Greinasafn fyrir merki: mannhelgi

Er fólk rusl?

Manneskjan er mesta undrið. Það er áhersla vestræns húmanisma að virða fólk. Kristnir menn fylgja dæmi  og visku Jesú Krists sem mat fólk mikils, virti manngildi og sá undur í öllum mannverum.

Í frétt mbl og í helstu fréttaveitum heims 2. desember var miðlað að Donald Trump hefði sagt að Sómalir væru „rusl“, gæfu ekkert til Bandaríkjanna og ættu að hunskast aftur til síns heima. En orðavalið er ekki raus pirraðs öldungs heldur í samræmi við mynstur og meðvitað val. Trump hefur árum saman kallað pólitíska andstæðinga „losers“, blaðamenn „svín“, konur „ljótar“ og innflytjendur „sýkta“, „hættulega“ eða „óhreina“. Trump lætur sér ekki nægja að gagnrýna skoðanir eða greina rök heldur ræðast beint á persónurnar, niðurlægir, gerir lítið úr og smyr svo hroðanum á hóp eða þjóð.

Þessi tegund árásar þjónar tilgangi. Hún skiptir fólki í „við“ og „þið“. „Við“ erum hin sönnu,  raunverulegu fórnarlömb illsku hinna. „Þið“ eða „þeir“ eru óvinirnir, sníkjudýr, ógn, byrði, rusl. Þetta er sandkassapólitík óvita. Veruleikinn er einfaldaður, skrumskældur og líka hættulegur.

Þegar Trump kallar einhvern rusl, ljótan eða hættulegan hefur það afleiðingar. Málnotkunin réttlætir fyrirlitningu, eykur spennu, býr til gjár í samfélagi fólks og jafnvel kallar á samfélagslega grimmd og ofbeldi. Þegar fólk er afmennskað er auðveldara að réttlæta hræðilegar aðgerðir gegn því, senda úr landi og skjóta það á bátum úti á hafi.

Í lýðræðissamfélagi er skýrmælt og harðorð gagnrýni eðlileg og nauðsynleg. Í heilbrigðu samfélagi er tekist á um stefnumál, færð rök með og móti og svo markar lýðræðilega kjörinn meirihluti stefnuna. Lýðræði gerir ráð fyrir að allir geti lagt til mál og hið mikilvæga sé mótað í virkni og átökum.

En þegar leiðtogi gerir mannfyrirlitningu að stjórnmálastefnu og kallar fólk er rusl, svín eða skepnur hefur orðið pólitískt hrun. Orð skipta máli og móta. Þegar fólk er ekki lengur virt, hvorki manngildi þess né mannleg reisn er pólitískt gjaldþrot opinberað. Mannhatur Donalds Trump er ljóst. Forréttindablindir henta illa til leiðtogastarfa. Fólk er aldrei rusl – ekki heldur þeir sem hata aðra.

 

Slys, blóð og ástin í Barcelona

Fólk er flest undursamlegt og umhyggjusamt. Ég varð vitni að manngæðum og elskusemi þegar slys varð í Barcelona. Við sátum og biðum eftir paellu þegar hár hvellur glumdi og bergmálaði milli húsa. Allir hrukku við og ljóst var að umferðarslys hafði orðið. Ég leit upp úr Gaudi-bókinni sem ég var að lesa og sá unga konu falla til jarðar. Hún hafði brunað á mótorhjólinu sínu en ók á bíl sem hafði stoppað á rauðu ljósi. Þungar stunur bárust frá stúlkunni á götunni. Blóðið fossaði úr andliti hennar. Nærstatt fólk hljóp til og stumraði yfir henni. Tvö fluttu mótorhjólið upp á eyju. Fólk kom hlaupandi úr veitingahúsunum með servéttur og pappír til að stöðva blóðfossana. Svo byrjaði konan að gráta. Sjokkið skók líkama hennar og skjálftarnir voru rosalegir. Ég dáðist að hve fumlaust nærstaddir gengu í verkin, studdu hina slösuðu, struku engilslega bak hennar og handleggi, töluðu róandi við hana og aðrir hugguðu skekinn bílstjóra bílsins sem ekið var á. Einhver hringdi strax á sjúkrabíl sem kom eftir örfáar mínútur og annar skömmu síðar. Aðrir stýrðu umferðinni og beindu bílum frá svo hjúkrunarlið kæmist að strax. Verkaskiptingin varð á nokkrum sekúndum og margir lögðu lið. Hin slasaða var flut á sjúkrahús og vakt er yfir hjólinu þar til ástvinir koma og ná í það. Hjálmurinn sem stúlkan var með bjargaði miklu og kannski lífi hennar. Niðurstaðan um mikilvægi hjálma var okkur augljós og orðuð við borðið okkar. Slys verða en það var hjartavermandi að verða vitni að umhggju og kærleika sem konan naut. Vitundin um mannhelgi lifir í Barcelona. Mósaík lífsins er ekki aðeins í Gaudi-brotum heldur líka í fljúgandi mótorhjólum og aðvífandi englum í mannsmynd. Ást hinnar heilögu fjölskyldu sem túlkuð er í stórkostlegri basilíku Barcelona er iðkuð meðal fólksins í borginni..