Spurningar sr. Flóka Kristinssonar

Margir senda spurningar til mín þessa daga. Sr. Flóki Kristinsson sendi langan lista sem ég svaraði og þar sem mörg álitaefni koma við sögu tel ég rétt að birta rununa.

I. Persónulegir hagir

a. Hvaða nám og starfsreynslu hefurðu að baki?

Svar. Ég gekk í skóla í Vesturbæ Reykjavíkur, Melaskóla, Hagaskóla og lauk stúdentsprófi frá M.R. Eftir það var ég við nám við Menighetsfakultetet og Indremissionsselskabets Bibelskole í Osló. Ég lauk Cand. theol. námi frá guðfræðideild Háskóla Íslands með ágætiseinkunn árið 1979 og doktorsprófi í guðfræði- og heimspekisögu við Vanderbilt háskóla í Tennessee árið 1989.

Ég hef verið prestur í Ásaprestakalli í Skaftafellsprófastsdæmi, Staðarfellsprestakalli í Þingeyjarprófastsdæmi, við Hallgrímskirkju í Reykjavík og Neskirkju. Ég var rektor Skálholtsskóla frá 1986 til 1991, fræðslustjóri Þjóðgarðsins á Þingvöllum frá 1992-1995 og verkefnisstjóri á Biskupsstofu frá 1995-2004.

Ég er kirkjuþingsmaður og varamaður í kirkjuráði, sit í samkirkjunefnd kirkjunnar og er formaður framtíðarnefndar kirkjuþings.

Sjá nánar um vinnuferil, félags- og trúnaðarstörf: https://www.sigurdurarni.is/madurinn/ferill-og-fraedi/

b. Hvernig eru fjölskylduhagir þínir?

Svar: Ég er hamingjumaður í einkalífi. Konan mín er Elín Sigrún Jónsdóttir, lögræðingur. Ég á fimm börn á aldrinum 6-27 ára, þrjú barna minna eru af fyrra hjónabandi þau Katla, Saga og Þórður. Börn okkar Elínar eru tvíburarnir Jón Kristján og Ísak. Þetta barnalán mitt tengir mig við ungt fólk og veitir mér innsýn í menningu þess. Við Elín höfum búið okkur heimili í vesturbæ Reykjavíkur. Ljósmyndun eru meðal áhugamála minna. En kannski er ræktunaráhuginn djúprættastur. Ég stunda skógrækt, er með stóran matjurðagarð í Reykjavík og hef á síðari árum hafið ræktun ávaxtatrjáa. Kirsuberjatrén eru unaðsleg og ávextirnir góðir.

Sjá nánar: https://www.sigurdurarni.is/madurinn/

c. Er eitthvað sem ógnar fjárhag þínum?

Svar. Nei, ég er fjárhagslega óháður. Fjármál mín eru í góðu jafnvægi og munu ekki hafa nein áhrif á þjónustu mína í þágu kirkjunnar. Þá er ég pólitískt og félagslega óháður, sem skiptir mig miklu máli hvað varðar mína kirkjulegu þjónustu.

II. Kirkjuskipanin

Núgildandi skipan gerir ráð fyrir að Kirkjuþing sé æðsta stofnun kirkjunnar og setji henni starfsreglur en Kirkjuráð fari með framkvæmdavaldið og geri jafnframt tillögur að málum sem lögð eru fyrir Kirkjuþing.

a. Hver er afstaða þín til þessarar skipunar? Villtu fá henni breytt  — og þá hvernig?

Svar: Yfirstjórn kirkjunnar er skilgreind í þjóðkirkjulögunum og starfsreglum. Af 20. gr. laganna er ljóst að kirkjuþing fer með æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar. Í 6. greininni er kveðið á um, að biskup fari með yfirstjórn þjóðkirkjunnar ásamt öðrum kirkjulegum stjórnvöldum eftir því sem nánar er mælt fyrir um. Kirkjuþing hefur ekki fjárstjórnarvald kirkjunnar, en þarf að fá það vald sem kirkjuráð hefur nú.

Prestastefna hefur rétt – og að mínu viti skyldu – til að fjalla um kenningarmál. Samþykktir hennar á því sviði eru stefnumarkandi um þann málaflokk – þ.e. um helgihald og helgisiði, sakramenti, fermingu og fleira. Biskupafundur á að fjalla sömuleiðis um kenningarmál. Biskup Íslands og kirkjuþing fara sameiginlega með yfirstjórn kirkjunnar. Biskup ber ábyrgð á málum, sem varða kenningu og aga og hefur að baki sér og nýtur ráða prestastefnu og kenningarnefndar. Að mínu viti á kirkjuþing ekki að ákveða kenningu kirkjunnar, en á hins vegar að samþykkja kenningarleg mál þegar búið er að vinna þau mál í hendur þingsins.

b. Kosningar til Kirkjuþings voru áður í tveimur kjördeildum, leikra manna og lærðra sem höfðu jafn marga fulltrúa. Nú eiga leikmenn fleiri fulltrúa á Kirkjuþingi auk þess sem starfsreglur takmarka kjörgengi presta meir en leikmanna til trúnaðarstarfa sem þingið kýs til. Hver er skoðun þín á þessu fyrirkomulagi?

Svar. Ég lít á skírn sem hina eiginlegu vígslu og að allir kristnir menn hafi í krafti hennar trúarlegu og kirkjulegu hlutverki að gegna. Mikilvægt er að kalla allt skírt fólk til þroska og ábyrgðar. Þekking og menntun presta þarf að nýtast sem best en viska fjöldans þarf líka að nýtast í þágu kirkjunnar og þjónustu hennar. Reynslan af leikmönnum í forsetastörfum kirkjuþings hefur sannfært mig um að stefnan er góð. Hæfni fólks á að ráða hverjir veljast til ábyrgðarstarfa en ekki staða. Opna ætti fyrir að prestar geti verið í forsætisnefnd.

c. Vildir þú jafna á ný hlutfall leikra og lærðra á Kirkjuþingi eða afnema kjördeildirnar og kjósa í einu lagi til þingsins?

Svar. Að gefnu tilefni reynslunnar af biskupskjöri og kjöri til kirkjuþings vil ég ekki breyta kosningareglum hvað varðar kjördeildir. Ég hef ekki sannfærst um reynslu og rök sem benda til annarar áttar. Ég er ekki sannfærður um gæði einnar kjördeildar. Ég aðhyllist tvær kjördeildir, annars vegar vígðra og hins vegar leikmanna. En hvers konar ójöfnuður er ótækur. Atkvæðafjöldi er allt að fimmfaldur á milli þeirra sem flest og fæst hafa atkvæði til setu á kirkjuþingi. Það þarf að leiðrétta. En margt annað í starfsreglum um kjör þarf að endurskoða, t.d. varðandi biskupskjör.

d. Nú eru uppi hugmyndir um að biskup víki úr forsæti Kirkjuráðs. Hver er þín skoðun á því og hvaða fyrirkomulag viltu sjá á skipan Kirkjuráðs?

Svar. Minni stjórnsýslubiskup – meiri kirkjubiskup. Að mínu viti á biskup ekki að vera í forsæti í Kirkjuráði, en biskup á að sitja alla fundi kirkjuráðs. Hann á skilyrðislaust að hafa tillögurétt og málfrelsi. Ég er fylgjandi, að biskup hafi atkvæðisrétt. Ég er þeirrar skoðunar einnig, að vígslubiskupar eigi að sitja fundi ráðsins með sama rétt og biskup Íslands.

Skipan og stjórnun í sóknum er að sóknarprestur og prestar sitja fundi sóknarnefnda og hafa áhrif og málfrelsi en ekki atkvæðisrétt. Sú skipan er ekki hnökralaus, en hefur gefist vel og getur sem hægast skilgreint störf og skipulag kirkjuráðs. Biskupar eiga að hafa góða innsýn í rekstur og aðalmál kirkjuráðs en biskupar eiga ekki að vera á kafi í rekstri. Hlutverk biskups er að vera andlegur leiðtogi kirkjunnar, sem er mun mikilvægara hlutverk en að sinna rekstri hennar. En ef skipan kirkjuráðs verður breytt í framtíðinni þarf að skilgreina nákvæmlega mörk og tengsl biskups, biskupa og kirkjuráðs.

e. Hvernig telur þú að eigi að tryggja fjárhagslegan rekstur sóknanna og Þjóðkirkjunnar í framtíðinni?

