Hvers konar bók er Jötunsteinn Andra Snæs Magnasonar, sagan um Árna arkitekt sem kastar grjóti að Range Rover-bifreið Bigga? Bókin er fyrst og fremst samfélagspólitísk ádeila. Hún leitast við að afhjúpa kerfi íslensks byggingariðnaðar á villigötum og hvernig verktakabransinn beygir arkitekta, byggingarnefndir og verkalýð til hugsjónalausrar hlýðni. Virðing fyrir íbúum, ljósi, rými, formi og fegurð – draumalúxus námsáranna – verður það sem arkitektar eiga eða neyðast til að vaxa frá í raunheimi fjármagnsins.
Sagan dregur upp mynd af ljótum, strípuðum blokkum sem seljast þó vegna íbúðaskorts. Arðurinn er notaður til að reisa hallir verktaka og kosta lúxuslíf þeirra.
Í upphafi verksins kastar Árni arkitekt jötunsteini í átt að bíl Bigga, stórbyggjanda. Steinninn svífur, snertir glerið og brýtur sér leið inn. Kastið, höggið, brotið og flugið við nef verktakans er steinboginn sem spannar alla bókina. Í frystum augnablikum ofbeldisins er lífssaga hins leiðitama, tilfinningaríka og draumlynda arkitekts ofin saman við samfélagslega áfallasögu.
Bókin er stutt, strípuð og fljótlesin. Hún er hvorki nóvella né smásaga, heldur tilheyrir fremur heimsósómum og dómsdagsbókmenntum. Jötunsteinn er ádrepa, reiðilestur, ádeila. Fléttan er því einföld og einvíð, sem og pólitík bókarinnar. Tvískiptingin og skautun er skýr. Annars vegar eru gróðadrifnir kapítalistar byggingabransans og íbúðaþurfandi alþýða hins vegar. Fagmennska, heilbrigði, fegurð og mannvirðing víkja fyrir fjármagnsöflunum. Elítan græðir og grillar en hinir búa í mannfjandsamlegum, ljótum og skuggalegum húsum.
Bókin er mikilvægt innlegg í samtal um íslenskt borgarrými. Skuggahverfi rísa, mygluhallir líka og ljót hverfi verða til. Ljós og samhengi eru vanvirt. Kumbaldar skera langlínur og skadda heildir og almannagæði. Andri Snær skrifar Jötunstein af augljósri reiði vegna afglapa í byggingabransanum. En ádeilufuninn tekur yfir listrænan metnað og getu höfundar. Bókin er of strípuð eins og blokkirnar gagnrýnisverðu.
Niðurstaða. Jötunsteinn er menningarpólitísk ádeila sem er færð í einfalda harmsögu. Verkið er áróðursverk en síður bókmenntaverk og hefði best átt heima sem snarpt innlegg á þingi Samtaka iðnaðarins. Kapp Andra Snæs er réttlætanlegt en ber list hans ofurliði.
Þrjár stjörnur af fimm.