Greinasafn fyrir merki: samkennd

Kardínálar framtíðar og páfar lífsins

Ég var í Róm síðastliðna páska. Við, kona mín og synir okkar, komum til borgarinnar á miðvikudegi í kyrruviku. Þegar við vitjuðum helgistaða og mustera vorum við svo snortin að sögusvimi sótti að okkur.[i] Borgin hreif okkur en lögregluþyrlur og vælandi bílalestir trufluðu því varaforseti Bandaríkjanna kom. Ókyrra heimsstjórnmálanna truflaði kyrru helgidaganna.

Annar sona minna hafði verið svo forsjáll að panta miða í athöfn í Péturskirkjunni á föstudeginum langa og líka í páskamessuna á torginu. Frans páfi sótti fársjúkur þessar athafnir. Magnþrota blessaði hann okkur á Péturstorginu á páskadag og svo dó hann inn í páskafönguðinn efra. Enn á ný söfnuðust tugir þúsunda til kvöldsamveru en nú til að blessa himinför páfans. Maríubænir og Faðirvorið voru flutt aftur og aftur og það var sefandi að biðja sömu bænina oft, eins og að hjala í móðurfaðmi. Bænir orða hið ósegjanlega og eru farvegur allra tilfinninga. Útför páfans var gerð á laugardeginum eftir páska og enn á ný kom fólk úr öllum heimshornum til að kveðja. Leiðtogar heimsins komu. Að mér sótti spurningin: Hverjir þeirra eru raunverulegir forystumenn og hverjir ekki?

Íhugað við skil

Við lát páfa og val nýs er hollt að hugsa aftur en líka fram. Frans var breytingapáfi og reyndi að uppfæra kirkjustofnunina og áherslur kenningakerfisins. Hann beindi sjónum að friðarmálum, manngildi og réttlæti – hann var hugsjónamaður. En hvernig leiðtoga fær kaþólska kirkjan þegar kardínálarnir í sistínsku kapellunni koma sér saman um nýjan arftaka á stóli Péturs í Róm? Og frumspurningarnar eru: Hvað er að vera leiðtogi? Togar hann eða leiðir hann? Hvernig er góður stjórnandi? Hvað gerir góður hirðir?

Hirðir sem skilar

Af hverju tala um páfa og hirða í dag? Jú, textar þessa kirkjudags varða stefnu, stjórn, verk, afstöðu og gildi. Þeir íhuga afstöðu manna og þar með hvernig við beitum okkur í lífinu, hverjum við treystum og fylgjum. Lexía dagsins er um spillta stjórnmálastétt og hrun ríkis. Guð talar – í 34. kafla Ezekíelbókarinnar – inn í hræðilegar aðstæður. Guð lofar að leysa, bæta, lækna og lífga. Þetta er messíasartexti. Líkingin af hirði er notuð, augljós og skiljanleg öllum smalandi landbúnaðarsamfélögum. Hlutverk hirðis var og er að tryggja farsæld. Ef honum lánast er hann góður. Þessa hirðislíkingu notaði Jesús: „Ég er góði hirðirinn,“ sagði hann og gaf hirðismyndinni menningarlega, pólitíska og trúarlega dýpt. Góður hirðir gætir velferðar allra, leitar og finnur hið týnda, gefur líf og gnægð. Hann fórnar jafnvel lífinu fyrir hópinn sinn. Skiptir áhersla Jesú Krists okkur máli? Pétur postuli ræðir um hinn góða stjórnanda í pistlinum.

Veraldarvandinn blasir við

Hvaða leiðtoga þarf kirkja, kirkjudeildir, heimur, þjóðir – já mannkyn og líf á jörðu? Getuleysi, rofið traust, hernaðarkapphlaup, deyjandi og sveltandi fólk – fullkomlega að óþörfu – er vitnisburður um að vondir hirðar bregðast hjörð sinni og hlutverki. Bandaríkjamenn safna vistum og hamstra vopn þessa daga til að undirbúa átök og borgarastyrjöld. Heimur okkar er plagaður af loftslagsvá, flóttamannakreppum, vaxandi misskiptingu, aukinni andfélagslegri umræðu og klofningi, falsfréttum, lýðskrumi og gildagliðnun. Lýðræði á undir högg að sækja. Einræðisöfl sækja að. The Guardian miðlaði í vikunni þeim hrollvekjandi tíðindum að aðeins 15% ríkja heims séu raunveruleg lýðræðisríki. 85% eru einræðisríki eða verulega spillt.