Svar. Biskup og forystufólk kirkjunnar verða að móta stefnu strax í haust hvernig eigi að fara að svo ríkið skili réttum og öllum félagsgjöldum kirkjunnar. Ríki hefur ekki sinnt sáttmálshlutverki sínu síðustu árin og hefur ekki skilað stórum hluta trúfélagsgjalda/sóknargjalda. Breiðfylking kirkjunnar þarf að sækja fram til að stjórnvöld og stjórnmálamenn skilji í hverju brotið liggur, til hvers það leiðir og hvernig á að bæta. Staðan er víða orðin mjög alvarleg og ekki verður lengur við unað ráðslag hins opinbera. Þá verður ekki heldur við unað þann rugling stjórnvalda að ætla að veita félagsgjöldum trúfélaga til lífsskoðunarfélaga. Ríkið hefur ekki þann rétt og þjóðkirkjan á að hafa gott samstarf með öllum trúfélögum að leiðrétta villuhugsun af þessu tagi. Áfram á að skoða sparnaðarleiðir og skapa nýja fjárstefnu kirkjunnar – ekki aðeins til skemmtri tíma heldur lengri einnig. Fjárvana söfnuðir þurfa að njóta styrkrar fjárráðgjafar frá Biskupsstofu, sem þarf að vera öflug þjónustumiðstöð safnaða og kirkjulífs í landinu.

III. Biskupsþjónustan

a. Hvert er fagnaðarerindi kirkjunnar og hvernig á að boða það í samtíðinni? Hvert er hlutverk biskups gagnvart því?

Svar. Fagnaðarerindið er Guðskoman í heiminn, Jesús Kristur. Postulega trúarjátningin túlkar ágætlega mína afstöðu og ég ver bæði þá játningu sem og aðrar játningar kirkjunnar. Blæbrigðamunur er á áherslum prédikara. Mér er páskaguðfræðin í blóð borin og merg runnin og hef löngun til að túlka hana sem víðast og oftast. Og sú guðfræði varðar, að Guð kallar fram líf úr dauða, að dauðinn dó og lífið lifir vegna þess að Jesús Kristur reis upp og færði heiminum líf og merkingu. Hlutverk biskups er að vaka yfir boðun kirkjunnar, boða trú, benda til Jesú Krists, leggja áherslu á fagnaðarerindið í sem flestum víddum. Biskupinn á að styðja orðsins þjóna til kröftugrar boðunar gleðifréttarinnar mestu.

Í prédikunarhefð okkar kirkju hefur föstuguðfræðin stundum verið meira áberandi allt árið en efni standa til. Tengd henni er syndaguðfræðin sem er nauðsynleg. En ég vil hins vegar að menn fari dýpra í syndaskilninginn en við höfum gert í aðdraganda Hrunsins. Mæli með að við munum eftir hinum eiginlegu lúthersku áherslum um lögmál og fagnaðarerindi og skiljum þær áherslur róttækt og kröftuglega.

b. Nú hafa margir sagt sig úr þjóðkirkjunni á undanförnum árum af ýmsum ástæðum. Á hún að nálgast þá sem hafa sagt sig úr kirkjunni — og hvernig?

Svar. Eitt af mikilvægum hlutverkum biskups er að stíga inn í almannarýmið og þjóna þjóðinni með því að tala með visku og trúarlegu viti inn í aðstæður líðandi stundar. Þannig leggur biskupinn sitt lóð á vogarskálarnar til að nálgast þau sem eru utan kirkju. Þjóðkirkjan sem heild og söfnuðirnir hafa vöktunarskyldu gagnvart þróun kirkjulífsins. Biskupsstofa ætti að draga saman reynslu presta og sóknarnefnda og beita sér fyrir endurkomuátaki.

c. Hver er afstaða þín til hlutverkaskiptingar Biskups Íslands og vígslubiskupanna?

Svar. Ég styð að Ísland verði eitt biskupsdæmi áfram með einum biskupi Íslands. Vígslubiskuparnir eru mikilvæg verkfæri í verkefnum biskupsins, sem eru tilsjón, tal, vísitasíur og vígslur. Skýra þarf verkaskiptinguna með starfsreglum og hafa dreifræði í heiðri.

d. Hvert á að vera hlutverk prestastefnunnar? Á að efla hana — og þá hvernig?

