Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Hallgrímur í lit

HP3 2Hver er þjóðardýrlingur Íslendinga? Skáldpresturinn Hallgrímur Pétursson fengi eflaust flest atkvæðin ef kosið væri. Hann hefur jafnvel verið kallaður fimmti guðspjallamaður Íslands. Myndin af Hallgrími er sem íkón Íslandskristninnar. En hvað tjáir hún? Hann brosir ekki, er sorglegur og svartklæddur. Hæfir þjóðardýrlingi að vera bara í svart-hvítu?

Fagnaðarerindi?

Í bernsku þótti mér kristindómurinn skrítinn á föstunni fyrir páska. Passíusálmarnir hafa verið sungnir eða lesnir á þessum tíma í meira en þrjár aldir. Þeir segja passíu – píslarsögu Jesú og túlka merkingu hennar. Sálmarnir og íhugun tímans færðu drunga yfir trúarlíf, mannlíf og kirkjuhús. Það var eins og trúin væri í fjötrum. Af hverju öll þessi pína og jafnvel kæfandi drungi? Ég spurði mig stundum: Getur sorgarerindi verið fagnaðarerindi? Eru Passíusálmarnir bara um pínu, þjáningu og sorg? Hver er gleðifréttin?

Þjáningin

Fjögur hundruð ár eru frá fæðingu Hallgríms Péturssonar og ráð að spyrja á þessum tímamótum: Hentar helgimyndin af Hallgrími nútímafólki? Er Hallgrímur of einhæfur þjóðardýrlingur? Hvaða afmælisgjöf gætum við gefið honum?

Ímynd Hallgríms Péturssonar er of dimm. Sjónum hefur um of verið beint að hörmulegum þáttum í lífi hans. Visslega lenti hann í klandri. Örgeðja unglingurinn átti líklega í útistöðum við heimamenn á Hólum þar sem hann var um tíma. Hann klúðraði málum af því hann varð ástfangin af og tengdist giftri konu. Þar með hvarf draumurinn um nám og frama. Hann sá á eftir börnum sínum og annarra í gröfina. Svo rotnaði hann lifandi sem holdsveikur maður.

Allt í plús

Er sorgarsvipur og svört hempa allt sem einkennir Hallgrím? Nei, hann var í lit og kunni örugglega að skellihlæja og strjúka blítt. Hallgrímur var skemmtilegur, klár, fjölhæfur, húmoristi og vel menntaður eldhugi. Hann var laghentur, natinn og líklega góður pabbi. Þau, sem hafa lesið kveðskap hans, geta ímyndað sér líflegan og ævintýralegan mann.

Píslarmaðurinn var líka elskhugi, ræðujöfur, sem talaði stórkostlega, bunaði úr sér skemmtilegheitum, var góður granni, slyngur félagsmálamaður og eftirlæti allra sem kynntust honum. Hallgrímur var allur í plús. Hann var sjarmerandi góðmenni, hrífandi stórmenni og magnaður listamaður. Nútímakarlafræði sér í honum „súperkall.“

Það eru fordómar manna sem hafa skapað hina svörtu mynd af skáldprestinum. Þeir hafa – að mínu viti – varpað yfir á Hallgrím og mynd hans sorg sinni, eigin þjáningu og vansælu. Við megum gjarnan frelsa Hallgrím úr fangelsi harmkvælanna. Það væri góð afmælisgjöf.

Líf en ekki dauði

Í Passíusálmunum fimmtíu er Jesús í hlutverki himinkóngs, sem kom til að þjóna. Það er ekki dauðinn, sem er hvati og frumvaldur í lífsskoðun Passíusálmana, heldur ástin. Jesús kom ekki til að deyða heldur leysa menn og heim til lífs, frelsa frá vonleysi og þjáningu. Erindi sálmanna er ekki dauði heldur líf. Ekki uppgjöf gagnvart hinu illa heldur sigur. Þeir boða Guð, sem kemur og fer á undan fólki um lífsdalinn. Sá Guð er tengdur og elskar.

Passíusálmar eru ekki masókistísk bók um myrka trúarafstöðu. Saga þeirra er góð og um líf, þrátt fyrir þjáningu. Sálmarnir eru ástarsaga, margþætt og bjartsýn saga um afstöðu Guðs og raunhæfar aðgerðir. Í orðahafi Passíusálmanna er grunnstefið að Guð elskar, Jesús elskar alla menn – okkur. Það er fagnaðarerindið. Jesús er ástmögur sem tjáir að lífið er elskulegt og að eftir dauða kemur líf. Hallgrímur var vinur og aðdáandi þess Jesú Krists sem kveikir það líf.

Hvernig er kristin trú? Er hún gleðileg – fagnaðarerindi?  Hallgrímshelgimyndin í sauðalitunum er of dapurleg. Þjóðardýrlingurinn Hallgrímur má brosa. Þannig íkon hæfir Íslandskristninni. Besta afmælisgjöfin er Hallgrímur í lit.

Til starfa á kirkjuþingi?

kirkjuthingsbjalla-100x100Brátt verður kosið til kirkjuþings. Ég býð mig fram til þjónustu á þinginu næstu fjögur ár, en ég mun ekki óska endurkjörs að fjórum árum liðnum. Ég hef verið kirkjuþingsfulltrúi djákna og presta í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra í fjögur ár. Átta ár á kirkjuþingi er að mínu viti hæfilegur tími!

Verði ég kjörinn nú mun ég einnig bjóða mig fram til starfa í kirkjuráði, enda varamaður í ráðinu. Enginn vígður kirkjuþingsfulltrúi af suðvesturhorninu er nú í kirkjuráði sem er óheppilegt. Við kjör í kirkjuráð n.k. nóvember verður að gæta hagsmuna þéttbýlissvæðis okkar og að vígðir úr okkar kjördæmi verði kosnir í kirkjuráð.

