Hvernig er þögult hróp? Óp heyrist ekki frá mynd norska málarans Edvard Munch. En samt hríslast angist hrópandans inn í mann við málverkið í Munchsafninu í Osló. Hesturinn og konurnar æpa hljóðlaust í Guernica-mynd Picasso. Phan Thi Kim Phuc, nakta napalm-stúlkan æpti á hlaupum frá sprengingum Ameríkana í Víetnam. Óp hennar heyrðist aldrei í árásargnýnum en berst okkur þó enn áratugum síðar. Ópið í sálmabók Gamla testamentisins hríslaðist í Jesú Kristi þegar hann stundi: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið. mig?“ Það er frumópið.
Þetta rifjaðist upp í messunni í morgun. Kór Hallgrímskirkju söng eftir prédikun hinn magnaða sálm Sigurðar Pálssonar um hið þögla hróp (nr. 540 í sálmabók þjóðkirkjunnar). Lagið samdi Ragnheiður Gröndal.
Hróp mitt er þögult,
þú heyrir það samt,
þögnin hún ómar
í þér, í þér,
ómar eins og vatnið,
streymandi vatnið.
Þrá mín er þögul,
þú heyrir hana samt,
þráin hún ómar
í þér, í þér,
ómar eins og vatnið,
svalandi vatnið.
Bæn mín er þögul,
þú heyrir hana samt,
bænin hún ómar
í þér, í þér,
ómar eins og vatnið,
lifandi vatnið.
Við Ísak, sonur minn, gengum heim frá messu. Í sólskininu sagði ég honum frá skáldinu. Svo fórum við göngustíginn yfir Vatnsmýrina. Vatnið rann hljóðlaust í farvegum mýrinnar og hornsílin syntu í hljóðlausum straumnum. „Í þér, í þér, / ómar eins og vatnið, /lifandi vatnið.“
28. september 2025. Myndirnar tók ég á símann í Vatnsmýrinni á leið frá messu.