Svar. Sem vettvangur kennilýðsins er prestastefna kirkjuþing kenningarinnar. Biskup sækir þangað visku og þiggur tilsjón prestanna sjálfur. Efla þarf prestastefnu sem samstarfs- og samtalsvettvang þar sem stóru málin í samfélaginu eru rædd í ljósi erindis kirkjunnar. Prestastefna gegnir lykilhlutverki í símenntun og aðhlynningu prestanna. Aukin áhersla á þann málaflokk skilar sér í sterkari prestastefnu.

Til viðbótar prestastefnu legg ég til að efnt verði árlega eða reglulega til landsfunda sóknarnefnda. Slíkir fundir yrðu til fræðslu og hvatningar sóknarnefndarfólks. Slíkir fundir gætu hugsanlega tekið við hlutverkum leikmannastefnu í framtíðinni.

e. Hvert á að vera hlutverk biskupafundar? Á að efla hann — og þá hvernig?

Svar. Biskupafund þarf að skoða í samhengi verkaskiptingar og hlutverka vígslubiskupanna eins og þau eru skilgreind í starfsreglum sem kirkjuþing setur. Biskupafundur er fyrst og fremst samstarfsvettvangur fyrir verkefni biskupsþjónustunnar að veita tilsjón kirkjunni – ekki síst í góðum siðum. Sem slíkur er biskupafundurinn stuðningur og aðhald fyrir biskup Íslands. Ég álít að færa eigi niðurfellingar- og sameiningarmál sókna og prestakalla frá biskpafundi til kirkjuþings.

f. Kenningin og helgisiðirnir eru á ábyrgð biskups og prestastefnu. Að núverandi skipan er Kirkjuþing þó óbundið af samþykktum biskupafundar og prestastefnu samkvæmt starfsreglum. Þykir þér þetta eðlileg skipan?

Svar. Það er í góðu samræmi við lútherskan kirkjuskilning að samkoma leikra og lærðra beri sameiginlega ábyrgð á andlegum málum. Boðun er ekki einkamál prestanna og viðhald húsa er ekki eina köllun leikmanna í kirkjunni. Sjálfstæði kirkjuþings er því skref í rétta átt í þessum málum (sjá einnig svar hér að ofan). Kirkjuþing á að þiggja hina faglegu ráðgjöf prestastefnu í kenningarmálum og að breiðfylking geti þannig myndast í þessum mikilvæga málaflokki.

g. Ætti prestastefna að skipa fastanefndir um kenningu og helgisiði sem starfa í hennar umboði?

Svar. Núverandi fyrirkomulag gerir ráð fyrir að biskup skipi ráðgefandi nefndir um kenninguna og helgisiðina. Prestastefna tilnefnir fulltrúa sinn í kenningarnefnd og vel fer á því að hún fái einnig fulltrúa í helgisiðanefnd.

h. Á Kirkjuþing að geta breytt samþykktum prestastefnu um kenninguna og helgisiðina?

Svar. Nei – kenningin á að vera aðallega á ábyrgð kennilýðsins. Mikilvægt er að kenningarleg mál sé vel ígrunduð og allir helstu aðilar kirkjustjórnar fái rætt slík mál áður en þau eru endanlega ákvörðuð á Kirkjuþingi. Að mínu viti er Kirkjuþing í slíkum málum ekki mótunaraðili heldur endanlegur samþykktaraðili.

i. Er Kirkjuþingið bundið af niðurstöðu prestastefnu eða getur það breytt henni eða jafnvel hafnað henni?

Svar. Kirkjuþing og prestastefna starfa á sama grunni, sem er trú og kenning þjóðkirkjunnar. Mikilvægt er að greina á milli hlutverka þessara stofnanna kirkjunnar. Kirkjuþing er hinn lýðræðislegi kjörni vettvangur, sem fer með æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar en prestastefna er samkoma hinna vígðu þjóna kirkjunnar og vettvangur faglegrar uppbyggingar og samtals. Sem slík nærir og auðgar prestastefnan aðrar greinar á hinu kirkjulega tré.

j. Hvernig hyggst þú rækta og rækja samband og samfélag við presta Þjóðkirkjunnar um allt land?

