Greinasafn fyrir merki: kartöflur

Rómverskur kjúklingur með kartöflum – allt á pönnu

Í þessari ofnuppskrift eru kartöflur og kjúklingurinn fær bragð af góðri og ilmsterkri rósmarínsósu með kapers og ansjósum. Í staðinn fyrir tómata sem oft eru notaðir í pottrétti, er sýrubragðið fengið úr hvítvíni og ediki. Kjúklingurinn er lagður á kalda pönnu og síðan steiktur – til að ná stökkri húð og nota fituna sem grunn fyrir kartöflurnar. Grunnur uppskriftarinnar er frá Cybelle Tondu.

Fyrir 4

Hráefni:

900 g kjúklingalæri eð leggir (með beini og húð)

2 tsk gróft sjávarsalt

3 msk ólífuolía

500 gr kartöflur

1 msk ferskt rósmarín (nálarnar saxaðar)

4 ansjósur

2 hvítlauksrif

2 msk kapers

180 ml þurrt hvítvín

2 msk hvítvínsedik (eða rauðvínsedik)

2 msk fersk steinselja (söxuð)

Matseld:

  1. Ofninn stilltur á 220°C. Kjúklingurinn þerraður með pappírsþurrku og saltaður – 2 tsk salt.
  2. Hitið stóran pott eða djúpa pönnu (með loki eða án) og hellið 1 msk af olíu í. Leggið húðhlið kjúklingsins í kalda pönnuna og hitið síðan yfir meðalhita. Steikið án þess að hræra í um 15 mínútur, eða þar til húðin er orðin gullinbrún og losnar auðveldlega frá pönnunni.
  3. Á meðan kjúklingurinn steikist: Skerið kartöflurnar í bita um 2,5 cm að þykkt. Setjið í skál og bætið við rósmarín, söxuðum ansjósum, mörðum hvítlauk, kapers, 2 msk olíu og ½ tsk salti. Blandið öllu saman.
  4. Snúið kjúklingnum við og bætið kartöflublöndunni á pönnuna – komið fyrir yfir og undir kjúklingnum. Hellið hvítvíninu yfir. Setjið pönnuna í ofninn og steikið án loks í um það bil 25 mínútur, eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn og kartöflurnar mjúkar.
  5. Takið pönnuna af hitanum og veiðið kjúklinginn úr pönnunni og setjið til hliðar. Bætið ediki og 2 msk vatns á pönnuna og látið malla á meðalhita. Hrærið öðru hvoru, þar til kartöflurnar eru þaktar þykkri, gljáandi sósu (um 5 mínútur eða lengur ef þarf). Ef sósan er of þykk eða feit, bætið við vatni, 1 msk í einu, til að ná réttri áferð. Smakkið til og bætið við salti og ediki ef þörf verður á.
  6. Setjið kjúklinginn aftur á pönnuna og stráið saxaðri steinselju yfir.

Tillögur að meðlæti:

Brauð

Rúgbrauð, focasía eða súrdeigsbrauð – til að dýfa í sósuna. Grillað brauð með hvítlauksolíu við bragðvídd.

Grænt salat

Létt rúkkola- og spínatsalat með sítrónusafa og ólífuolíu.

Má bæta við parmesanflögum eða kirsuberjatómötum.

Sítrónu- eða edikgljáð grænmeti

Grillaður aspargus eða grillaðar gulrætur með örlitlu balsamik-ediki.

Bæn: Þökkum Drottni því að hann er góður – og miskunn hans varir að eilífu. Amen. 

Dýrustu kartöflur á Íslandi

Þjóðviljinn flutti eitt sinn þá frétt, að kona í Vesturbænum ræktaði dýrustu kartöflur á Íslandi. Konan var mamma og Þjóðviljinn birti mynd af garðinum á dýrmætri byggingarlóð. Verktakar og lóðaþurfandi framkvæmdamenn komu svo og vildu kaupa. Pabbi vísaði þeim brosandi á mömmu. Svo hringdu aðrir og spurðu hvort þeir gætu ekki fengið þessa óbyggðu lóð? Og enn vísaði pabbi á mömmu með kímni í augum. Þar fengu framkvæmdamenn heimsins fullkomlega skýr svör. Nei, þeir gætu ekki fengið þessa lóð af því að hún væri notuð til kartöflu- og kálræktar. „En hættið þið ekki bráðum þessari garðrækt?“ „Nei“ sagði mamma ákveðin. Það var alveg sama hvað skynsemi heimsins spurði um, hvað fjármálamennirnir buðu og hvað praktískt hyggjuvitið bar upp. Lóðin á Tómasarhaga 18 var ekki fyrir byggingu af steinsteypu og járni, heldur viðkvæmar byggingar jurta sem nutu verndar, athygli, ástúðar og elsku mömmu.

Nokkrir krakkar í götunni sögðu: „Mamma þín er skrítin því hún ræktar kartöflur. Getur hún ekki keypt þær úti í búð eins og mömmur okkar?“ Þegar við bárum upp þessi eineltisefni setti mamma son sinn og dóttur á stól og skýrði málið. Hún skýrði út að margt fólk héldi að moldarvinna væri ekki fín. En því miður hefði það bara ekki skilið meira eða betur en þetta. Hún væri að rækta því hún væri ræktunarkona. Hún hefði gaman af jurtunum og það væri gott fæði sem hún ræktaði. Þar að auki veldi hún sér sjálf atvinnu, sparaði heimilinu peninga, sem við gætum notað í eitthvað skemmtilegt í stað þess að kaupa kartöflur og kál. Mamma var græn í hugsun og svo var það auðvitað alveg sjálfgefið að Guð elskaði afstöðu hennar og starf. Kartöflurnar hennar voru betri en annarra, kálið hennar stórvaxnara og ljúffengara en í búðinni. Mamma var í leynibandalagi með Guði sem skapar og elskar fólk sem ræktar. Svo fengu nágrannarnir sendingu úr garðinum þegar haustaði af því maður deilir með öðrum gæðum garðs og heims.

Þegar mamma nálgaðist nírætt treysti hún sér ekki lengur að rækta í öllum 600 fermetrunum eins og áður. Hún seldi stóru lóðina en hélt áfram að rækta í þremur beðum á minni lóð og var að til æviloka. Mamma miðlaði hollri lífsleikni og að grænt er sálarvænt.

Vísir