Á liðnu kjörtímabili hef ég lagt fram margar tillögur að starfsreglum, verið virkur í störfum þingsins og gætt hagsmuna kirkju og kristni. Framundan er spennandi val til þings sem hefur mest vald í stjórn þjóðkirkjunnar.

Hvað er ferming?

Ég fermdist í Neskirkju haustið 1966. Við systkinin erum tvö og stutt á milli okkar. Ákveðið var að hafa eina fermingu og eina veislu. Systir mín er eldri og hún seinkaði sinni fermingu og ég fermdist hálfu ári á undan jafnöldrum mínum, var bara 12 ára. Við systkinin mættumt á miðri leið og vorum fermd 23. október. Ég sótti því fermingarfræðslu með krökkum á undan mér í aldri og þótti skemmtilegt að kynnast þeim. Þau komu úr Hagaskóla en ég úr Melaskóla. Sr. Frank M. Halldórsson lauk upp víddum trúarinnar. Við lærðum fjölda sálma, Biblíuvers og fræði Lúthers og vorum ágætlega undirbúin.

fermingEn til hvers að fermast? Ég hafði heyrt að orðið ferming væri þýðing á latneska orðinu confirmatio sem kæmi svo fram í ýmsum tungumálum, confirmation á ensku, konfirmation á germönskum málum. Og merking orðanna væri að staðfesta. Já, auðvitað – ferming væri komið af firmatio og merkti að skírnin væri staðfest. Svo var ég spurður um hvort ég vildi leitast við að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins. Ekkert er sjálfgefið – hvorki í trúarlegum efnum né öðru. Já með vörum og í fylgsnum hugans þarf að fara saman. Það er æviverkefni að orð og afstaða séu eitt. Fermingarungmenni nútímans spyrja líka gagnrýninna spurninga og skoða trúarmálin með opnum huga. Þau eru raunverulega að glíma við Guð og mennsku sína.

Er ferming? Er það að fermingarungmenni segi já? Þegar ég var tólf ára í kirkjunni vissi ég að trú er ekki einhliða mál. Samband Guðs og manna er tvíhliða. Já á jörðu verður hjáróma ef ekki er mótsvar í himnesku já-i. Í fermingunni hljóma ekki aðeins já fermingarbarna heldur já, já, já Guðs. Guð staðfestir skírnina, líf barnsins, bænirnar og óskir. Við erum oft með hugann við mannheima en gleymum guðsvíddinni. Mesta undrið í fermingunni er sama undrið og í skírninni. Guð gefur lífið og lofar að vera alltaf nærri. Guð svarar fermingarspurningunni ekki aðeins með fermingaryfirlýsingu: „Vertu trú(r) allt til dauða, og ég mun gefa þér kórónu lífsins.“ Guð svarar með því að gefa allt sem við þurfum til að lifa vel og með hamingju. Hvað er ferming? Já á jörðu og já á himni hljóma saman. Fermingarungmenni staðfesta lífið sem Guð gefur, staðfestir og viðheldur.

Og nú hlakka ég til allra ferminganna framundan. Ég hlakka til að heyra áttatíu já í kirkjunni og við megum hlakka til allra jáyrðanna í kirkjum þjóðarinnar á næstu vikum. Ferming er já fyrir lífið.

Himinn og jörð faðmast!

AGA 150Friður yfir skírnarþeganum, hlý gleði í augum mömmunnar, Auðar Karítas, kyrra yfir Guðnýju, stóru systur, sem heldur undir skírn og Sverrrir bróðir á vakt – andblær elskunnar yfir og allt um kring. Ari, pabbinn – ljósmyndarinn – var greinilega utan skotlínunnar þó hann tæki ekki myndina. Himnesk forréttindi að taka þátt í blessun Guðs á börnum jarðar. Guð geymi Önnu Guðnýju Aradóttur.

Anna Guðný AradóttirAnna Guðný heitir í höfuð móðurömmu, serm ekki vissi nafnið fyrirfram og gladdist ósegjanleg. Amman er Aradóttir líka svo nafn og kenninafn er það sama hjá ömmu og dótturdóttur. Móðir skírnarþegans er Auður og foreldrar hennar, Anna Guðný og Ásgeir, eru með A sem upphafsstafi. Fjölskyldan er því AAA og hið triple-A er líka hjá yngri fjölskyldunni. Þetta fólk er í A flokk og skemmtilegt að fá að þjóna þeim!

Má bjóða þér kyrrð?

DSC01012Í janúar var kyrrðardagur í Neskirkju og þátttakendur hvöttu til að annar kyrrðardagur yrði haldinn. Og næsti kyrrðardagur verður haldinn 29. mars. Kyrrðardagur er dekurdagur fyrir sálina og öllum opinn. Dagskrá hefst kl. 10 árdegis og lýkur um kl. 15,30. Sigurður Árni Þórðarson, Neskirkjuprestur, stýrir þessum kyrrðardegi.

Kyrrðardagur í borg er knappari en margir dagar á kyrrðardagasetri. Á dagskrá eru íhuganir um skeið æfinnar og farnar verða tvær gönguferðir, önnur með Ægisíðu og hin í Hólavallagarð. Öllum er frjáls og ókeypis þátttaka. En veitingar þennan dag kosta kr. 1500.

Hvernig væri að bregða sér á kyrrðardag í Neskirkju? Skráning er með netpósti á s@neskirkja.is eða í s. 511 1560. Öll sem hafa áhuga á rækt hins innri manns og andlegri heilbrigði eru velkomin.