Þessi kjúkingaréttur er fljóteldaður og bragðgóður. Í gærkvöldi komu allir heim svangir úr puði dagsins. Hvað er í matinn? Hvenær? Mmmmm. Það var sem sé einlæg matarsókn við kvöldverðarborðið. Samfélagsgleði, kátínan var smitandi og maturinn hjálpaði til. Allir nutu, borðuðu vel og þökkuðu hjartanlega og þá er kokksi kátur. Þorvaldur Karl, vinur minn, gaf mér uppskriftina fyrir aldarfjórðungi og ég eldaði hana oft eftir aldamót. Svo datt hún út en ég fann hana fyrir nokkrum dögum og ákvað að endurnýta. Myndin er slæm – maturinn er betri.
Fyrir 4.
Hráefni
- 800 g kjúklingakjöt, t.d. bringur, og skorið í bita eða strimpla
- 3 dl mangó chutney
- 300 ml rjómi
- 1 msk tímían
- 1,5 msk karrý
- 1 tsk sítrónupipar
- kjúklingateningur
- Salt og pipar að smekk
Matseld
Skerið kjúklingakjötið í bita og kryddið með karrý, salti og pipar. Hitið olíu á pönnu. Steikið kjúklingakjötið á pönnunni þar til bitarnir hafa brúnast vel. Leggið kjötið síðan í eldfast mót.
Sósan: Hellið rjóma og mangó chutney á pönnuna sem kjötið var steikt í (eða í pott). Hitið við vægan hita, kryddið með tímían, karrý, sítrónupipar, kjúklingakrafti, salti og pipar. Hrærið vel í. Þegar sósan er nærri suðu hellið þið henni yfir kjúklinginn í eldfasta fatinu og setjið síðan inn í ofn og steikið við 180°C í 35 mínútur.
Meðan kjúklingurinn er í ofninum er ljómandi sjóða hrísgrjón og rista grófar kókosflögur (eða kókosmjöl) á þurri pönnu til að setja yfir hrísgrjónin þegar maturinn er borinn fram.
Bananar, skornir í bita, passa þessum rétti vel sem og ferskt salat. Svo er hægt að leika sér með eitthvað litríkt úr ísskápnm til að auka litríkið á diskinum.
Bæn
Þökkum Drottni, því hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen.