Greinasafn fyrir merki: ljósmyndasafn

Ljósmyndirnar á Madeira

Ljósmyndasafnið í Funchal er glæsileg umgjörð og skýr vitnisburður um sögu ljósmyndunar á Madeira. Á 19. öld var eyjan vinsæll sumardvalarstaður auðmanna og þeir komu með ljósmyndagræjur með sér. Strax á fimmta áratug aldarinnar var talsvert myndað og í safninu er ljósmyndasagan nær tveggja alda rakin.

Í glæsilegu húsi safnsins var rekin ljósmyndastofa til 1970 en þá keyptu borgaryfirvöld það til að nýta sem safn. Í því eru varðveittar fjöldi myndavéla og kvikmyndavéla, svið, bakgrunnar, húsgögn stofunnar, myrkraherbergi með stækkurum, jafnvel steyptir skolvaskar og margvísleg framköllunartæki. Í safninu eru auk staðalsýningar tímabundnar sýningar á verkum ljósmyndara sem störfuðu á Madeira.

Við daglega stjórn eru röskar konur sem gaman var að ræða við og ég hef ekki í annan tíma heyrt eins hjartanlega hlátra í nokkru safni. Svo er þarna auðvitað ljómandi kaffihús. Dásamlegt og líflegt safn sem allir Madeiragestir ættu að vitja. Takk fyrir mig.