Greinasafn fyrir merki: Hvítlaukur

Jerúsalem shashuka

Við Ísak vorum í puði og útréttingum fyrri hluta dags og komum svangir heim. Shaskuka í Jerúsalem leitaði á huga minn. Til voru egg, laukur og paprikur í ísskápnum og flest sem þarf í shashuka. Við áttum líka alvöru grískan feta og dill. Eftir hálftíma vorum við farnir að borða þennan litríka undramat, ekki síðri en við Jaffahliðið í Zíon. Hér er uppskriftin

Fyrir 4

Hráefni:

  • 2–3 msk ólífuolía
  • 1 meðalstór laukur saxaður
  • 2 paprikur (rauð eða gul), skornar í ræmur
  • 3 hvítlauksrif fínt söxuð
  • 1 tsk kúmen mulið
  • 1 tsk paprikuduft (reykt ef til er)
  • ¼ tsk cayennepipar (eða eftir smekk)
  • 1 dós (400 g) saxaðir tómatar
  • 1 msk tómatþykkni
  • Salt og nýmalaður svartur pipar
  • 4–6 egg
  • Handfylli af dilli, kóríander eða steinselju

Matseld:

  1. Hitið olíu í stórri pönnu á miðlungshita. Steikið laukinn í 5–6 mínútur, þar til hann verður mjúkur.
  2. Bætið papriku og hvítlauk út í og steikið áfram í um 8 mínútur, þar til paprikan er orðin mjúk.
  3. Kryddið: Kúmen, paprikuduft og cayenne. Hrærið í 1–2 mínútur til að kryddið opnist í olíunni.
  4. Bætið tómötum og tómatþykkni út í. Látið malla í 10–15 mínútur þar til sósan er orðin þykk og ilmsterk. Smakkið til með salti og pipar.
  5. Gerið holur í sósuna og brjótið eggin varlega ofan í. Ýtið við hvítunni yfir í rautt umhverfið svo eggjahvítan steikist og hvítni alveg. Hyljið pönnuna og eldið á lágum hita í 7–10 mínútur, þar til eggjahvítan hefur stífnað en rauðan er enn mjúk.
  6. Stráið ferskum jurtum og muldum fetaosti yfir áður en borið er fram.

Ljómandi að nota snittubrauð til að skófla upp sósu – þetta sem Ítalir kalla scarpeda. Það er líka hægt að nota jógurt eða labneh í stað fetaostsins. Matreiðslan og hráefnanotkunin er opin og kallar á hugvit og spuna.

Bæn: Þökkum Drottni, því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu.

 

Jeríkókjúklingur með lauk, döðlum og granatepli

Sæta döðlunnar, mildur blaðlaukur og safaríkt granatepli kyssast í rétti sem minnir á Jeríkó.

Í 4Mós 11.5 segir frá hve ákaft Ísraelsmenn söknuðu lauks, hvítlauks og blaðlauk sem þeir nutu í Egyptalandi. Döðlur voru gjarnan kallaðar „brauð eyðimerkurinnar“ og voru helsti orkugjafi á ferðalögum (2Sam 6.19). Granatepli voru tákn lífs, frjósemi og blessunar (5Mós 8.8; 2Mós 28.33–34). Hér sameinast þessi þrjú hráefni í rétti með áhugaverðar bragðvíddir. Í unaðsborginni Jeríkó var hægt að elda svona mat og halda veislu.

Hráefni (fyrir 5 manns)

  • 15 kjúklingaleggir (Gallus gallus)
  • 2 rauðlaukar (Allium cepa), grófsaxaðir
  • 2 blaðlaukar (Allium porrum), þverskornir í þunnar sneiðar
  • 1 heill hvítlaukur (Allium sativum), klofinn í geira en óafhýddur
  • 2 stilkar sellerí (Apium graveolens) þverskornir í ca 1 cm búta
  • 2 msk ólífuolía (Olea europaea)
  • 4 lárviðarlauf (Laurus nobilis)
  • 1 msk fersk salvía (Salvia fruticosa) eða þurrkuð
  • 1 msk ferskt rósmarín (Salvia rosmarinus)
  • 1 tsk kúmmín (Cuminum cyminum)
  • ½ tsk kanill (Cinnamomum verum)
  • 6 döðlur (Phoenix dactylifera), saxaðar smátt eða maukaðar í soði
  • Safi og fræ úr 1 granatepli (Punica granatum)
  • ½ glas vatn + grænmetissoð (bygg- eða linsukraftur)
  • Maldonsalt eða gróft sjávarsalt
  • Nýmalaður svartur pipar

Aðferð

  1. Marínering: Kryddið kjúklinginn með salti, kúmmín, kanil og ólífuolíu. Látið liggja í kæli í nokkrar klukkustundir eða yfir nótt.
  2. Grunnurinn: Steikið rauðlauk, blaðlauk og sellerí á pönnu þar til allt mýkist. Bætið hvítlauk og lárviðarlaufi út í.
  3. Steiking kjúklings: Brúnið kjúklingaleggina á heitri pönnu þar til húðin er gullin. Hellið grunninum yfir kjúklinginn. Og steikið áfram.
  4. Sósan: Maukið döðlur í vatni. Hellið öllu yfir kjúklinginn á pönnunni. Stráið salvíu og rósmaríni yfir. Notið þurrkað krydd ef ferskt er ekki til.
  5. Steiking: Látið réttinn malla á meðalhita á pönnunni í 45 mínútur. Gætið þess að vökvinn á pönnunni þorni ekki upp. Bætið vatni við ef þarf.

Berið fram á pönnunni: Dreifið granateplum yfir og skreytið með ferskri steinselju. Rétturinn er bestur með soðnu byggi og ósýrðu brauði sem dregur í sig ríkulegan sósukeim.

Bæn: Þökkum Drottni, því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen.

Fjörtíu geira kjúklingur

Því meiri hvítlaukur því betri matur. Enginn skyldi hafa áhyggjur af lyktinni. Því meiri hvítlaukur þeim mun minni lykt! Það er svolítið maus að flysja laukinn en það kemst upp í vana. Ég skora á ykkur að prufa! Uppskriftin f 4.

½ bolli ólífuolía

4 stilkar sellerí (þverskorið fremur smátt)

2 msk. estragon

2 msk. fínt klippt steinselja

1 góður kjúklingur hlutaður í sundur

salt og nýmalaður pipar

2 niðurrifnar múskathnetur

40 afhýddir hvítlauksgeirar

½ dl. koníak eða sletta af sherrý

¾ bolli hveiti vatn

Hitið olíuna, setjið sellerí, steinselju og estragon út í heita olíuna og látið mýkjast í 2-3 mínútur (passa ekki brenna). Stráið vel af salti, pipar og nýrifnu múskati á kjúklingabitana og steikið upp úr olíunni. Setjið allt saman í eldfast mót (með loki), hvítlauksgeirarnir og koníakið sett út í, lokið sett á (helst lok sem fellur vel að). Hrærið saman hveiti og vatni svo úr verði þykkur jafningur og þéttið lokið með honum, sem sé loka pottinum rækilega (það skilar sér vel!). Bakið réttinn í ofni við 190° C í eina og hálfa klst. Athugið að krydda vel með salti, pipar og múskati, annars verður maturinn bragðlítill, sem alls ekki má henda! Mikil og góð sósa verður í pottinum og því er ljómandi að hafa hrísgrjón eða bygg með réttinum og ekki síðra að hafa líka nýbakað brauð til að veiða upp vökvann.