Svar. Það er biskupi og kennilýðnum lífsnauðsynlegt að gott samband sé ræktað. Til að halda því sambandi lifandi þarf samtal og samveru. Biskupsstofa er þjónustumiðstöð kirkjunnar og öll starfsemi hennar á að miða við að þjónusta presta og söfnuði. Þannig getur hún nýst í því að viðhalda góðu sambandi biskups og presta. Með því að létta stjórnsýsluábyrgð af biskupi Íslands, skapast raunverulegar forsendur fyrir gagnkvæmri tilsjón og nærandi samfélagi og vináttu. Biskupinn þarf að einsetja sér nánd, athygli, að heyra og sjá. Tilsjón er ekki aðeins í formlegum málum heldur varðar líka hin persónulegu atriði, líðan, fjölskyldumál, gleði og sorgir. Biskupinn þarf að vera í góðum samskiptum við alla þjónandi presta og hafa reglulega samband við þá og tala við þá. Vísitasíur og kirkjulegar athafnir þjóna þessu ræktunarstarfi einnig.

k. Hvernig ætlar þú að haga vísitasíum og eiga vígslubiskupar að sinna þeim einnig?

Svar. Vísitasíur eru eitt af höfuðverkefnum biskups. Vígslubiskupar eiga einnig að sinna þeim í því skyni að auka og bæta hina biskupslegu vísitasíuþjónustu. Biskupafundur og starfsreglur nýtast til að skipuleggja vísitasíur, en tilhögun þeirra þarf stöðugt að vera í mótun og mæta þörfum safnaðanna. Prófastsvísitasíur eru líka mikilvægur hluti af tilsjón kirkjunnar. Ég hef lagt til að biskup dveljist reglulega í landsfjórðungum á hverju ári til að eiga fundi og tala við fólk. Slíkir fundir mega líka vera óformlegir til að hægt sé að ná samtali og flæði hugmynda og upplýsinga. Fólk um allt land kallar eftir meiri nánd, meira samtali, að yfirmenn kirkjunnar tengist með beinum og persónulegum hætti. Því þarf að endurskoða og endurskipuleggja vísitasíur prófasta, vígslubiskupa og biskups.

IV. Ríki og kirkja – sambandið við þjóðina

a. Hvernig sérð þú fyrir þér æskilegt samband — eða sambandsleysi —  ríkis og kirkju?

Svar. Samband ríki og kirkju á að hvíla á sambandinu milli kirkju og þjóðar. Það samband þarf að batna og traustið þarf að vaxa. Staða og líf kirkjunnar er ekki háð ríkinu, heldur tengslunum við Guð og tengslum við fólkið í landinu. En öflug kirkja nýtur betri skilnings frá ríkisvaldinu en kirkja í vörn. Tengsl ríkis og kirkju eru að minnka, en ríkið hefur staðið sig slælega í að virða samning eða sáttmála ríkis og kirkju. Kirkjan þarf að sækja á þeim vettvangi og fá ríkið til að standa við sinn hlut. En kirkjan þarf líka að skerpa prófíl sinn, starf sitt, efla starfsfólk kirkjunnar og stöðugt bæta ráðsmennsku sína gagnvart Guði og mönnum. Ég lít svo á, að fjölbreytni í trúarefnum muni aukast og kirkjan verði að breyta starfsháttum í því ljósi. Kirkjan á að einbeita sér að vera góð kirkja. Þá munu tengslin við þjóðina vera góð. Við þær aðstæður má einnig vænta að samband við ríkið verði gott.

b. Telur þú að það eigi að standa í stjórnarskrá að kristin trú og siður séu eitt af grunngildum íslensks samfélags eða á íslenska ríkið að vera grundvallað á veraldlegum, húmanískum eða öðrum gildum?

Svar. Já. Ég tel að það eigi að vera grein um grundvallargildi í stjórnarskrá og að í þeirri grein eigi að nefna kristni. Nýja gildaákvæði norsku stjórnarskrárinnar er áhugverð fyrirmynd, sem mér hugnast og tel þarft að ræða.

c. Finnst þér að það eigi að binda í stjórnarskrá að Hin evangelíska-Lútherska kirkja skuli vera þjóðkirkja landsins?

