Greinasafn fyrir merki: trú á grjóti

Trú á grjóti

„Hvíl þú heill í helgum friði.“ Þessi fagra bæn er á legsteini í kirkjugarðinum við Þingeyrarklausturskirkju. Áhugavert er að hvíld var Íslendingum fyrri tíðar í huga er þeir hugsuðu um himininn. Vinnulúið fólk þarfnaðist næðis frá puði og svefns til að vera heilt sjálfu sér, öðrum og Guði. En himinímyndir eru ekki lengur pása frá puði – heldur hvað? 

„Hvíl þú heill í helgum friði“ er ekki aðeins bæn heldur varðar líka heimsmynd. Líf íslensks alþýðufólks á fyrri öldum var baráttulíf og hvíld handan dauða var ekki hræðilegt heldur fremur vonarmál og jafnvel eitthvað til að hlakka til. Að hvíla í friði var að verða heil manneskja á ný – laus úr hrammi erfiðis, sorgar og þrautar – í faðmi Guðs.

En hvað merkir hvíld okkur í dag? Í samtímanum eru himinmyndir sjaldan tengdar svefni, bið og þögn. Þær eru fremur um nærveru, merkingu og samband. Á legsteinum og minningamörkum eru gjarnan setningar sem tjá nánd og framhald tengsla þrátt fyrir skil dauðans:

„Alltaf hjá okkur“

„Minning þín er ljós sem aldrei slokknar

„Alltaf elskuð – aldrei gleymd“

Nútímafólk er ekki eins líkamlega þreytt og fyrri tíðar fólk. Við þráum ekki hvíld frá puði eða störfum heldur þörfin fremur andleg þörf fyrir merkingu, tilgang og lífsfyllingu. Við þörfnumst nándar, lifandi minningar, tengsla og elsku.

Orð á grjóti eru gluggi til fortíðar – og inn í okkur líka.

Hvað viltu setja á legsteininn þinn? Svarið er lykill að því hvernig þú hugsar, þarfnast og vonar.