Greinasafn fyrir merki: bjarga menn heiminum

Landsbjörg, mannbjörg – heimsbjörg

Bandaríski listamaður­inn Joey Syta var í heimsókn á Seyðisfirði síðastliðið vor. Hann fór í gönguferð en villtist. Hann klifraði upp hlíðar og fór yfir fjöll. Villuráfið endaði í Loðmundarfirði sem er norðan við Seyðisfjörð. Þar hrapaði hann og rotaðist. Þegar hann vaknaði til meðvitundar gerði hann sér grein fyrir að hann væri það illa meiddur að hann væri ófær um að ganga til baka. Síminn hans náði engu sambandi svo hann gat ekki hringt. Hann varð því að bíða og vonaði að farið yrði að leita að honum. Það sem átti að verða hressandi gönguferð í íslenskri undraveröld varð að fimm daga útlegð – vosbúð í marskulda – í íslenskum eyðifirði. Joey Syta nærðist á því sem hann sleit upp úr jörðu og fjöru og reyndi fáklæddur að halda á sér hita í kuldanum. Vinir hans héldu að hann væri í Seyðisfirði og leituðu hans þar. En björgunarsveitarmenn stækkuðu svo leitarsvæðið. Að morgni – eftir marga daga – heyrði Joey hljóð björgunarsveitarbáts og honum tókst að ná athygli bátsverja. Hann náði að stökkva af kletti út í bátinn og var svo komið til byggða og manna. Hann sem var týndur var fundinn – Joey Syta lifði af.[i]  Mannbjörg.

Hvenær erum við týnd?

Að týnast og finnast er meginþema í sögum og lífi heimsins og eitt af djúpsæknustu þemum Biblíunnar. Það er stefið sem ég tala um í dag – og engin tilviljun að Jesús sagði ekki bara eina heldur þrjár sögur um merkingu þess. Í Lúkasarguðspjalli eru sögur um týnda sauðinn, um týnda peninginn og svo líka um týnda soninn. Þær eru ekki bara krúttlegar sögur sem enda vel heldur fremur djúpsögur um merkingu lífs og heims. Þær eru ekki Munchausen-sögur um að við getum dregið okkur sjálf upp á hárinu. Þetta eru ekki sjálfshjálparsögur heldur sögur um að breyta um lífsskoðun. Sögurnar eru snúningssögur. Þær breyta sjónarhólum þeirra sem skilja þær. Þær breyta mannsýn, heimssýn og líka himinsýn. Þær úthverfa mannmiðlægni og tjá að menn séu ekki miðja heimsins heldur Guð. Sögurnar miðla að það séu ekki menn heldur Guð sem bjargi lífi og veöld. Og þessi Guð bíður ekki eftir að hinn týndi komi sjálfur heldur fer að leita, þolinmóður, þolgóður, þrautgóður og leitar og finnur. Þegar hinn týndi finnst eru engar skammir fyrir óvitaháttinn, fyrir að ana út í vitleysu – nei, heldur dásamlegur fögnuður og gleði.

Joey Syta var týndur og gat ekki bjargað sér sjálfur. Hann fannst og var fagnað. Við lendum öll í því í lífinu að villast, t.d. detta úr sambandi, týnast í verkefnum, fjármálum, vinnu eða skóla. Sum okkar villumst í óblíðri náttúru, önnur í geðbrenglun eða ástarlífinu, í fjölskylduharmleikjum, vinnu eða vímu. Við getum líka slitnað úr samandi við elskhuga lífsins – Guð. Þá missum við trúna. Veröldin klikkast og kerfi veraldar hrynja.

Hvenær erum við týnd? Og á bak við hana er önnur og ágeng spurning: Tökum við eftir því þegar við erum týnd? Þegar best lætur röknum við úr rotinu eins og Joey Syta – sambandslaus og bjargarlaus – en tilbúin að nema lífshljóðin – björgunarmerkin. Svo dró Jói saman lífsreynsluna og lærdóminn þegar Mogginn tók viðtal við hann: „Ef þú vilt ekki deyja, þá verðurðu að læra að lifa.“ Það er skarplega athugað. Hvernig lærir einstaklingur og heimur að lifa?

Fundinn – Guð sem leitar – Guð sem finnur

Áherslan í sögunum í fimmtánda kafla Lúkasarguðspjalls er ekki  ógn og skelfingu þess að týnast heldur fremur á gleði björgunarinnar. Ekki um drungann heldur von. Ekki um dauða heldur líf. Merkingarsnúningur þessara sagna er stóra bomban – að það eru ekki menn sem finna Guð – heldur Guð sem finnur og fagnar. Í því er úthverfing sagnanna fólgin. Það er hirðirinn sem skilur eftir 99 kindur og leitar einar. Það er konan sem sópar gólfið í leit að einum smápeningi. Hún finnur og gleðst. Og það er faðirinn sem stendur við veginn og horfir í fjarska og sér svínastíusoninn koma. Líkingarnar byrja í hinu mannlega en beina síðan sjónum að hinu dýpsta og mikilvægasta. 

