Greinasafn fyrir merki: menntun í Kanda

Menntun, viðhorf og stjórnmál í Ameríku

Ég rakst á kort af menntunarstigi fólks í Norður-Ameríku sem opnaði augu mín. Á því sést að menntun er mjög misskipt og svæðabundin í Bandaríkjunum. Möguleiki til menntunar hefur löngum tengst fjárhag. Menntunarskortur eykur einfeldni en menntun veitir yfirsýn og eykur gjarnan getu til greiningar sem er forsenda víðsýni. Kanadabúar hafa notið mun meiri menntunar en Bandaríkjamenn.

Á síðustu áratugum hefur góð menntun eða skert menntun orðið æ gildari þáttur í þróun stjórnmála í Norður-Ameríku. Í Bandaríkjunum er fylgni milli þess hversu margir íbúar hafa lokið háskóla- eða starfsmenntun og hvort íbúar á viðkomandi svæði kjósa frjálslynda fulltrúa eða íhaldssama. Fræðimenn hafa talað gjarnan um “diploma divide”. Ríki og sýslur með hátt hlutfall háskólamenntaðra íbúa kjósa aðallega demókrata. Á svæðum með lægra menntunarhlutfall hallast fólk frekar að repúblikönum. Fólk með háskólapróf hefur oftast frjálslyndari afstöðu til félags- og menningarmála en þau sem hafa minni menntun. Aðalskýringin er peningaleg. Nám er ekki sjálfgefið. Háskólanám er mjög dýrt í Bandaríkjunum og fyrst og fremst opið þeim ríku. Elítugagnrýnin er vein hinna efnaminni.

Í Kanada er menntakerfið fjölbreytilegra en sunnan landamæranna. Fleiri en peningafólkið hafa þar möguleika á góðri menntun. Sérhæfð starfs- og tæknimenntun nýtur einnig meiri virðingar norðan mæranna, háskólanám er almennt aðgengilegra og félagslegt öryggi meira. Stjórnmálaafstaða er ekki í Kanada jafn tengd menntun eða menntunarskorti eins og í Bandaríkjunum. Pólitískur munur milli fylkja í Kanada snýst aðallega um orkumál, tungumál, menningu og samband ríkis og markaðar – og kannski líka nú afstöðu til tollastefnu og yfirgangs núverandi Bandaríkjastjórnar.

Samanburðurinn bendir til þess að munur á menntun hafi pólitískt sundrandi áhrif fyrst og fremst þegar hún er dýr. Kerfisvandi Bandaríkjamanna er dýr menntun og þar með spenna milli þeirra betur settu og hinna menntunarskertu. Þar sem menntakerfi eru djúp og breið og fólk getur menntast þrátt fyrir fátækt dregur úr líkum á að menntun verði stétta- og afstöðustýrandi í stjórnmálum. Sem sé: Það sem getur bætt líðan Bandaríkjamanna, minnkað spennu í Ameríku og öllum heiminum er ódýr gæðamenntun handa öllum íbúum Bandaríkjanna, ekki aðeins þeim ríku.

Þökk sé áherslu á alþýðumenntun á Íslandi og þeirri óumdeildu meginstefnu að allir eigi að njóta sömu möguleika til náms. Gætum þeirrar menningarstefnu að allir eigi að fá að njóta gæðamenntunar.

Og við Kanadabúa vil ég segja: Flytjið út menntunaráherslur ykkar suður fyrir landamærin. Það er enginn tollur á góðum hugmyndum og góðri menningu.

Já, blindur er bóklaus maður. Og „…þjóð mín mun farast því að hún hefur enga þekkingu.“ Hós 4.6. 

„Vísindin efla alla dáð,
orkuna styrkja, viljann hvessa,
vonina glæða, hugann hressa,
farsældum vefja lýð og láð …“

(úr ljóðinu: Til herra Páls Gaimard eftir Jónas Hallgrímsson)