Greinasafn fyrir merki: ættartengsl

Kvöldsónatan – nánd og tónlist

Kvöldsónata Ólafs Jóhanns Ólafssonar er ekki saga píanósnillings heldur um drenginn Stefán sem leitar nándar í samskiptum. Hann finnur hana ekki í tengslum við fólk heldur í tónlist. Leit sögupersónunnar að tilfinningalegri dýpt er grunntaktur Kvöldsónötunnar. Fjarlægð og nánd er ekki aðeins spennupar heldur mótar uppistöðu verksins, flækju bókarinnar. Og það sem virðist augljóst er aðeins yfirborð. Undir niðri er margt sem leynist en er opnað smám saman í framvindunni. Flétta Ólafs Jóhanns gengur upp eins og flott sónata – eða kannski fremur fúga. List höfundarins kemur fram í fjölda smáatriða sem virðist vera skraut en eru hnyttilegar vísbendingar. Dæmi – rafmagnsrofi í Fjólgötuíbúðinni, mynd í Suðurgötuhúsinu, nöfn persónanna ofl.

Uppvöxtur Stefáns í miðbæ Reykjavíkur einkenndist af fjarlægð. Hann var ekki náinn foreldrum sínum, þótt þau tryggðu honum öryggi og ramma. Hann var ekki náinn frænda sínum eða fjölskyldunni sem hann óx upp í, þrátt fyrir mannmergð og kynslóðir á hæðum í fjölskylduhúsi. Hann var hluti af samfélagi en þó ekki í kviku þess. Þessi fjarlægð kom ekki fram í átökum eða ofbeldi, hún var hljóðlát, ósýnileg, djúp.

Stefán var góður liðsfélagi í fótboltanum á Landakotstúninu. En hann vildi frekar spil og sigur en að skora mörkin sjálfur. Hann hafði hæfileika, gáfur og var klókur. Hann vann félagssigra og gat stýrt því sem hann vildi. En leiðtogahlutverk veitir vald en ekki nánd sem hann þráði.  

Stefán sá þegar karlarnir í hverfinu roguðust með flygil í húsið hinum megin götunnar. Svo komu hjón frá útlöndum, Esther og Felix Daudistel. Stefán heillaðist af píanóleik konunnar. Hún opnaði honum heim tilfinningadýpta. Hann skynjaði lífið í tónlistinni, blæbrigðin, mynstrin, tjáningu og djúptengsl. Og Stefán fékk að læra að spila, sótti tíma hjá Esther, sem ekki aðeins kenndi honum tónfræði og fingrasetningu heldur þýsk orð. Stefán kenndi henni íslensku og þau byrjuðu að kynnast. Tónlistin færði þau saman og hann hreifst af þessari konu. Stefán fór á kaf í tónlistina og varð meistari, fékk skjótan frama en sambandið við kennarann flækist og klúðrast illa. Það var ólán.

Tónlistin tengir Stefán við heim tilfinninganna, en hún kom líka í stað þess að hann þróaði nánd í mannlegum samskiptum. Hvort er listin mikilvægari eða fólk? Stefán lærði að miðla tilfinningum en ekki að deila þeim. Dýptin sem hann náði í listinni varð sigur hans í hinu ytra en ósigur hans í nánum tensglum. Og skýringin verður ekki opinberuð hér en Ólafur Jóhann kann að flétta!

Listræn sköpun getur orðið athvarf þeirra sem njóta ekki nándar. En hvorki tónlist né nokur listsköpun leysir fjötra skortsins. Snillingarnir geta verið skínandi fátækir hið innra, skertir og vannærðir.

Tónlist lifir ekki án þagna. Þögn er oft mikilvægsti tiflinningasnagi tónleika. Dýptin í Kvöldsónötunni liggur ekki í dramatískum atburðum heldur í spennu þagnanna, í því sem ekki er sagt eða tjáð. Hvað er milli þess sem er tjáð í tónlist og þess sem er ólifað í lífinu? Kvöldsónatan er ekki aðeins saga um list, heldur um mannlega þrá eftir nánd.

Enn ein stórbókin frá Ólafi Jóhanni. Saga um tilfinningar en skrifuð eins og krimmi. 

Ragnar Helgi Ólafsson hannaði kápu og það góða forlag Bjartur-Veröld gaf út. Meðfylgjandi mynd er af bókarkápunni.