Reyndar má nota alls konar fisk í þennan rétt en þorskurinn er gjarnan á borðum míns heimilis. Eldaði þennan rétt í kvöld fyrir stórfjölskylduna og meðlætið var nýuppteknar kartöflur og salat úr garðinum. „Besti fiskur sem ég hef borðað“ voru ummæli. Svo bakaði Elín berjaköku úr nýtíndum bláberjum og krækiberjum. Himneskt.
Fyrir fjóra.
Hráefni
- 4 þorskflök
- Fínt sjávarsalt eða borðsalt og svartur pipar
- 7 msk smjör
- ½ bolli skornar möndluflögur
- 1 lífræn sítróna – rifinn börkur og síðan skorin í tvennt
- 1 msk smátt saxaður graslaukur (og aðeins meira til skrauts)
Matseld
- Hitið ofn í 230°C. Leggið fiskflökin á eldfast fat og saltið og piprið. Skerið 1 msk af smjörinu í bita og setjið á fiskinn. Bakið í 7–11 mínútur eða þar til fiskurinn er mjúkur og eldaður í gegn.
- Meðan fiskurinn er í ofninum: Bræðið 6 msk af smjörinu á stórri pönnu á meðalhita. Hreyfið pönnuna þar til froðan hverfur og smjörið verður ljósbrúnt (ekki brenna) – þetta tekur um 3–7 mínútur.
- Takið pönnuna af hitanum og bætið möndlunum út í. Þær byrja strax að brúnast. Hrærið þær í heita smjörinu þar til þær verða gullinbrúnar, um 2 mínútur. Setjið pönnuna aftur á vægan hita ef þær þurfa meiri lit. Bætið safa úr hálfri sítrónu, helmingnum af rifna sítrónuberkinum, graslauknum, ½ tsk salti og ¼ tsk pipar út í. Smakkið og bætið við meira af sítrónusafa og salti ef þarf.
- Hellið möndlusósunni yfir eldaða fiskinn. Skreytið með meira af graslauk og sítrónuberki. Berið fram heitt með seinni sítrónuhelmingnum með til hliðar (má skera í báta ef vill).
Þökkum Drottni, því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen.