Spurningar Morgunblaðsins

1. Hvers vegna býður þú þig fram til biskupsþjónustu?

Ég býð mig fram vegna þess að margt kirkjunnar fólk hefur hvatt mig til að gefa kost á mér til þessa embættis. Rök þeirra eru, að ég hafi reynslu og getu til að vera í foystusveit kirkjunnar á breytingaskeiði. Ég hef helgað líf mitt Jesú Kristi og vil þjóna kirkju hans og ekki bregðast kalli.

Ég lauk doktorsprófi frá Vanderbilt-háskóla árið 1989 og skrifaði doktorsritgerð um íslenska trúarhefð og trúarmenningu. Ég hef verið prestur í söfnuðum á landsbyggðinni og í höfuðborginni, hef leitt þróunar- og fræðslustarf þjóðkirkjunnar í Skálholti og á Biskupsstofu og hef síðustu ár verið kirkjuþingsmaður og er varamaður í kirkjuráði. Ég tel, að störf mín og menntun séu góður undirbúningur fyrir starf biskups, sem þarf að fylgja stórum og mikilvægum verkefnum eftir og í góðu samstarfi við kirkjuþing, presta, djákna og leikmenn um allt land.

2. Rætt er um biskupsþjónustu en hverjum eða hverju á biskup að þjóna fyrst og fremst?

Biskup þjónar fyrst og fremst Guði, en líka þar með mönnum, kirkju og söfnuðum landsins. Meðal hefðbundinna hlutverka biskups er að sinna tilsjón með söfnuðunum. Hún felst í því, að gæta að í kirkjum landsins sé boðuð trú til lífs og góðir kirkjusiðir iðkaðir. Tilsjónin hefur bæði hagnýta og fræðilega vídd. Til að geta sinnt þessu hlutverki þarf biskup að standa föstum fótum í guðfræði þjóðkirkjunnar og hafa náð þroska í trúarlífi og persónu.

Ég hef sett þrjú mál á oddinn, sem mín fyrstu verkefni á biskupsstóli og þau eru dæmi um störf biskups: 1) Að kalla barnafræðara kirkjunnar til átaks í þágu barna og barnafjölskyldna. Börnin eru dýrmæti og framtíð þjóðarinnar og kirkjunnar. 2) Að hefja virkt samtal og samfylgd með prestum, djáknum og sjálfboðaliðum í þjóðkirkjunni. Í starfsfólki kirkjunnar er mannauður. Biskupinn á að fylgjast með, uppörva og leiðbeina, samgleðjast þegar vel gengur og benda á það, sem betur má fara. Við þurfum að breyta sinnuleysi og kulda í athygli og umhyggju því glatt fólk þjónar vel. 3) Að berjast fyrir leiðréttingu á trúfélagsgjöldum, en skerðing á þeim hefur þrengt mjög að kirkjustarfi um allt land.

Það er mikilvægara en nokkru sinni fyrr, að kirkjan sé virk og lífgefandi í þeim erfiðleikum, sem eru þaulsetnir í íslensku samfélagi. Boðskapur hennar og starf á að koma til móts við þarfir fólks. Öflugt starf í söfnuðum þjóðkirkjunnar um allt land mun bæta lífshag þjóðarinnar.

3. Hvaða gildi hefur Biblían fyrir kirkju og kristni nútímans? Er hún heilög ritning? Eiga orð hennar að ráða því hvað er leyft eða bannað og hvernig kirkjan kennir í dag?

Biblían skiptir kirkjuna höfuðmáli. Það er sístætt verkefni þjóðkirkjunnar, að miðla kenningunni og boðskap Biblíunnar inn í samfélagið. Nú er ekki síður brýnt en áður, að leita til þeirrar leiðsagnar, sem við finnum í Biblíunni og byggja á siðferðilegum gildum og áherslum hennar um náungakærleik og ráðsmennsku.

Ein leið til að lesa Biblíuna er bókstafshyggja. Hún hefur lítinn áhuga á túlkun og táknrænum boðskap og leitar fremur að óskeikulli leiðsögn. Bókstafstrú hefur lítið umburðarlyndi gagnvart því, að samfélag og gildi hafi breyst og sér í siðfræði fornaldar boð um líferni og skyldur kristins manns í nútíma. Lúthersk kirkja fer aðra leið og hefur lagt áherslu á, að Biblían skuli lesin út frá persónu og lausnarverki Jesú Krists og boðskapur hennar túlkaður í ljósi reynslu manneskjunnar. Þannig þjónar Guðs orð velferð og frelsi manneskjunnar og líka hvernig við umgöngumst hvert annað og förum með gæði heims, líka náttúruna. Við eigum að taka Biblíuna alvarlega en ekki bókstaflega. Túlkun Biblíunnar í samtíma varðar, að orð hennar veki líf og verndi. Biblían er ekki handbók um siðferði, heldur farvegur lifandi orðs Guðs.