Hvað finnst þér um það að snúa mannmiðlægni okkar og veröld á hvolf og gera veröldina guðmiðlæga í staðinn? Leyndarmál ástarríkis Guðs er að við erum metin og elskuð óháð göllum okkar. Gildi okkar er ekki háð okkur heldur erum við metin óháð sjálfsmynd og eigin mati. Það er Guð sem fer af stað og spyr ekki hvort við eða veröldin séu þess virði að eyða orkunni. Það er Guð sem ber okkur heim. Það er Guð sem fagnar okkur. Það er Guð sem leitar að hinu týnda og finnur en ekki að menn sem leita Guðs og finna. Guð hefur frumkvæði að leita okkar en ekki öfugt.[ii] Heimsbjörg.

Leit Guðs á okkar tímum

 Margir hafa misst tengsl við trú og týnst í einhverjum Loðmundarfirði lífsins. En Guð er ekki reiður – Guð biður ekki um skýrslu, að fólk hringi eða ýti á neyðarhnappinn. Guð fer af stað og finnur okkur. Mannbjörg. 

Jesús talar ekki um refsingar heldur um gleði. Hirðirinn fagnar. Konan kallar nágranna sína til sín svo þeir geti glaðst með henni. Ólánssonurinn sá að sér og kom heim og þá var ekki tími til að skamma strákinn heldur til að gleðjast og efna til veislu. Í þessum Jesúsögum er tjáð að Guð birtist ekki í mynd veisluspillis. Guð er þvert á móti sá máttur sem leysir úr vanda, leitar lausna, sér hið týnda sem Guð elskar alltaf og þorir svo að halda hátíð þegar það sem var týnt finnst. Guðstrú kristninnar er ekki kerfi eða siðalögmál heldur fögnuður. Guð leitar, finnur og fagnar. Og þótt menn bæði mengi og sprengi heiminn tekst okkur ekki að týnast Guði sem sleppir ekki. Fagnaðarerindi.

Samfélög brotna, hópar og þjóðir deila og við lifum skautun, grimmd og ofbeldi meðal manna. Samkennd rofnar, sundrung læðist um samfélög sem riðlast. Vonleysi magnast og lömunarsýki tilgangsleysis geisar. Á þessum tímum er hollt að horfa í dýptir og spyrja hverjir bjarga heiminum, lífríkinu, mannfólkinu – eru það menn?

Jói Sæti var strand. Hann hafði villst og slasast. Hann beið og vonaði – lærði að lifa. Ef björgunarsveitin hefði ekki leitað hefði hann farist. Þannig er það í stóru málum okkar og veraldarinnar. Það eru ekki menn sem bjarga týndri og villtri veröld heldur Guð. Guð er ekki bara uppruni okkar – Guð er besti vinur – mannbjörg, landsbjörg og heimsbjörg.

Amen.

Hallgrímskirkja, 3. sunnudagur eftir þrenningarhátíð, 6. Júlí, 2025.

Textar dagsins: Míka 7.18-19; Ef. 2.4-10; Lúk 15.1-10.

And for those of you who do not understand Icelandic:

I spoke about the biblical, social, political, and general theme of being lost and found. I mentioned an American man who went missing last March in an uninhabited area of eastern Iceland. No one knew where he was — but eventually, the national search and rescue team found him, and his life was saved.

The biblical stories emphasize that we are responsible for our lives, yet we are not able to save ourselves. In the parables of the lost and found, Jesus turns human-centered narratives inside out. The focus shifts: it is God who is the center of help. God is always on the alert — ready to rescue, without shaming those who did everything wrong.

No — God searches, finds, and then celebrates. The Christian pattern is clear: what was lost leads to joy. The earthly story becomes, at its core, a story of hope — a movement toward goodness and joy — because this world is a beautiful, grace-filled creation of God.

[i] Frásögn af ferð Joey Syta, hvað hann gerði og hvernig hann fannst er í Morgunblaðsgrein að baki þessari smellu.

[ii] Jón Gnarr skrifaði eitt sinn í blaðagrein að hann hafi leitað að Guði en ekki fundið. Hann dró þá ályktun að Guð væri ekki til. Ég fjallaði um skrif hans og benti á viðsnúninginn, að það væri Guð sem leitaði manna og líka að Jóni Gnarr. Grein mín um túlkun Jóns Gnarr var á visir.is og er að baki þessari smellu.

Myndina tók ég í ferð vinafjölskyldna í Austur-Skaftafellssýslu. Fjallsárlón.