Svar. Já, en ég held ekki að það hafi úrslitaáhrif á líf og lífsmöguleika þjóðkirkjunnar hvort hún er varin í stjórnarskrá, heldur eru mörg önnur atriði sem skipta líka máli, svo sem trúmálalöggjöf, virðing fyrir samningum sem ríki og kirkja hafa gert, þjóðkirkjulöggjöf og almenn þróun íslensks samfélags og menningar.

d. Telur þú að Þjóðkirkjan eigi að njóta forréttinda umfram önnur trúfélög í landinu?

Svar.  Nei.

e. Kirkjan hefur af ýmsum ástæðum hlotið harða gagnrýni í fjölmiðlum og oftar birst þjóðinni í vörn fremur en í sókn. Hvernig hyggst þú bæta ímynd kirkjunnar og umræðu um hana á opinberum vettvangi ef þú verður kjörinn biskup Íslands?

Svar:  Öflugt og gleðilegt kirkjulíf er besta tjáning kirkjunnar og hefur áhrif á viðhorf til hennar. Gott líf vekur traust. Innra græðarastarf kirkjunnar skilar góðum ávöxtum út í frá. Ímynd kirkjunnar er ekki annað en líf hennar. Ég hef takmarkaða trú á ímyndarvinnu, sem ekki sprettur úr grasrót kirkjunnar. En hins vegar er opinber þáttaka kirkjufólks mikilvæg. Ég mun hvetja kirkjufólk til að taka þátt í orðræðu samfélagsins um trú og kirkju. Mannauður kirkjunnar er mjög mikill. Því fleiri sem taka þátt í skrifum, þáttum, veftjáningu og eru virkir í samtali því betra. Biskup á að taka ríkulegan þátt einnig, taka þátt í ráðstefnum, skrifa mikið, beita sér í fjölmiðlum, vera virkur og hvetja presta og kirkjufólk til þátttöku. Vegna þess hve stórt og fjölbreytilegt samfélag þjóðkirkjan er á ekki að reyna að þrengja að skoðunum fólks, heldur hvetja til faglegra átaka, fjölbreytilegrar rökræðu og frjós kirkjuvits.

f. Iðulega heyrist sú fullyrðing að kirkjan skilji ekki samtímann og stígi ekki í takt við samfélagið. Hvað finnst þér um slíka staðhæfingu?

Svar: Kirkjan þarf að lifa af  B, H, og í samræmi við S. Það merkir að kristinn maður og kirkjan þurfa að lifa í góðum tengslum við Biblíuna (B) og leyfa lindum hennar að næra trú og kirkju. Ennfremur á kirkjan að lifa í góðum tengslum við hefð (H) sína því í henni er viska, mikilvægt innsæi og reynsla fólks og kirkju, sem er nútímafólki mikilvægt nesti. En kirkjan á öllum öldum glímir við samtíð sína og þarfir hennar. Trúmenn, prestar kirkjunnar og kirkjan hafa skyldum að gegna gagnvart samtíðargildum og samtíðarspurningum. Erindi Guðs varðar ekki aðeins fortíð heldur líka nútíð og framtíð. Góð guðfræði, öflugt kirkjulíf og ábyrg trú lifir í skurðpunkti Biblíu, hefðar og samtíma.

V. Embætti presta og  prófasta

a. Hver er skoðun þín á „hinu heilaga prests- og predikunarembætti“? Ertu sáttur við núverandi umbúnað embættisins?

Svar. Hið heilaga prests- og prédikunarembætti er stofnað til að boða orðið og þjónusta sakramentin. Til að geta sinnt þessum skyldum þarf bestu hugsanlegu menntun, fyrst og fremst á sviði guðfræði, en einnig þeim sviðum sem styrkja prestinn sem leiðtoga í lifandi kirkju. Hér er símenntun presta lykilatriði og nauðsynlegt að koma símenntuninni í fastan farveg og hvetja starfsfólk kirkjunnar til náms. Gefa þarf starfsgleði og vellíðan kirkjunnar þjóna meiri gaum með því að huga að álagsþáttum. Kirkjan þarf að eiga fleiri úrræði til að mæta áföllum og útbruna starfsfólks síns. Sem biskup vil ég beita mér fyrir því að finna þau úrræði og nýta í þágu kirkjuþjónanna. Ég tel mikilvægt, að allir prestar (líka prófastar og biskupar) njóti tvenns konar handleiðslu, faghandleiðslu og trúarlegrar handleiðslu.

b. Er atvinnuöryggi presta nógu tryggt samkvæmt núverandi starfsreglum?