Trausta brúarsmiði

Því þurfum við að huga að hirðunum, við þurfum nýja tegund leiðtoga – fólk sem byggir brýr, leitar lausna í stað sundrungar og sýnir hugrekki í verki en ekki aðeins í orði. Engin þörf er á fullkomnum leiðtogum heldur einlægu og traustu fólki. Stjórar geta verið alls konar en staðan í stjórnmálum, öryggismálum, trúmálum, efnahagsmálum og menningarmálum teiknar upp prófíl leiðtoga sem þörf er á. Mín nálgun og þarfgreining á stjóraþörf heimsins er þessi.

  1. Í fyrsta lagi. Traust er súrefni lýðræðis og forsenda réttláts friðar og farsældar. Leiðtogar verða að þora og axla ábyrgð á ákvörðunum sínum og misnota ekki vald. Þjónandi leiðtogar eru betri en drottnandi stjórar. Við þörfnumst heiðarlegra og ábyrgra leiðtoga traustsins en ekki óreiðunnar.
  2. Í öðru lagi þörfnumst við forystufólks sem hefur þroskað með sér samkennd og umhyggju fyrir fólki en ekki bara valdi. Samkennd merkir að skynja og taka til sín líðan annarra. En það er ekki nóg að skynja og skilja heldur þarf að taka ákvarðanir sem bæta kjör og verja réttlæti, jafnvel þó það veki hörð viðbrögð og sé óvinsælt. Þroskuð samkennd og meðlíðan er samfara þroskuðu siðviti. Mannvirðing er systir samkenndar.
  3. Í þriðja lagi: Við þörfnumst leiðtoga með framtíðarstefnu. Við verðum að bregðast við loftslagsvanda, tækniþróun, ójöfnuði og stríðum. Því þarfnast þjóðir og hópar leiðtoga sem hugsa ekki bara til næstu kosninga heldur til næstu kynslóða. Framtíðarsýn krefst stefnumótunar sem sameinar umhverfisvernd, sjálfbærni og efnahagslegan stöðugleika. Góður stjóri er ekki upptekinn af eigin dýrð heldur farsæld fólks og lífs til framtíðar.  (Sigurður Gísli Pálmason benti mér eftir messu hnyttilega og réttilega á muninn á að vera „togandi“ leiðtogi eða leiðandi stjórnandi. Sem sé, góður leiðtogi togar ekki aðeins heldur leiðir fólk áfram.)
  4. Og svo er í fjórða lagi nístandi þörf fyrir brúarsmiði. Í skautuðum heimi þar sem pólitísk sundrung og öfgar aukast er þörf víðsýnna leiðtoga sem efla virðingu, hlustun og samvinnu. Brúarsmiðirnir vinna þvert á flokkslínur og tengja ólíka samfélagshópa. Loftslagsbreytingar, faraldrar, stríð, fjármálakreppur og trúarátök eru mál sem þvera landamæri þjóða og varða stóran hluta jarðarkúlunnar og lífs á jörðu. Leiðtogar framtíðar verða að virða fjölþjóðleg tengsl og geta tekið þátt í samstarfi. Stjórar heimsins verða að hafa þroskað með sér handanþjóðavit og samstarfsgetu þvert á mæri, hópa og hagsmunaátök.

Ólíkar skoðanir og góði hirðirinn

Í þessum söfnuði í kirkjunni í dag er fólk með mismunandi skoðanir á pólitískum álitaefnum, tollamálum, kirkjumálum og öryggismálum. En við getum væntanlega verið sammála um að við þörfnumst leiðtoga sem eru brúarsmiðir en ekki veggjasmiðir, fólk skilnings og vits en ekki dólgar. Og þá erum við komin að góða hirðinum, Jesú Kristi, heimfærslunni, okkur sjálfum og afstöðu okkar.

Nú eru gleðidagar – dagar upprisu og lífs – eftir kyrruviku og langan föstudag. Friður og velsæld heimsins er ekki háð fjölda dróna, skriðdreka og flugvéla heldur siðviti og gildum. Stórveldi hafa riðlast þrátt fyrir hernaðarmátt en engin vopn geta drepið gildi, trú og von. Það er hægt að deyða fólk en ekki líflegar hugsjónir og trú. Raunverulegir leiðtogar byggja á gildum og góðum hugsjónum sem eiga sér dýpri rætur en hagsmunir einstaklinga eða forréttindahópa. Friður heimsins og réttlæti verður aðeins þegar manngildi er virt, réttur þjóða til lífs virtur og gagnrýnin og heil trú fær að móta pólitík. Jesús segir: „Ég er góði hirðirinn.“

