Greinasafn fyrir merki: Blómkál með jógúrtsósu

Blómkál með jógúrtsósu

Ég átti blómkál í kælinum og ákvað að nota það sem munngælu kvöldmatarins. Mamma gufusauð gjarnan blómkál síðsumars, baðaði það síðan í kryddaðri smjörsósu, bætti við smáskornu hangikjöti eða steiktu beikonsmælki, þakti síðan með osti og steikti í ofni. Bernskuminningin kviknaði er ég stóð með blómkálið milli handanna. Mér fannst ég finna bragðið þrátt fyrir sextíu ára tímahaf. Ég ákvað að nota mömmuaðferðina en krydda að eigin hætti, enda mun meira úrval af kryddi en þegar hún gerði kraftaverkin í eldhúsinu á Tómasarhaga. Ég bjó svo til kryddsósu með og grillaði líka kjúkling til að allir munnar yrðu glaðir og magar líka. Svona máltið er til fagnaðar. Lífið lagsmaður – það er nú undursamlegt. 

Hráefni:

1 blómkálshöfuð

200 gr. smjör

2 msk ólífuolía

1 tsk kúmen

1 tsk kóríanderduft

1 tsk túrmerik

3 hvítlauksgeirar smátt skornir

1 tsk salt

½ tsk svartur pipar

1 msk sítrónusafi

1 msk granateplasæta (mólassi má sleppa)

100 gr af smáskornu steiktu beikoni, chorizo eða skinku

200 gr mozarella eða annar bragðgóður ostur

Matreiðsla

Fyrst skar ég blómin af kjarna blómkálsins og gufusauð þau í 10 mínútur. Á meðan hrærði ég saman hitt hráefnið og notaði chorizo og dásamlega Parmaskinku sem við áttum í kæliskápnum. Skar smátt. Þegar blómkálið var soðið dreifði ég úr því á ofnþolið fat, hellti volgri smjörkryddblöndunni yfir, dreifði vel úr kjötflísunum og setti ostinn yfir, bakaði síðan í 20 mínútur.

Jógúrtsósa

200 ml grísk jógúrt

1 hvítlauksgeiri smáskorinn

1 msk fínsöxuð mynta

1 msk fínsöxuð kóríander

rifinn börkur af ½ lífrænni sítrónu (má sleppa)

smá salt

Verði ykkur að góðu og:  

Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen. 

Málningardagurinn fór í matargerð. Góð skipti? 31. júlí 2025.