Greinasafn fyrir merki: Sómalir

Er fólk rusl?

Manneskjan er mesta undrið. Það er áhersla vestræns húmanisma að virða fólk. Kristnir menn fylgja dæmi  og visku Jesú Krists sem mat fólk mikils, virti manngildi og sá undur í öllum mannverum.

Í frétt mbl og í helstu fréttaveitum heims 2. desember var miðlað að Donald Trump hefði sagt að Sómalir væru „rusl“, gæfu ekkert til Bandaríkjanna og ættu að hunskast aftur til síns heima. En orðavalið er ekki raus pirraðs öldungs heldur í samræmi við mynstur og meðvitað val. Trump hefur árum saman kallað pólitíska andstæðinga „losers“, blaðamenn „svín“, konur „ljótar“ og innflytjendur „sýkta“, „hættulega“ eða „óhreina“. Trump lætur sér ekki nægja að gagnrýna skoðanir eða greina rök heldur ræðast beint á persónurnar, niðurlægir, gerir lítið úr og smyr svo hroðanum á hóp eða þjóð.

Þessi tegund árásar þjónar tilgangi. Hún skiptir fólki í „við“ og „þið“. „Við“ erum hin sönnu,  raunverulegu fórnarlömb illsku hinna. „Þið“ eða „þeir“ eru óvinirnir, sníkjudýr, ógn, byrði, rusl. Þetta er sandkassapólitík óvita. Veruleikinn er einfaldaður, skrumskældur og líka hættulegur.

Þegar Trump kallar einhvern rusl, ljótan eða hættulegan hefur það afleiðingar. Málnotkunin réttlætir fyrirlitningu, eykur spennu, býr til gjár í samfélagi fólks og jafnvel kallar á samfélagslega grimmd og ofbeldi. Þegar fólk er afmennskað er auðveldara að réttlæta hræðilegar aðgerðir gegn því, senda úr landi og skjóta það á bátum úti á hafi.

Í lýðræðissamfélagi er skýrmælt og harðorð gagnrýni eðlileg og nauðsynleg. Í heilbrigðu samfélagi er tekist á um stefnumál, færð rök með og móti og svo markar lýðræðilega kjörinn meirihluti stefnuna. Lýðræði gerir ráð fyrir að allir geti lagt til mál og hið mikilvæga sé mótað í virkni og átökum.

En þegar leiðtogi gerir mannfyrirlitningu að stjórnmálastefnu og kallar fólk er rusl, svín eða skepnur hefur orðið pólitískt hrun. Orð skipta máli og móta. Þegar fólk er ekki lengur virt, hvorki manngildi þess né mannleg reisn er pólitískt gjaldþrot opinberað. Mannhatur Donalds Trump er ljóst. Forréttindablindir henta illa til leiðtogastarfa. Fólk er aldrei rusl – ekki heldur þeir sem hata aðra.