Greinasafn fyrir merki: krækiber

Lambalæri – langsteikt

15 tíma lambakjöt er stórkostlegur veisluréttur. Steikingin var vissulega ekki í fimmtán tíma heldur hefst undirbúningur daginn áður en ástvinir eða félagar setjast til snæðings. Það er ljómandi að marínera yfir nótt og  hægelda svo yfir daginn. En svo er auðvitað hægt að stytta sér leið – búa til kryddhræringinn fyrir hádegi og steikja síðdegis. Perlubygg  – frá Vallanesi – hentar sem meðlæti. Og meðmælanlegt er að gera góða rauðvínssósu eða sveppasósu með. Krækiberjasulta er við hæfi. Svo er auðvitað persónuval hvort og hvaða tegund af grænmeti er notað með.

Handa 8

2,25 kg lambalæri – eða lambabógur

1 msk ristuð kóríanderfræ (eða malað kóríaner)

1 tsk flögusalt,

6 hvítlauksrif marin

1 tsk svartur pipar,

1 tsk múskat,

1 tsk rósmarín, þurrkað

2 tsk timían, þurrkað

Myljið kóríanderfræin í mortéli, bætið saltinu við og myljið áfram, bætið svo hvítlauknum saman við og hrærið. Bætið öllu kryddinu og timían saman við og slettu af ólífuolíu og blandið síðan vel. Skerið krossmynstur í kjötið með beittum hníf (1-2 mm) og nuddið svo marineringunni þar sem þið skáruð og yfir allt kjötið. Hjúpið kjötið með smjörpappír og tvöföldu lagi af álþynnu og leyfið að marinerast. Þegar komið er að steikingu er ofninn hitaður í 170°C (með viftu) og steikt í 4 tíma eða þar til kjarnhitinn er um 60°C. Leyfið kjötinu að hvíla í 20 mínútur áður en það er skorið.

Á berjatímanum blanda ég saman lúku af krækiberjum, skvettu af balsamediki og rauðvínsslettu, hræri saman og set yfir kjötið síðasta hluta steikingarinnar. Þessi hræringur myndar fallega húð og áferð svo kjötið er glæsilegt þegar það kemur úr ofninum. Ásýnd skiptir máli í matargerð og á að vera í samræmi við bragðgæðin.

Bæn: Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen. 

Krækiberjasulta

Nú er berjatími. Það eru ekki bara bláber, aðalbláber og hrútaber sem eru nýtanleg. Krækiberin eru ofurfæða og hægt að sulta þau, safta eða frysta til vetrarins. Við fórum í berjamó til vina okkar í nágrenni Reykjavíkur og komum til baka með um 10 lítra af krækiberjum. Sultunin er hamingjutími í kokkhúsi okkar. Og þar sem ég var með lambalæri í ofninum setti ég sultuð krækiber í skál og bætti við balsamediki og rauðvíni og hellti yfir steikina til að glasera lærið í lokin. Hér er uppskrift að gæðasultu og við lágmörkum sykurnotkunin. Og bragðið er undur.

Hráefni

1 kg krækiber

500 g sykur (minna en hefðbundið, til að halda sýrubragðinu)

100 ml vatn

1 sítróna lífræn (safi + börkur)

1 vanillustöng (fræ og stöng)

1 lítið stykki af fersku engifer (5–10 g, fínsaxað)

1 stjörnuanís eða ½ kanilstöng (valfrjálst)

1 tsk sjávarsalt (lyftir berjabragðinu)

Framkvæmd

Hreinsa berin. Sjóða ber + vatn + sítrónusafa þar til þau mýkjast og springa (ca. 10 mín). Bæta við sykri, vanillu, engifer og hinu hráefninu. Láta sjóða á miðlungshita, hræra vel og fjarlægja froðu ef einhver er. Fjarlægja kryddstöngina, anís (og öðru sem skemmir útlitið) og hella sultunni í heitar, sótthreinsaðar krukkur.

Hægt er að nota dropa af krækiberjasultu með villibráð t.d. hreindýr, gæs eða önd til að skreyta og veita nett bragðundur! Svo má glasera lambakjöt með blöndu af sultu, smá rauðvíni og balsamico.