Greinasafn fyrir merki: skyndibiti

Jerúsalem shashuka

Við Ísak vorum í puði og útréttingum fyrri hluta dags og komum svangir heim. Shaskuka í Jerúsalem leitaði á huga minn. Til voru egg, laukur og paprikur í ísskápnum og flest sem þarf í shashuka. Við áttum líka alvöru grískan feta og dill. Eftir hálftíma vorum við farnir að borða þennan litríka undramat, ekki síðri en við Jaffahliðið í Zíon. Hér er uppskriftin

Fyrir 4

Hráefni:

  • 2–3 msk ólífuolía
  • 1 meðalstór laukur saxaður
  • 2 paprikur (rauð eða gul), skornar í ræmur
  • 3 hvítlauksrif fínt söxuð
  • 1 tsk kúmen mulið
  • 1 tsk paprikuduft (reykt ef til er)
  • ¼ tsk cayennepipar (eða eftir smekk)
  • 1 dós (400 g) saxaðir tómatar
  • 1 msk tómatþykkni
  • Salt og nýmalaður svartur pipar
  • 4–6 egg
  • Handfylli af dilli, kóríander eða steinselju

Matseld:

  1. Hitið olíu í stórri pönnu á miðlungshita. Steikið laukinn í 5–6 mínútur, þar til hann verður mjúkur.
  2. Bætið papriku og hvítlauk út í og steikið áfram í um 8 mínútur, þar til paprikan er orðin mjúk.
  3. Kryddið: Kúmen, paprikuduft og cayenne. Hrærið í 1–2 mínútur til að kryddið opnist í olíunni.
  4. Bætið tómötum og tómatþykkni út í. Látið malla í 10–15 mínútur þar til sósan er orðin þykk og ilmsterk. Smakkið til með salti og pipar.
  5. Gerið holur í sósuna og brjótið eggin varlega ofan í. Ýtið við hvítunni yfir í rautt umhverfið svo eggjahvítan steikist og hvítni alveg. Hyljið pönnuna og eldið á lágum hita í 7–10 mínútur, þar til eggjahvítan hefur stífnað en rauðan er enn mjúk.
  6. Stráið ferskum jurtum og muldum fetaosti yfir áður en borið er fram.

Ljómandi að nota snittubrauð til að skófla upp sósu – þetta sem Ítalir kalla scarpeda. Það er líka hægt að nota jógurt eða labneh í stað fetaostsins. Matreiðslan og hráefnanotkunin er opin og kallar á hugvit og spuna.

Bæn: Þökkum Drottni, því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu.