Greinasafn fyrir merki: Ófærufoss

Hestur, Eldgjá og undur jarðar og heims

Eldgjá – á mesta hamfarasvæði heims. Þegar ég bjó í Ásum í Skaftártungu á níunda áratug síðustu aldar fór ég og smalaði með sveitungum mínum afréttinn. Þegar Eldgjársvæðið var smalað sat ég á hestbaki nærri Ófærufoss. Hvasst var, hesturinn kvikur og fældist að lokum við gjárbarminn. Við vorum báðir í hættu, hrossið og ég. Mér lánaðist þó að snúa klárinn niður, róa hann og teymdi hann síðan þægan og bljúgan. Atgangurinn rifjaðist upp er ég kom að og í Eldgjá um helgina. Engin rosi þann daginn – né í sál minni – aðeins djúp lotning gagnvart undri jarðar og heims.