Greinasafn fyrir merki: bjölluhljómur

Arvo Pärt og hljóðbænirnar

Arvo Pärt fór eigin leið í lífinu og tónsmíðunum. Hann er einn af dýrlingunum mínum. Mér þykir hann vera andríkasta tónskáld síðustu áratuga. Bjöllustíllinn er einstakur, kyrrðin umvefjandi og áleitin, einfaldleikinn agaður og sláttur englavængja heyranlegur. Tónlistin opnar milli himins og jarðar, tíma og eilífðar. Fíngerðar breytingar í stefjavinnslunni magna kyrrð vitundar og í andstæðu við síbylju samtímans. Pärt-tónlistin er andstæða hávaða. Hún er eins og hljóðbæn – fámál en þrungin merkingu. Það er dásamlegt að syngja verk Arvo Pärts, sem hljóma best í ómhúsi eins og Hallgrímskirkju, en líka að hlusta á þau með opnu hjarta. Pärt er níræður og þessa dagana spila ég tónlist hans.