Greinasafn fyrir merki: Auður I Ottesen

Uppskerudagur í Alviðru 14. september

Í tengslum við dag íslenskrar náttúru verður boðið til veislu og uppskerudags í Alviðru sunnudaginn, 14. september, kl. 14-17. Veisluborð verða dúkuð og boðið verður upp á grænmetissmakk úr grenndargarðinum, kaffi og kakó. Gestir bera með sér veitingar að borðinu og njóta veislunnar saman undir stjórn Auðar I. Ottesen og Sigurðar Árna Þórðarsonar. Hið árlega Alviðruhlaup verður einnig á þessum uppskerudegi.

Félagsmönnum Landverndar býðst að rækta í grendargarði Alviðru. Þar rækta nú fimmtán fjölskyldur matjurtir og unnið er að fjölgun ræktunarreita. Auður segir frá grænmetis- og kryddræktuninni og býður gestum að smakka nýuppteknar garðafurði. Sigurður Árni deilir uppskriftum að piparmyntuhlaupi og grænkálssnakki.

Alviðra er umhverfis- og fræðslusetur í Ölfusi og jörðin er í eigu Landverndar. Ungir sem aldnir geta notið náttúrugæða í hlíðum Ingólfsfjalls, í Öndverðarnesi, Þrastaskógi og við Sogið. Tryggvi Felixson er formaður stjórnar Alviðru og með honum í stjórn eru Auður I. Ottesen, Kristín Vala Ragnarsdóttir, Margarita Hamatsu og Sigurður Árni Þórðarson. Alviðrunefnd efnir til margvíslegra fræðsluviðburða og gönguferða.

Undanfarin ár hefur verið unnið að endurbótum á húsakynnum Alviðru. Í fjósi og hlöðu verða samkomusalir sem nýtast til funda, viðburða, ráðstefnuhalds og náttúrufræðslu. Fjósið verður notað sem veislusalur uppskerudags.

Auður og Sigurður Árni taka vel á móti gestum sem hvattir eru til að leggja lítilræði til Pálínuboðsins og njóta þess að gleðjast saman í Alviðru.

Verið velkomin.

Mynd: Páll Jökull