áramót. Í fyrradag voru þessi orð lesin í kirkjum landsins og svo var þjóðsöngurinn víða sunginn í sömu athöfn, tvær útgáfur sama boðskapar. Í Davíðssálminum segir:

„Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns.
Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til,
frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.
Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins
og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn.“
Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka.

Kenn oss að telja daga vora,
að vér megum öðlast viturt hjarta.“

Ævi manns er ekki aðeins það fæðast, að slíta barnsskóm, fara í skóla og sinna ástvinum og vinnuverkefnum lífsins – heldur hvað? Að lifa vel. Kynslóðir koma, kynslóðir fara – athvarf frá kyni til kyns. Börn fæðast og vaxa úr grasi, öðlast vit til sjálfsbjargar eða ná aldrei þroska. Og ívaf allrar sögu er: “Hverfið aftur þér mannanna börn.” Orðstír manna lifir vissulega, en allt mannlegt er sem grasið eða blómgróðurinn, sem lifnar – “hverfið aftur…” Hvað gerum við gagnvart því boði? Stöldrum við og biðjum bænina í þessu ljóði guðsmannsins Móse: “Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta?” Ásdís lifði vel og nýtti hæfni sína til að þroskast. Hún er þér fyrirmynd og til þroska.

Ævistiklur

Ásdís Jóhannesdóttir fæddist 21. október árið 1925. Foreldrar hennar voru Hildur Áslaug Snorradóttir og Jóhannes Jónsson. Áslaug var fædd á Laxfossi við Norðurá og Jóhannes á Hömrum í Þverárhlíð. Þeim Áslaugu og Jóhannesi varð tveggja barna auðið. Eldri var Snorri sem var liðlega þremur árum eldri en Ásdís. Þau Jóhannes og Áslaug bjuggu í Efranesi í æsku þeirra systkina, bjuggu góðu búi og voru dugmiklir og framsýnir bændur. Heimilið var rismikið menningarheimili. Jóhannes var gagnfræðingur frá Akureyri og hann var kennari í sinni sveit og kenndi einkum í skólahúsinu í Hlöðutúni.

Ásdís var efnisbarn, bráðskörp, fljót til bókar og bóksækinn. Jóhannes faðir hennar var umsjónarmaður lestrarfélagsins og sá um að bæta bókakost og lestrarefni sveitunga sinna. Ásdís hafði því þegar í bernsku góðan aðgang að bókum, hafði áhuga á þeim og inntaki þeirra og efni alla tíð. Hún lagði á sig að ná sér í bækur þegar komið var fram yfir svefntíma, lærði meira að segja að forðast brakandi gólffjalir þegar hún var að laumast í bækurnar seint á kvöldin.

Foreldrar Ásdísar kenndu henni og hún tók vel við. Þær mægður voru samstiga og Ásdís var alla tíð góð móður sinni. Pabbinn studdi og efldi dóttur sína til náms og kom vel til móts við námsgetu dóttur sinnar. Í foreldrahúsum lærði Ásdís strax að eitt eru gáfur og annað hvað menn gera úr. Lífshamingjan er áunninn. Þekkingu afla menn sér með því að nýta getu og gáfur og viskan er ávöxtur þekkingar, íhugunar – þroskuð úrvinnsla lífsefna, menningar og lífsreynslu. „Kenn oss að telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta.“ Hlöðutúnsskólinn reyndist Ásdísi vel og þar var hún í fjögur ár eins og jafnaldrar hennar.

Reykholtsskóli var í héraðinu. Héraðsskólarnir voru íslensk útgáfa hinna norrænu lýðháskóla og Reykholtsskóli var lengi góð menntastofnun. Foreldrar Ásdísar vildu að hún nyti góðrar menntunar og sendu hana í Reykholt. Þar var hún í þrjú ár. Hún átti auðvelt með nám og henni leið vel með bækur á milli handa. Hún fór suður vel undirbúin og margfróð og fór í Kennarskólann og beint í annan bekk. Ásdís lauk kennaraprófi árið 1946 og var strax ráðinn kennari til hins merka Laugarnesskóla. Þar starfaði hún sem barnakennari alla starfstíð sína og þar til hún lét af störfum árið 1993. Hún kenndi því börnum í Laugarneshverfinu hátt í hálfa öld.