Svar. Alemennt talað já, en kirkjan þarf að einsetja sér að vera afburða vinnuveitandi bæði prestum, djáknum og öllum starfsmönnum. Biskupsstofa þarf að sinna vinnuveitendahlutverki sínu mað faglegum metnaði og ákveðni.

c. Á að skylda presta til búsetu í prestaköllum sínum?

Svar. Nánd og samfélag styrkja þjónustu prestsins. Nærtækt er að stuðla að þessu með búsetu nálægt sóknarfólki. Búa þarf þannig um hnútana að allir prestar sjá hag sínum best borgið með því að búa í prestaköllum sínum og veita þannig trausta og örugga þjónustu. Þar sem prestssetur eru á að skylda til búsetu, en ekki hægt að skylda presta sem ekki njóta húsnæðis.

d. Á prestum að vera skylt að búa á prestssetrum?

Svar. Kirkjunni á að bjóða prestum í strjálbýli upp á sanngjarnan og öruggan kost til að búa sér og fjölskyldum sínum heimili. Það skiptir mestu máli – ef þetta er uppfyllt – er prestum akkur í að búa á þeim prestssetrum.

e. Finnst þér ástæða til þess að halda í prófastsembættin? Viltu breyta þeim eða leggja þau niður?

Svar. Prófastsdæmin eru kirkjuleg stjórnsýsluumdæmi og geta nýst miklu betur en þau gera núna. Þróun síðustu ára, sem hefur skilað færri en gríðarstórum prófastsdæmum, hefur ekki reynst heillaþróun. Ég hef skipt um skoðun um gildi samsteypu prófastsdæmanna og tel að rétt sé að meta árangurinn. Prófastsdæmin og prófastsstöðurnar eru vegna starfs kirkjunnar og ef heimafólk telur galla vera fleiri en ávinning á að endurskoða, skipta prófastsdæmum – í sumum tilvikum til fyrra horfs – og gera þær breytingar sem styrkja kirkjustarfið, nýta mannafla og fé sem best og auka starfsgleði. Ég styð styrkingu prófastsembættanna sem ábyrgra millistjórnenda í anda dreifræðis og skilvirkni. Og ég tel að styrkja eigi bæði vígslubiskupsembættin og prófastsembættin. Hluti þess er að skilgreina hlutverk og samspil með skýrleik.

f. Munt þú beita þér fyrir breytingum á fyrirkomulagi varðandi greiðslur fyrir aukaverk presta?

Svar. Aukaverkagreiðslur presta eru neikvætt áreiti í samskiptum kirkju og þjóðar. Tilhögun þeirra þarf að hugsa upp á nýtt, bæði í samvinnu við þar til bær yfirvöld sem setja lög um kjör presta og í samhengi okkar eigin safnaðarguðfræði. Tekjur presta mega ekki minnka en áfram skal leitað leiða til að fella aukaverkagreiðslur niður.

g. Munt þú beita þér fyrir breytingum á fyrirkomulagi varðandi hlunnindatekjur af prestsetrum?

Svar. Eignir kirkjunnar eru til vegna kirkjunnar og erindis hennar, en ekki aðeins í þágu einstaklinga. Það er stefnan og ég er henni hlynntur. En þegar menn leggja af mörkum vinnu vegna hlunnindavörslu og viðhalds er eðlilegt og mikilvægt að ráðsmennirnir hljóti góða og eðlilega umbun starfa sinna. Gæðin eru vegna kristninnar og kirkjunnar en verður er verkamaðurinn launa sinna.

h. Vilt þú að prestar Þjóðkirkjunnar séu áfram embættismenn í skilningi laga um opinbera starfsmenn? Ef ekki, hver á þá staða presta að vera?

Svar. Já, áfram embættismenn hins opinbera.

i. Hvaða skoðun hefur þú á sókna- og prestakallaskipaninni?