Við erum ábyrg

Frans páfi er látinn og ég vona að kaþólikkar velji mann lífsins, stjóra sem virðir fólk og byggir brýr. En val á stjórnendum og forystuliði heimsins byrjar í okkur sjálfum – okkur öllum. Okkur kemur velferð fólks við, hvort sem það býr nærri okkur eða fjarri. Við erum fjáls að því að velja, aga, hugsa, tala og kjósa. Alla daga og allar stundir sköpum við heim og mótum með vali okkar, kaupum og lífsháttum. Við erum því kölluð til að vera stjórar og kardínálar eigin lífs. Öxlum ábyrgð sjálf og virðum hið róttæka frelsi hið innra sem okkur var gefin sem fæingargjöf af Guði. Verum sjálf góðir hirðar og beitum okkur í vali stjóra samfélags, félaga og ríkis og menningar. Við erum í sömu stöðu og kardínálarnir í sistínsku kapellunni, eigum að prufa og skoða fólkið sem við veljum en líka skoða stjórana og ekki hika við að steypa þeim sem hugsa bara um eigin nafla, eigin hag og völd. Stjórar með skerta meðlíðan, samúð og hugrekki eru óhæfir. Við þurfum góða stjóra en dýpst og innst þurfum við góðan hirði sem virðir djúpþrá okkar og tengir okkur við elsku Guðs og líf heimsins.

Páfar lífsins

Hver er þinn hirðir? Er það pólitískur leiðtogi þinn eða hetja þín í einhverri menningarbúblunni? Eða er það alvöru hirðir sem er tilbúinn að fórna öllu – og meira að segja lífinu – fyrir þig? Hver viltu að sé þinn stjóri? Þitt er frelsið til að velja og boðskapur Jesú Krists er að hann vill vera hirðir þinn. Hann elskar þig og velur þig til að vera ástvinur hans. Við erum öll kardínálarnir sem veljum framtíð heimsins en Guð velur okkur sem ástvini og páfa lífsins.

Neskirkja, 2. sunudag eftir páska, 4. maí 2025.

Lexía: Esk 34.11-16, 31
„Því að svo segir Drottinn Guð: Nú ætla ég sjálfur að leita sauða minna og líta eftir þeim. Eins og hirðir lítur eftir hjörð sinni þegar hún er á dreif í kringum hann mun ég fylgjast með mínu fé. Ég mun bjarga sauðum mínum frá öllum þeim stöðum sem þeir dreifðust til á hinum dimma og drungalega degi. Ég mun leiða þá burt frá þjóðunum, safna þeim saman úr löndunum og leiða þá heim til síns eigin lands. Ég mun halda þeim í haga á fjöllum Ísraels, í daladrögum og á hverju byggðu bóli í landinu. Ég mun sjálfur halda þeim til beitar í góðu haglendi, beitiland þeirra verður á háfjöllum Ísraels. Þar munu þeir leggjast og ganga í frjósömu haglendi á fjöllum Ísraels. Ég mun sjálfur halda fé mínu til beitar og sjá því fyrir hvíldarstað, segir Drottinn Guð. Ég mun leita þess sem villist og sækja hið hrakta, binda um hið limlesta og styrkja hið veikburða. Ég mun gæta hins feita og þróttmikla og halda því í haga eins og rétt er. … Þið eruð hjörð mín sem ég held í haga. Ég er Guð ykkar, segir Drottinn Guð.“

Pistill: 1Pét 2.21-25
Því að Kristur leið einnig fyrir ykkur og lét ykkur eftir fyrirmynd til þess að þið skylduð feta í fótspor hans. „Hann drýgði ekki synd og svik voru ekki fundin í munni hans.“ Hann svaraði ekki með illmælum er honum var illmælt og hótaði eigi er hann leið, heldur fól það honum á vald sem dæmir réttvíslega. Hann bar sjálfur syndir okkar á líkama sínum upp á tréð, til þess að við skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu. Fyrir hans benjar eruð þið læknuð. Þið voruð sem villuráfandi sauðir en nú hafið þið snúið ykkur til hans sem er hirðir og biskup sálna ykkar.

Guðspjall: Jóh 10.11-16
Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Sá sem er leigður og hvorki er hirðir né á sauðina, hann flýr og yfirgefur sauðina þegar hann sér úlfinn koma og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim. Enda gætir hann sauðanna aðeins fyrir borgun og er ekkert annt um þá. Ég er góði hirðirinn og þekki mína og mínir þekkja mig eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn. Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina. Ég á líka aðra sauði sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.

[i] Ingólfur Árnason, leikstjóri og leiðsögumaður í Róm, kenndi okkur þetta skemmtilega og lýsandi orð sögusvimi. https://romarrolt.com/v2/#

Meðfylgjandi mynd tók ég á Péturstorginu í Róm á föstudeginum langa, 18. apríl, 2025.