Kennarinn

Og hvað er það að kenna börnum? Er það að tryggja að börnin kunni lágmark í reikningi, draga til stafs og geta lesið skammlaust af bók? Mann- og menntunarafstaða Ásdísar var ríkulegri en svo. Jú, hún kom þeim börnum til manns sem henni voru falin. En hún gerði meira, hún leit eftir hvernig börnunum liði, hvort þau nytu stuðnings og væru vel nærð. Ef ekki vann hún umfram alla skyldu, leyfði þeim að koma í skólann snemma til að gefa þeim matarbita sem voru vannærð og hjálpa þeim sem þurftu stuðning. Ásdís kennari var ekki aðeins menntunarstjóri heldur iðkaði það sem í kristninni hefur verið kallaður kærleikur. Hún hafði augun á fólki sem henni var falið að efla, sá það sem á vantaði, greindi geðslag og möguleika, styrkti þau sem hún gat og nærði með því móti sem henni sýndist best. Ásdís var því nálæg nemendum sínum og tengdist þeim vel. Mörg þeirra höfðu samskipti við hana í mörg ár eða jafnvel áratugi. Ásdís á þökk fyrir allt hennar starf að kennslu og mannrækt unga fólksins í Laugarnesskóla. Og falleg og lýsandi er sagan um að einn nemandi hennar nefndi dóttur sína Ásdísi til heiðurs kennara sínum.

Heimilið

Jóhannes faðir Ásdísar brá búi og hætti kennslu um miðjan aldur vegna heilsubrests. Foreldrar Ásdísar fluttu til Reykjavíkur og héldu heimili með henni. Fyrstu árin bjuggu þau í Hlíðunum en síðan keyptu þau saman hæðina á Silfurteigi 2. Jóhannes lést árið 1953 og síðan bjuggu þær mægður saman og með góðri samvinnu næstu tíu ár en Áslaug lést árið 1963. Var Ásdís alla tíð afar natin og umhyggjusöm dóttir og sá um að foreldrum hennar og síðar móður liði vel og nyti alls sem hún þurfti og vildi.

Heimili Ásdísar er prýtt bókum. Þar eru eiginlega fallegri bækur en á heimilum okkar hinna því flestar þessar bækur eru í fallegu bandi og bera vitni menningarafstöðu og öguðu fegurðarskyni. Bókakosturinn er eins og á vænu bókasafni. Og fallegar myndir eru á veggjum, myndir af fólki og dýrum í fallegu náttúruumhverfi. Svo eru húsgögnin falleg og heimilið ber smekkvísum fagurkera vitni.

Eigindir og tengsl

Hvernig manstu Ásdísi? Jú í henni bjó skapfesta, mannúð og reglusemi. Hún var merk kona og heiðarleg. Hún umvafði fólkið sitt elskusemi og afkomendur Snorra nutu vel og þeirra fólk. Þau hafa líka á síðari árum verið vakandi fyrir velferð hennar og gengið erinda hennar. Þau endurgjalda því að Ásdís var alla tíð vakandi fyrir þeirra velferð. Umhyggjan verður best þegar hún er gagnvirk.

Hvað er efst í hug þér er þú kveður Ásdísi? Hún hafði vakandi áhuga á öllu því sem íslenskt er. Hún lagði rækt við íslenskan menningararf, las mikið og á mörgum sviðum, s.s. sagnfræði, ljóð, skáldsögur, þjóðlegan fróðleik, náttúrufræði, byggðasögu. Og svo fór hún um landið í menningar- og sögu-rannsóknarferðir. Eitt sinn skiptu vinkonurnar Þuríður og Ásdís landinu í þrjá hluta og luku yfirferð eins-þriðja á ári. Í þessu þriggja ára Íslandsverkefni fóru þær yfir margar ár, margar tungur og hálsa, skoðuðu fjöll og byggðir, lásu land og menningu – „…að vér megum öðlast viturt hjarta.“

Ferðarlok og upphaf annarar

Stúlkan sem sveiflaði sér upp á hest í Efranesi til að heimsækja ömmu fer ekki fleiri ferðir í þessum heimi. Engir litlir munnar fá mat eða nammi frá henni. Hún kennir ekki fleirum íslensku – hvorki í skóla eða símafjarkennslu. Ásdís fer ekki í fleiri rannsóknarferðir og fólkið hennar getur ekki lengur hringt í hana eða heimsótt hana. Bækurnar hennar eru eftir, myndirnar hennar og minningar um hana. Þær minningar má gæla við í huga og leyfa þeim að bera ávöxt í lífinu. „Kenn oss að telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta.“

Í þessari útfararathöfn umlykja okkur textar Íslandsástar – textar um smávini í náttúru Íslands, litskrúðug blómin – söngvar um ást til heimahaga og hins ögrum skorna Íslands. Og svo eru það líka undursamlegir textar jóla: Fögur er foldin, um göngu pílagrímsins, fram um víða veröld. Og kynslóðir koma, kynslóðir fara. Nú eru bæði systkinin frá Efranesi farin inn í himininn, foreldrarnir líka. En boðskapurinn sem var fyrst fluttur fjárhirðum lifir enn, textarnir um frið á foldu eru enn sungnir. Fagna þú maður, frelsari heimsins fæddur er. Já, við getum efast en áfram lifir vonin um að lífið sé ekki bara leikur þessa heims heldur eigi tíminn sér fang í eilífðinni og dauðinn sé aðeins för yfir vað til landsins hinum megin – himneskar Stafholtstungur og uppsveitir eilífðar – þar sem amma er, afi líka, pabbi og mamma og öll þau sem við elskum. Það er boðskapur kristninnar sem við megum trúa – vonarboðskapur – boðskapur um lífið.

Guð geymi Ásdísi.

Guð geymi þig og blessi.

Amen.

Jarðsett í Kópavogskirkjugarði. Erfidrykkja á Silfurteigi 2.

Sigurður Árni Þórðarson, s@neskirkja.is og s@sigurdurarni.is

Heimasíða: www.sigurdurarni.is

Sonja Sigrún Nikulásdóttir 1940-2013

IMG_0958Sonja Sigrún Nikulásdóttir f. 23. júlí 1940 d. 14. desember 2013.

Ævi manns er ekki aðeins það fæðast, að slíta barnsskóm, fara í skóla og sinna ástvinum og vinnuverkefnum lífsins – heldur hvað? Að lifa vel. Í 90. Davíðssálmi segir:

“Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: “Hverfið aftur þér mannanna börn!” Því þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær… …Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.”

Kynslóðir koma, kynslóðir fara – athvarf frá kyni til kyns. Börn fæðast og dreymir, vaxa úr grasi, öðlast vit til sjálfsbjargar eða ná aldrei þroska. Og ívaf allrar sögu er: “Hverfið aftur þér mannanna börn.” Sagan verður þykk þegar forgengileikinn er numinn og framlag manna er skoðað. Lofstír manna lifir vissulega, en allt mannlegt er sem grasið eða blómgróðurinn, sem nú lifnar – “hverfið aftur…” Hvað gerum við gagnvart því boði? Stöldrum við og biðjum bænina í þessu ljóði guðsmannsins Móse:

“Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta?”