4. Hvernig ætlar þú að beita þér fyrir því að endurreisa orðspor kirkjunnar?

Kirkjan er kölluð til að vera salt og ljós í heiminum. Í því felst m.a. að lýsa upp skúmaskot sálar og sársauka, sem kreppa okkur innvortis og gera okkur hörð og ónæm fyrir þjáningu annarra. Í boðun sinni á kirkjan að skerpa á þeim viðmiðum og gildum, sem gera okkur að Íslendingum og tala kjark og von í þjóðina á tímum þegar bölmóður og neikvæðni fær mikið rými. Kristin trú laðar fólk til lífs í frelsi og ást. Þess vegna lætur kirkjan sig varða hvernig samfélag við byggjum og hvernig manneskjunni reiðir af.

Ef þjóðkirkjunni tekst að miðla þessu og vera sjálf trú mun orðspor hennar batna. Nýleg könnun á trausti til hennar leiddi í ljós, að Íslendingar treysta prestum og söfnuðum betur en þjóðkirkjustofnuninni. Sama könnun sýndi, að fólk sem sækir þjónustu kirkjunnar treystir henni. Það eru góðar fréttir fyrir kirkjuna því það sýnir, að þjónustan sem veitt er í söfnuðunum um allt land er góð. Við þurfum að lyfta þessu starfi betur upp og vekja á því athygli þannig að fleiri fái notið starfsins. Það mun leiða til aukins trausts. Traust er forsenda þess, að fólk vilji vera í þjóðkirkjunni og þau, sem hafa orðið fyrir vonbrigðum með kirkjuna vilji ná sáttum við hana að nýju.

Stjórnsýsla kirkjunnar hefur ekki verið eins gegnsæ og skilvirk og við vildum. Úr því þarf að bæta. Ég tel, að Biskupsstofa eigi að vera þjónustumiðstöð kirkjunnar, sem gagnast öllum söfnuðum þjóðkirkjunnar. Kirkjan þarf að taka til í eigin skipulagi og hreinsa burtu það, sem þjónar ekki tilgangi hennar og bæta við því, sem styrkir hana í því að boða fagnaðarerindið um Jesú Krist. Í skipulagsmálum kirkjunnar á að hlusta grannt á heimafólkið og það á að ráða sínum málum að mestu. Dreifræðið er affarasælt.

5. Telur þú að með nýjum biskupi megi fá aftur til liðs við þjóðkirkjuna þá sem hafa yfirgefið hana á undanförnum árum?

Eitt af mikilvægum hlutverkum biskups er að stíga inn í almannarýmið og þjóna þjóðinni með því að tala með visku trúarinnar inn í aðstæður líðandi stundar. Þannig talar biskupinn við þau, sem eru utan kirkju og leggur sitt lóð á vogarskálar.

Ég tel brýnt að nálgast þau, sem hafa sagt sig úr kirkjunni á undanförnum árum. Kirkjan er eins og fjölskylda og það er alltaf sárt þegar einhver hverfur á brott, kannski í sársauka og ósætti. Við viljum fá tækifæri til að mæta þessu fólki þannig að það finni sig velkomið í kirkjuna aftur og geti leitað til hennar um þjónustu í dagsins önn og á gleði- og sorgarstundum í lífinu.

6. Sífellt stærri hluti íbúa landsins ýmist afneitar allri trú eða aðhyllist önnur trúarbrögð en kristni. Er þörf á auknu kristniboði á Íslandi? Ætlar þú að beita þér fyrir því verðir þú kosinn biskup?

Allt líf kirkjunnar er kristniboð. Í öllu sem kirkjan tekur sér fyrir hendur lyftir hún upp boðskapnum um líf og starf Jesú Krists, sem þjónaði fólki og stóð með því í aðstæðum lífsins. Öflugasta kristniboðið er fólgið í góðu kirkjustarfi, í nærsamfélaginu og á torgi mannlífsins. Kirkjan nýtur mikils mannauðs í starfsfólki og sjálfboðaliðum um allt land í starfi sínu.

Það má líka spyrja í þessu samhengi hvernig kirkjan eigi að bregðast við fjölmenningu og fjölbreytileika samfélagsins. Mitt svar er þetta: Kirkjan á að fagna fjölbreytileikanum. Hún á að opna, en ekki loka á straumana sem móta samfélagið og menninguna. Kirkjan er kölluð til að þjóna heiminum og gerir ekki upp á milli þeirra sem tilheyra henni og annarra. Í því sem öðru eigum við að fylgja fordæmi Jesú Krists, sem elskaði fólk og þjónaði algerlega.

7. Hver er afstaða þín til hjónavígslu samkynhneigðra?

Ég er fylgjandi henni og vann að breytingu á afstöðu þjóðkirkjunnar til einna hjúskaparlaga. Ég fagna því, að samkynhneigðir geti gengið í hjónaband fyrir augliti Guðs og manna. Við erum lánsöm, að á Íslandi ríkir samstaða um, að mismuna ekki á grundvelli kynhneigðar og að hér eru í gildi ein hjúskaparlög. Þjóðkirkjan var samstíga löggjafanum þegar lögin tóku gildi 27. júní 2010 og tók sama dag í notkun nýtt hjónavígsluform fyrir alla, sem gifta sig í kirkjunni.

Kirkjan lítur hjónaband samkynhneigðra sömu augum og hjónaband karls og konu. Sömu áskoranir og gleðiefni mæta þeim og bæn kirkjunnar yfir hjónum lýtur að því sama hvort sem um er að ræða tvo karla, tvær konur eða karl og konu. Bænin er, að hjónunum auðnist að elska hvort annað, treysta og vera trú á lífsgöngunni.

8. Hvert finnst þér að hlutverk leikmanna og kirkjuþings eigi að vera?

Kirkjuþing hefur æðsta vald í málefnum kirkjunnar og þar starfa prestar og leikmenn í góðri samvinnu að því að bæta regluverk kirkjunnar og marka henni stefnu. Meirihluti þingmanna eru leikmenn og forseti kirkjuþings kemur úr þeirra röðum. Við þurfum að styrkja kirkjuþing að mínu mati og festa í sessi menningu samstarfs og gagnsæis.

Frumvarp til nýrra þjóðkirkjulaga markar stefnu í þá átt og að styrkja leikmenn enn frekar sem forystufólk í þjóðkirkjunni. Ég er fylgjandi þeirri stefnu og tel aukna þátttöku og ábyrgð leikmanna forsendu þess að kirkjan dafni á 21. öldinni.

Það er viska lútherskrar kirkju, að öll þau sem eru skírð, séu fullgildir meðlimir í kirkjunni. Þessi hugsun var hvati þróunar íslensks lýðræðis og lýðveldis. Lúthersk kirkja á ekki að vera biskupakirkja eða prestakirkja. Það er mikilvægt að hafa þetta í huga þegar við metum skipulag kirkjunnar. Aðalatriðið er auðvitað að skipulag kirkjunnar og stjórnsýsla hennar þjóni erindi hennar – sem er að boða trú á Jesú Krist og miðla til fólks hinum stórkostlegu fréttum um ást Guðs.

9. Kirkjan hefur verið gagnrýnd fyrir mikla miðstýringu úr Reykjavík. Munt þú beita þér fyrir meiri valddreifingu og gera grasrótina, sóknirnar um allt land virkari?

Á síðustu árum hefur mikið af verkefnum kirkjunnar færst frá ráðuneyti yfir til Biskupsstofu, sem er skrifstofa biskups Íslands og Kirkjuráðs. Nauðsynlegt er að greina skýrar á milli þannig, að mörkin milli verkefna kirkjuþings og kirkjuráðs annars vegar og biskups Íslands hins vegar séu skýrari.

Ég hef talað fyrir því, að biskup Íslands verði minni stjórnsýslubiskup og meiri kirkjubiskup og tel nauðsynlegt, að hann stígi út úr því hlutverki að vera framkvæmdastjóri kirkjunnar og inn í það hlutverk að vera andlegur leiðtogi, í samræmi við skilning lútherskra kirkna á eðli biskupsembættisins. Að mínu mati á biskup ekki að vera í forsæti í kirkjuráði, en hann á að sitja alla fundi kirkjuráðs með tillögurétt og málfrelsi og atkvæðisrétt.

Ég er fylgjandi því, að draga úr miðstýringu og tel að verkefni megi hýsa í prófastsdæmum og/eða sóknum. Dæmi um slíkt eru verkefni á sviði æskulýðsstarfs. Ég hef ýmis verkefni í huga sem ég vil gjarnan að verði tilraunaverkefni. Við eigum að virkja þekkingu og frumkvæði heima í héraði og nýta okkur visku heimafólks og mannauð kirkjunnar um allt land.

10. Aðskilnaður ríkis og kirkju. Er hann þegar hæfilegur, hvaða fyrirkomulag kýst þú?

Það gefur að mínu mati ekki alveg rétta mynd að spyrja um aðskilnað ríkis og kirkju eins og staðan er nú því að það er samband á milli kirkjunnar og ríkisins og það verður áfram þótt tengslin breytist. Betra er að spyrja hvernig þessi tengsl eigi að vera. Hið opinbera verður að hafa afskipti af trúfélögum og starfssemi þeirra, rétt eins og menntastofnunum. Þjóðkirkjan er langstærsta trúfélagið, sem flestir tilheyra og með viðamestu starfsemina.

Um samband ríkis og trúfélaga þarf að ræða og ég mun beita mér fyrir samtalinu sem biskup Íslands. Það þarf að ríkja sátt um fyrirkomulag og starf trúfélaganna í landinu og að því vil ég vinna. Ósátt um samband ríkis og kirkju þjónar ekki markmiðum kirkjunnar.

Varðandi stjórnarskrána þá tel ég, að í henni eigi að vera grein um grundvallargildi og að í þeirri grein eigi að nefna kristni. Nýja gildaákvæði norsku stjórnarskrárinnar er fyrirmynd, sem mér hugnast og tel þarft að ræða. Ég tel einnig, að standa eigi í stjórnarskránni að hin evangelísk-lútherska kirkja sé þjóðkirkja, en ég held ekki að það hafi úrslitaáhrif á líf og lífsmöguleika þjóðkirkjunnar hvort hún er varin í stjórnarskrá. Þar koma til önnur atriði svo sem trúmálalöggjöf, virðing fyrir samningum sem ríki og kirkja hafa gert, þjóðkirkjulöggjöf og almenn þróun íslensks samfélags og menningar. Þjóðkirkjan á ekki að njóta forréttinda eða sérréttinda umfram önnur trúfélög í landinu.

11. Nú innheimtir ríkið sóknargjöld fyrir kirkjuna en lækkar þau að hentugleikum. Telur þú rétt að kirkjan hafi heimild til að ákveða sjálf sín sóknargjöld svipað og sveitarfélög ákveða útsvar?

Það er ekki ágreiningur um sóknargjöldin sem slík. Vandinn er sá, að ríkið hefur innheimt þessi félagsgjöld en ekki skilað þeim að fullu til trúfélaganna í landinu, þar með talið þjóðkirkjunnar. Ég tel að ríkið eigi að standa við ákvæðin í lögum um sóknargjöld og eigi að standa full skil á þeim sóknargjöldum sem það innheimtir.

Í máli innanríkisráðherra við setningu kirkjuþings síðasta haust kom fram, að sóknargjöld hafa verið skert mun meira en framlög til annarra sambærilegra stofnana. Úr þessu þarf að þarf að bæta strax, enda miklir hagsmunir í húfi því skerðingin kemur niður á starfi kirkjunnar um allt land. Baráttan fyrir leiðréttingu sóknargjaldanna verður eitt af þremur fyrstu verkum mínu í embætti.

12. Hvernig biskup þarf kirkjan nú?

Þjóðkirkjan þarf biskup sem hefur skýra framtíðarsýn, hún þarf biskup sem getur eflt samkennd innan kirkjunnar og hún þarf biskup, sem getur talað þannig til kirkjufólks og þjóðarinnar, að þau sem hafa gengið úr kirkjunni vilji ganga í hana aftur.

Biskup þarf á öllum öldum að bera elsku í hjarta sínu, elsku til samstarfsfólks síns, safnaðanna, samfélagsins og skapara síns. Biskupinn á að vera sameiningartákn og sem slíkur þarf hann að koma vel fram fyrir kirkjuna og vera trúverðugur talsmaður þess breiða og litríka samfélags, sem þjóðkirkjan er. Það er svo lykilatriði, að biskupinn virkji og valdefli fólkið í kringum hann – þannig blómstrar og dafnar kirkjan til góðra verka.

Það er vor í kirkjunni og framtíð kirkjunnar er björt á meðan hún heldur sig við orðið, sem leysir og frelsar. Við göngum inn í páskahátíðina og fáum enn einu sinni að meðtaka undur upprisunnar og leyfa henni að verða að veruleika í lífi okkar. Jesús Kristur lifði til að rétta fólk við og endurvekja líf heimsins. Af þeirri ástarsögu Guðs þiggur kirkjan erindi sitt, tilgang og líf.