Greinasafn fyrir merki: Köllun

Heimsljós

Fyrir nokkrum árum tók ég á móti skólabörnum á aðventunni og var beðinn um að fræða þau um messuna og atferli í kirkjunni. Einn daginn signdi ég mig, gerði krossmark og spurði hvað maður segði þegar maður gerði svo krossmerki á sér. Ég bjóst satt að segja við, að eittvert barnanna svaraði að orðin væru: „Í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda.” Einn drengurinn rétti snarlega upp hendi og vildi fá að svara. Ég benti á hann og hann svaraði kotroskinn: „Maður segir: Ég er ljós heimsins!“ Þetta var óvænt en flott svar!

Svo ræddum við um signinguna og aðra þætti messunnar. Svo var komið að lokum heimsóknarinnar og ég sagði þeim að þegar maður kveddi einhvern sem væri að fara út þá segðum við gjarnan bless. Þannig væri það líka í lokin á öllum messum. Þá lyfti presturinn höndum segði bless við fólkið í kirkjunni. En hvaða orð notaði presturinn þá, hvað segði hann: Aftur lyfti sami strákurinn upp hendina. Og ég átti von á að nú kæmi Guðsbless og benti á hann. Hvað segir presturinn? Aftur svaraði hann kotroskinn og algerlega fullviss: „Presturinn segir: Ég er ljós heimsins.”

Ljós heimsins – heimsljós. Þetta lifði í mér. Drengurinn var viss um að þetta væri aðalatriðið og mætti segja alls staðar. „Ég er ljós heimsins.“ Já, Guð er ljós heimsins, allt sem verðar Guð er ljós heimsins. Það er himinboðskapurinn – skýr og klár. Gildir fyrir okkur öll og í hvaða aðstæðum sem við erum.. Þegar undirstöður eru skeknar og að samfélaginu er kreppt er þarft að staldra við og spyrja um hvað skiptir máli. Hvað verður til hjálpar?

Einn veturinn gekk ég daglega fram hjá Landakotskirkju og vitjaði fárveikrar móður minnar á Landakotsspítala. Við kirkjuna er skúlptúr Steinunnar Þórarinsdóttur. Ég horfði jafnan á styttuna, sem er konumynd, hreifst af fegurð hennar og var djúpt snortinn af þeirri auðmýkt og lotningu, sem hún miðlar. Oft var ég áhyggjufullur þegar ég fór hjá, en þessi einfaldi en agaði minnisvarði um nunnuþjónustu Sankti Jósepssystra miðlaði mér trúartrausti og líka óttaleysi. Ég fór að skoða listarverkið. Glerkross sker ryðgaðan málminn. Fyrst sá ég að krossinn náði frá hjartastað og upp á andlit. Síðar tók ég eftir, að kross var líka á bakinu. Krossarnir minntu mig á signinguna, sem elskandi mömmur og pabbar hafa merkt börn sín með – að framan og aftan. Myndverkið minnti mig á, að við mannfólkið erum krossuð á bak og brjóst, sama hvað við erum frosin og lemstruð. Einn morguninn þegar áhyggjumyrkið var hvað dimmast gekk ég mót sól og að konumyndinni. Þá varð undur. Sólargeisli skein í gegnum krossinn á styttubakinu og út um krossinn á brjóststykkinu. Allur krossinn lýstist upp og glerið varð eins og stækkunargler og magnaði ljósljómann. Rústrauð mannsmyndin varð sem yfirjarðnesk vera, sem tók við himinljósinu og endurvarpaði því. Brjóstið opnaðist og miðlaði birtunni áfram í mynd krossins. Þetta varð mér sýn, sem ég túlkaði í krafti trúar. Verkið heitir Köllun og lífsgaldurinn er að við erum öll kölluð – kölluð til hamingju, til lífs, til hins guðlega veruleika. Enginn gengur að ljósundrinu að vild, þegar fólk er í stuði eða ætlast til að ná sambandi. Konumyndin við Landakot geislar aðeins á ákveðnum tíma og við ákveðnar aðstæður. Best er að koma með opnum huga og íhygli. Þá verður undur lífsins ljóst í málmi og gleri. Við erum öll kölluð til lífs og hamingju. Á göngu minni skein mér ljós. María, móðir Jesú, leyfði himinljósinu að skína um sig og undrið varð. Góðar mæður og góðir feður hafa speglað þetta ljós sem hefur orðið þeim og fólkinu þeirra til góðs á lífsgöngunni. Og þú ert kallaður eða kölluð til að leyfa undrinu að verða. Á lífsferð þinni skín þér ljós. Leyfðu ljósinu að skína til þín og gegnum þig. Það er köllun til ljóss og lífs. „Myrkur grúfði yfir djúpinu en andi Guðs sveif yfir vötnunum. Þá sagði Guð: „Verði ljós.“ Og það varð ljós.“ Jesús sagði: „Ég er ljós heimsins.“

Geislar lífsins

Við Landakotskirkju í Reykjavík er skúlptur Steinunnar Þórarinsdóttur. Einn veturinn gekk ég daglega fram hjá honum og vitjaði móður minnar, sem lá banaleguna á Landakotsspítala. Ég horfði jafnan á styttuna, sem er konumynd, hreifst af þokka hennar, mjúkum línum og þeirri auðmýkt og lotningu, sem hún miðlar. Oft var ég áhyggjufullur þegar ég fór hjá, en þessi einfaldi en agaði minnisvarði um nunnuþjónustu Sankti Jósepssystra miðlaði mér trúartrausti og óttaleysi.

Glerkross sker ryðgaðan málminn. Fyrst sá ég að krossinn náði frá hjartastað og upp á andlit. Síðar tók ég eftir, að kross var líka á bakinu. Krossarnir minntu mig á signinguna, sem elskandi mömmur og pabbar hafa merkt börn sín með – að framan og aftan. Minnti mig á, að við mannfólkið erum krossuð á bak og brjóst, sama hvað við erum frosin og lemstruð.

Einn morguninn þegar áhyggjumyrkið var hvað dimmast gekk ég mót sól og að konumyndinni. Þá varð ég fyrir undri. Sólargeisli skein í gegnum krossinn á styttubakinu og út um krossinn á brjóststykkinu. Allur krossinn lýstist upp og glerið magnaði ljómann. Rústrauð mannsmyndin varð sem yfirjarðnesk vera, sem tók í sig himinljósið. Brjóstið opnaðist og miðlaði birtunni áfram í mynd krossins. Þetta varð mér sýn, sem ég túlkaði í krafti trúar.

Verkið heitir Köllun og við erum öll kölluð til lífs, hins guðlega veruleika. Enginn gengur að undrinu að vild, þegar fólk er í stuði og ætlast til að ná sambandi. Konumyndin við Landakot geislar aðeins á ákveðnum tíma og við ákveðnar aðstæður. Best er að koma með opnum huga og íhygli. Þá verður undur lífsins verður ljóst, í málmi, gifsi og gleri.

Hvernig verður þessi dagur í lífi þínu. Kannski sækja að þér þungir og myrkir þankar. En ljósið skín, dagur er runninn, aftureldin verður. Leyfðu ljósinu að skína til þín og gegnum þig. Það er köllun þín í dag – köllun til ljóss og lífs. Guð lýsi þig og upplýsi þig á þessum degi og sé þér náðugur. Guð upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.

Morgunorð og morgunbæn Rúv. 25 sept. 2014.

mynd sáþ af Köllun