Ævistiklur

Sonja Sigrún Nikulásdóttir fæddist á Akranesi 23. júlí 1940. Hún fæddist inn í sumarið og bar með sér birtu og yl æ síðan. Sonja var dóttir hjónanna Nikulásar Oddgeirssonar (f. 9.10.1906 d. 04.08.1983) og Sigrúnar Sigurðardóttur (f. 3.01.1913 d. 28.10. 1972). Hann var vélstjóri og hún húsmóðir. Þeim varð fjögurra barna auðið. Elstir eru Grétar Geir (f. 10.10.1933) og Sigurður Þorsteinn (f. 11.11.1934).

Drengirnir fæddust 1933 og 1934 og svo liðu fjögur ár. Þá fæddist þeim Sigrúnu og Nikulási árið 1938 stúlkubarn. Hún fékk nafnið Sonja Ester en lifði aðeins tæpa fjóra mánuði og lést vöggudauða í febrúar 1939 (f. 23.10.1938 d.15.02.1939). Einu og hálfi ári síðar kom svo Sonja Sigrún í heiminn. Hún fékk nafn eftir látinni og syrgrðri systur og Sigrúnarnafnið var frá móðurinni.

Fyrstu æviár Sonju bjó fjölskyldan á Akranesi, en eftir stríð fluttust þau búferlum suður fyrir Faxaflóa og Reykjavík og settust að í Hafnarfriði – á Tjarnarbraut 3. Pabbinn kom í land og fór að vinna hjá Rafha og þar nýttist vélstjóraþekking hans og þjálfun vel. Sonja gekk í skóla í Hafnarfirði og lauk gagnfræðaprófi frá Flensborg.

Síðan fór hún að afla sér tekna og stundaði ýmis störf. Hún vann á Sólvangi í Hafnarfirði og svo hjá heildverslun Ásbjörns Ólafssonar en megnið af starfsævinni var Sonja starfsmaður Landsbankans, lengstum í gjaldeyrisdeild og á alþjóðasviði. Og starfsstöðvarnar voru margar. Hún vann m.a. í aðalbankanum, á Laugavegi 77, á Lynghálsi og svo inn í Mjódd.

Pétur og dæturnar

Og svo kom Pétur inn í líf Sonju. Pétur Guðmundsson var á ferð með vini sínum kvöld eitt árið 1960 og Sonja bauð hópi ungs fólks í kaffi á Tjarnarbraut 3. Það var upphafið að kynnum þeirra. Þau urðu svo par og gengu í hjónaband í Hafnarfjarðarkirkju á annan í jólum árið 1962. Þegar Sonja lést voru þau Pétur búin að vera hjón í tæplega 51 ár.

Pétur er bifvélavirki að mennt og starfaði við iðn sína. Þau Sonja keyptu sér íbúð á Kaplaskjólsvegi 29 í Reykjavík og bjuggu þau þar alla tíð – meira en hálfa öld, ólu þar upp dætur sínar og tóku þátt í mannlífinu í vesturbænum. Síðustu árin vann Pétur svo í sundlaug Vesturbæjar.

Dóttir þeirra Sonju er Ólöf sem fæddist 8. nóvember árið 1962. Hún er viðurkenndur bókari.

Maður hennar er Eyþór T. Heiðberg. Þau eiga börnin Evu Ýr (f.20.09.1991) og Hreiðar Þór  (f.17.02.1995).

Dóttir Sonju og Sæmundar Guðmundssonar er Sigrún sem fæddist 9. apríl árið 1959. Hún er grafískur hönnuður. Maður hennar  er Steinar Már Gunnsteinsson.

Dóttir Sigrúnar er Alda Rose Cartwright. Maður hennar er Pétur Már Guðmundsson og börn Öldu Rose eru Máni og Urður Ylfa.

Eigindir

Sonja var dugmikil fjölskyldukona, hélt vel um sitt fólk, þjónaði því og gladdi. Hún hafði mikla ánægju af afkomendum sínum og þau sóttu til hennar. Þegar unga fólkið kom var amma tilbúin með dagskrá og ómótstæðileg tilboð. Og stórfjölskyldan gat alltaf gengið að því vísu að gott og gaman væri að fara í heimsókn til Sonju og Péturs. Þar var þeim vel tekið og glatt var á hjalla.

Sonja var félagslynd og félagshæf. Glaðlyndi hennar smitaði og gladdi samferðafólk hennar. Hún var frændrækin eins og hún átti kyn til. Og hún ræktaði tengsl við samferðafólk sitt og fjölskyldu. Hún var hnyttin og lagði gott til fólks. Hún var umtalsfróm og vildi engan særa. Hún efldi því samfélag sitt og stillti til friðar og gleði.

Alla tíð hafði Sonja gaman af fjölbreytileika mannlífsins. Hún var áhugasöm um framandi menningarheima og naut ferðalaga. Þau Pétur ferðuðust víða innan lands og utan. Á fyrri árum fóru þau á skíði og studdu KR með ýmsum hætti. Sonja hafði nautn af ferðalögum erlendis og fóru þær vinkonur hún og Ásrún Ingadóttir einnig í margar ferðir saman. Sonja fór ekki aðeins í ferðir til Evrópulanda heldur alla leið til Kína. Einnig fór hún í enskunám til Englands og var þá búsett á ensku heimili. Sonja var órög til ferða og fræðslu. Svo var Sonja spilandi gáskafull og uppátækjasöm. Hún hafði t.d. sérstakt dálæti á mótorhjólum og settist gjarnan á þau ef þau urðu á vegi hennar. Hún hefði sjálfsagt alveg getað hugsað sér að eiga eitt stykki Harley Davidson.

Sonja var listhneigð og opnaði hug sinn gagnvart undri leikhússins. Hún hafði mjög gaman af leikhúsferðum, fór með ástvinum og líka vinkonum sínum. Svo miðlaði hún gleðinni til yngri kynslóðarinnar með því að fara með unga fólkið í leikhús og að í því húsi undursins gæti maður notið mikillar reynslu.

Sonja var umhyggjusöm. Sjöfn Kristinnsdóttir vinkona og mágkona hennar vissi hve mannelsk hún var og einnig hve félagslega fær hún var og fékk Sonju til starfa við Thorvaldsensfélagið. Þar nýttust gáfur hennar og hæfni hennar vel. Sonja var í stjórn barnauppeldissjóðs félagsins. Mannræktarstarf félagsins naut starfskrafta Sonju til lífsloka hennar. Félagskonur og vinkonur Sonju biðja fyrir kveðjur og þakkir og votta henni þá virðingu að bera kistu hennar úr kirkju í lok þessarar athafnar.

Hvernig var Sonja? Hvernig manstu hana? Já, hún var glaðsinna, ljúf, traust, skörp, gjafmild, trygg, hjálpsöm, bóngóð, elskurík og skemmtileg. Eitthvað fleira? Já, raunar margt. Þú mátt gjarnan bæta í sjóðinn og til þess eru erfidrykkjur góðar. Þar má líka segja sögur og halda ræður. Og erfidrykkja verður í safnaðarheimili Neskirkju strax að útför lokinni.

Mér hefur verið falið að bera þessum söfnuði kveðju Steinunnar Helgu Sigurðardóttur í Danmörku.

Æviverkin

“Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.” Hvað er viskan? Það er viska að bera virðingu fyrir lífi og lifendum. Það er viturlegt að lifa og lifa vel. Það er mikilvægt að nýta sér gleðiefnin til skemmtunar og vera sterkur hlekkur í keðju kynslóða.

Ágústínus kirkjufaðir minnti á að lífsgangan er sveigur, för frá Guði og í sveig og til baka til eilífðar og í fang Guðs. Hvaða leið sem við förum, hvaða fjöll sem við klífum og hvaða blóm sem við lútum að eru lok – og við hverfum í faðm eilífðar, þá lokast Guðssveigurinn. Nú eru jól – sendiboði Guðs sem kom á jólum var sá sem skapaði Guðssveiginn.

Sonja fer ekki í leikhús framar, ekki til útlanda og hlær ekki við vinum sínum eða ættingjum. Nú er hún komin heim í himin Guðs. Hún hefur lifað vel. Konan sem fæddist inn sumarið hefur nú fæðist inn í himininn á jólum og Guðssveigur hennar er alger og heill.

Guð geymi Sonju um alla eilífð, Guð geymi Pétur, Sigrúnu, Ólöfu, afkomendur og ástvini.

Guð blessi þig. Í Jesú nafni. Amen.

Minningarorð í útför – Neskirkju 30. desember 2013.

Bálför og jarðsett síðar í duftagarðinu í Sóllandi.

Þorsteinn Bjarnason – minningarorð

Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Æfagömul spurning – og varðar hamingju, lífshætti og tilgang og kemur fram á varir og í hug allra manna. Jafngömul og mannkynið og jafn ný og börnin sem nú eru að fæðast. Hverju svarar þú? Hvað skiptir þig mestu máli? Hvað er þér svo mikils virði að þú vilt ekki fara á mis við?

Ég sat í vikunni í stofunni á Fornhaga 17 – á heimili Guðrúnar og Þorsteins – og dáðist að Guðrúnu þegar hún sagði mér frá manni sínum. Hún sagði fallega frá honum Steina sínum. Það kom blik í augu hennar, hláturinn hríslaðist um hana þegar hún sagði gamansögur af þeim hjónum, úr tilhugalífi, hjónalífi og viðburðum lífsins. Hún lýsti hve natinn hann var við fólkið sitt, tillitssamur og gjöfull. Hún tjáði svo vel þakklæti fyrir viðmót hans, dugnað, félagsfærni. Og hún vildi að ég segði frá hve þakklát hún væri honum. Orðin, fasið, æðruleysið urðu mér tjáning um djúp og merkingargefandi tengsl. Guðrún elskaði hann Steina sinn. Hún sagði mér hrífandi ástarsögu. Og Þorsteinn elskaði hana og fólkið þeirra. Hann elskaði drengina sína, barnabörnin og tengdabörnin. Og hann var svo elskuverður að börn og málleysingjar löðuðust að honum. Og við komum til þessarar athafnar og njótum ástarsögu, hugsum um Þorstein, sem vildi og valdi frekar lifa í veröld lífsleikninnar en skuggasundanna.

Ástarsaga Guðrúnar og Þorsteins er yndisleg saga. Þau hafa vissulega orðið fyrir áföllum og djúpri raun – en haldið í hendur hvors annars og notið styrks hins.

Ástarsaga – mestur er kærleikurinn. Saga Guðs er ástarsaga, megingjarðir þessa heims er elska. Öll orð og verk Jesú Krists spruttu af elskusemi. Og Guð býður okkur líf í ást. Við erum frjáls til ástar og hins góða lífs.

Upphaf og fjölskylda

Þorsteinn Bjarnason fæddist í Reykjavík 13. október árið 1930. Hann var sonur Ágústu Ólafsdóttur frá Jörfa í Kolbeinsstaðahreppi og Bjarna Matthíassonar verslunarmanns í  Reykjavík. Þorsteinn ólst upp hjá móður sinni en átti einnig heimili hjá mæðgunum Jónínu Jónsdóttur og Þórdísi Fjólu Guðmundsdóttur. Hann gekk í Austurbæjarskólann í Reykjavík og var ennfremur einn vetur í skóla í Reykholti.