Svar. Breytum af skynsemi, en ekki breytinganna vegna. Skipulag kirkjunnar á að þjóna erindi hennar og þess vegna eigum við að breyta því sem ekki gengur upp. Lærum af skipulagsrannsóknum samtímans, um gildi nærsamfélagsins, starfsánægju, dreifræði og sjálfbærni. Sókna- og prestakallaskipan þarf að ganga upp í því ljósi. Almennt er ég hlynntur að stefna að fjölprestaköllum til að nýta betur sérhæfni og menntun presta og til að gefa þeim tækifæri til að starfa í faghópi sínum. Prestar hafa verið að auka samvinnu og mér heyrist og skilst að prestar vilji fremur vinna í teymi en sem stakstæðir sóknarprestar. Hver stefnan verður á að vera ávöxtur samtals ábyrgðarfólks kirkjunnar.

VI. Spurningar varðandi öldrunarmál

a. Ljóst er að öldruðum mun fjölga á komandi árum. Aldraðir búa yfir mikilli reynslu á ýmsum sviðum. Hefur þú hugmyndir um að nýta megi þekkingu þessa hóps í þágu kirkjunnar?

Svar: Ég hef fylgst með aukningu í starfi aldraðra í kirkjunni, ekki síst sjálfboðaliðastarfi. Þetta er góð þróun og kirkjan á að fagna og styðja við hana. En það er engin einföld leið að kalla fólk til starfa og er langtímamál og uppbygingarmál. Ég vil gjarnan líka tengja starf eldri borgara við æskulýðsmál og átak kirkjunnar í þágu barna.

b. Í sumum söfnuðum á höfuðborgarsvæðinu er öflug starfsemi fyrir aldraða en í öðrum er ekkert öldrunarstarf í boði. Hvernig sérð þú fyrir þér að kirkjan geti samræmt þjónustu sína við aldraða, þannig að allir geti vænst sömu þjónustu?

Svar: Sóknasamstarf þarf að aukast í þessum efnum sem og hvataverkefni á vegum prófstsdæma.

c. Öldruðum fjölgar á Íslandi og þeim sem búa einir heima við félagslega einangrun. Margir þeirra þurfa aðstoð við að komast til kirkju til þess að að rækta trú sína og taka þátt í kirkjulegu starfi. Hvað sérð þú fyrir þér að kirkjan geti gert fyrir þenna stóra hóp trúaðra Íslendinga sem eru félagslega einangraðir heima?

Svar: Kærleiksþjónusta kirkjunnar þarf að styrkjast. Heimsóknarþjónusta þar með. En vegna fjáreklu þarf að finna nýjar leiðir og sjálfboðin þjónusta er lykill við aðstæður okkar nú. Víða er akstursþjónusta skipulögð í söfnuðum og þá starfshætti þarf að iðka sem víðast. Vekja þarf athygli akani og virkra eldri borgara á að nýta ferðir og skipuleggja akstur og heimsóknir.

VII. Annað

a. Ertu hlyntur hjúskap fólks af sama kyni? Ef svo er, á að þvinga presta til þess að framkvæma hjónavígslur af því tagi eða á að virða samviskufrelsi þeirra?

Svar. Ég styð ein hjúskaparlög. Þjóðkirkjan hefur markað stefnuna og ég fylgi henni. Kirkjan hefur einnig stefnu varðandi samviskufrelsi presta og ég er sömuleiðis fylgjandi henni og virði hana.

b. Eiga prestar að vera vígslumenn hjúskapar eða á hjónavígsla að fara fram hjá veraldlegum embættismanni?

Svar. Það er mikilvægur snertiflötur kirkju og þjóðar að prestar verði áfram handhafar vígsluvaldsins eins og verið hefur. Þess vegna styð ég að prestar séu vígslumenn og tel það skyldu þjóðkirkju að veita þá þjónustu á meðan meiri hluta þjóðarinnar óskar.

c. Hver er afstaða þín til þess að múslimum verði leyft að reisa moskur á Íslandi?

Svar. Ég hef skrifað grein um þetta mál og segi þar: “Viðurkennum guðshúsaþarfir múslima og annarar trúar fólks. En höfnum vitleysum, okkar eigin og annarra. Iðkum kærleika með skynsemi. Þjóðkirkjan á að gæta réttar innflytjenda, líka í trúarefnum. Leggjum okkar lóð á vogarskálar og gerum það í góðri trú, með umhyggju og góðu viti.“ Sjá: http://tru.is/pistlar/2012/2/moskumotm%C3%A6lin