Þegar hann var 15 ára gamall fór hann til sjós. Fyrstu árin var hann togarasjómaður og síðar farmaður hjá Skipadeild Sambandsins. Árið 1963 færði hann sig um set til Eimskipafélagsins og var bátsmaður hjá félaginu allt til ársins 1992 en þá batt hann enda á sjómennskuna eftir um 47 ára starfsferil. Vegna starfa sinna hjá félaginu var Þorsteinn sæmdur gullmerki Eimskipafélagsins. Og ég var beðinn um að bera þessari samkomu þakkir starfsfólks og stjórnar Eimskipafélagsins.

Þegar Þorsteinn kom í land hafði hann ekki snúið baki við vatni því hann réðst þá til starfa hjá Sundlaug Vesturbæjar. Þar var ekki fiskað í úfnum sjó en hann var í hlutverki sundlaugar- og baðvarðar og tryggði að vesturbæingar gátu notið sín, notið sunds og gefandi samfélags. Þorsteinn starfaði við sundlaugina, efldi gleðina og lægði stundum sjói mannlífsins. Árið 2000 lét hann af störfum fyrir aldurs sakir, virtur, metinn, verðlaunaður og lofaður af gestum og samstarfsfólki.

Bróðir Þorsteins var Ólafur Bjarnason múrarameistari og hálfsystir Ester Svanlaug Bjarnadóttir. Þau eru bæði látin. Fóstursystur hans eru Jónína Steinunn, Þórunn Rut og Guðmunda Kristín Þorsteinsdætur.

Hjúskapur og strákarnir

„Við sáumst niður í Hafnarstræti“ sagði Guðrún Guðmunda Sæmundsdóttir. „Hann var svo fallegur“ bætti hún við með blik í auga. Þetta var árið 1952. Hún vissi af honum áður og hann hafði spurnir af henni. Svo dróust þau að hvoru öðru og byrjuðu að búa. Þau gengu í hjónaband 14. júlí 1956. Guðrún er tæpum tveimur árum yngri en bóndi hennar og er dóttir hjónanna Vigdísar Þórðardóttur og Sæmundar E. Ólafssonar.

Þeim Þorsteini og Guðrún fæddust þrír synir.

Sæmundur Elías er elstur og kom í heiminn árið 1958. Kona Sæmundar er Svana Helen Björnsdóttir og þau eiga þrjá syni, Björn Orra, Sigurð Finnboga og Þorstein.

Óli Ágúst fæddist 1963 en lést árið 2001. Hann var kvæntur Sólveigu Níelsdóttur og áttu þau dótturina Rakel Guðrúnu.

Jón Viðar er yngstur. Hann fæddist  árið 1971. Jón Viðar er kvæntur Þórunni Harðardóttur og þau eiga börnin Þorstein Jakob og Guðmundu.

Óli Ágúst lést af slysförum fyrir tólf árum síðan – frá ungri eiginkonu og sex ára dóttur. Það varð þeim reiðarslag og breytti lífi þeirra hjóna og allra ástvina. Þá kom í ljós styrkur sambands þeirra.

Þorsteinn var öflugur fjölskyldumaður og þjónaði vel sínum. En vegna atvinnu var hann löngum að heiman og fjarverandi á stóru stundunum. Hann var t.d. ekki í landi þegar eldri synir hans fæddust en nærstaddur þegar Jón Viðar rak upp fyrstu rokuna.

En Guðrún, synir og barnabörnin nutu gjörhygli og návistar hans þegar hann hætti á sjónum og kom í land. Og það er hrífandi að heyra og lesa umsagnir barnabarna  Þorsteins hve natinn afi hann var. „Afi Steini var fágætur maður“ Þannig skrifar eitt þeirra sem taldi sig hafa unnið stóra vinninginn í afalóttinu. Steini afi veitti barnabörnum sínum mikið og þau voru honum hjartfólginn. Og fjölskyldan stóð saman og naut ríkidæmis samstöðunnar.

Og ekkert var ómögulegt á óskalistanum handa afa. Þorsteinn afi keyrði út og suður, austur og vestur. Hann skemmti sínu fólki, tefldi við barnabörnin, stakk pening í lófa, skrapp í sund með káta kúta, keypti eitthvað „með kaffinu“ og miðlaði til sinna hvernig góð tengsl eru ræktuð. Hann var „fyrirmyndarmannvera“ skrifar eitt barnabarnið. Svo þegar synir hans fóru til útlanda í skemmri eða lengri tíma var hægt að treysta afa Steina og ömmu Guðrúnu fyrir ungviðinu. Afi talaði fúslega við barnabörn sín í síma. Þau skipulögðu sundferðir eða aðrar mikilvægar ævintýrareisur. Það er mikið ríkidæmi að fá að njóta afa og ömmu sem kunna svo fjölbreytileg samskipti við barnabörn sín, eiga hlýjan faðm, hlusta vel, hafa getu til hlýrrar nærveru og spilandi lífsgáska.

Ástarsaga. Þorsteinn tamdi sér og iðkaði elskusemi í tengslum við fólk, efldi ástvini og miðlaði því sem er gott fyrir tengsl og samskipti. Engin styggðaryrði komu frá honum. Hann var smart, kurteis, örlátur, óeigingjarn, friðsamur og kærleiksríkur, verklaginn, sniðugur og bráðskýr. Þorsteinn var glæsilegur og fallegur eins og allt hans fólk – augu hans voru björt og leiftrandi. Hann var greindur, fróður og glöggur og því góður viðmælandi. Þorsteinn var öflugur ferðamaður og var jafn lipur við Guðrúnu sína eins og hún var hugmyndarík um verkefni og leiðir. Hann var mikill af sjálfum sér.

Og nú eru leiðarlok. Ástarsaga Þorsteins og Guðrúnar hrífur og smitar. Þau hafa orðið okkur sem aðveituæð eilífðar, hafa speglað hið góða og leyft ljósi að lýsa, vera sterkara en myrkur og sorg. Og svo nýtur fólkið þeirra – og við hin líka sem fáum að setjast í samtalsstólinn í stofunni eða eiga orðastað við Guðrúnu – hlægja með henni og undrast yfir margbreytileika lífisns.

Nú er Steini farinn en minningin um góðan dreng lifir. Hann skemmtir ekki lengur fólki í heita pottinum, fer ekki lengur í ævintýraferðir með Guðrúnu sinni eða skýst í ísbúðina með barnabörnum sínum. Það sést grilla í hann á mynd Google af Fornhagablokkinni og mynd hans lifir betur í minni ykkar og verður ykkur til eflingar. En Guð varðveitir mynd hans fullkomlega og Guð lætur sér ekki nægja eftirmyndir heldur varðveitir frummyndina, Þorstein sjálfan. Guð segir ástarsögur um sig, er sjálf ástarsagan. Og við megum vera persónur í því stórkostlega drama.

Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Ástin sem spinnur stóru sögu og við erum hluti af og megum njóta, lifa og iðka. Sú saga er burðarvirki tíma og eilífðar.

Guð geymi Þorstein Bjarnason – Guð geymi þig.

Minningarorð í Neskirkju 18. október, 2013.

Ólafur Þórður Þórhallsson – minningarorð

Olafur_ungurÞað er friður yfir Ólafi á myndinni í sálmaskránni þar sem hann situr og gerir við netið sitt – situr í kyrrð og væntanlega með sjávarlykt í nefi. Svo notar hann tækifærið og hlustar á útvarpið. Kannski hefur Halldóra verið nærri, honum leið alltaf vel þegar hann vissi af henni. Svo þegar hann var búinn að festa teina og flot, tryggja alla möskva gat hann staðið á fætur, horft upp í himininn, skoðað skýjafar, litið til hafs og spáð í sjólag og hvernig viðraði til ferðar. Lesa áfram Ólafur Þórður Þórhallsson – minningarorð