Spurningar Bjarma

Hér má lesa svör við 10 spurningum frá tímaritinu Bjarma. Birtast í 1. tbl. 2012

1. Ferilsskráin í stuttu máli

Ég er hamingjumaður. Konan mín er Elín Sigrún Jónsdóttir, lögræðingur. Ég á fimm börn á aldrinum 6-27 ára, þrjú barna minna eru af fyrra hjónabandi þau Katla, Saga og Þórður. Börn okkar Elínar eru tvíburarnir Jón Kristján og Ísak. Þetta barnalán mitt tengir mig við ungt fólk og veitir mér innsýn í menningu þess. Við Elín höfum búið okkur heimili í vesturbæ Reykjavíkur. Ljósmyndun eru meðal áhugamála minna. En kannski er ræktunaráhuginn djúprættastur. Ég stunda skógrækt, er með stóran matjurðagarð í Reykjavík og hef á síðari árum hafið ræktun ávaxtatrjáa. Kirsuberjatrén eru unaðsleg og ávextirnir góðir.

Ég gekk í skóla í Vesturbæ Reykjavíkur, Melaskóla, Hagaskóla og lauk stúdentsprófi frá M.R. Eftir það var ég við nám við Menighetsfakultetet og Indremissionsselskabets Bibelskole í Osló. Ég lauk Cand. theol. námi frá guðfræðideild Háskóla Íslands með ágætiseinkunn árið 1979 og doktorsprófi í guðfræði- og heimspekisögu við Vanderbilt háskóla í Tennessee árið 1989.

Ég hef verið prestur í Ásaprestakalli í Skaftafellsprófastsdæmi, Staðarfellsprestakalli í Þingeyjarprófastsdæmi, við Hallgrímskirkju í Reykjavík og Neskirkju. Ég var rektor Skálholtsskóla frá 1986 til 1991, fræðslustjóri Þjóðgarðsins á Þingvöllum frá 1992-1995 og verkefnisstjóri á Biskupsstofu frá 1995-2004.

Ég er kirkjuþingsmaður og varamaður í kirkjuráði, sit í samkirkjunefnd kirkjunnar og er formaður framtíðarhóps kirkjuþings.

2. Nú er oft mikið talað um skipulag kirkjunnar, hvaða breytingar eru brýnastar að þínu mati – og af hverju? Eða erum við í góðum málum?

Skipulag kirkjunnar þarf ætíð að þjóna tilgangi hennar – sem er að boða trú á Jesú Krist. Þjóðkirkjan er á leið frá því að vera ófullburða eining, háð ríkinu, til þess að verða myndug og frjáls. Frá því að þjóðkirkjulögin tóku gildi árið 1997 hefur kirkjan haft innri málefni sín á eigin ábyrgð. Þeirri vegsemd fylgir auðvitað vandi.

Á þessum tíma hefur kirkjuþingið staðið undir nafni sem æðsta vald í málefnum kirkjunnar innan lögmætra marka, ef frá er talið fjárveitingavald sem hefur verið í höndum kirkjuráðs. Frumvarp til nýrra þjóðkirkjulaga gerir ráð fyrir því að þetta breytist og kirkjuþingið hafi einnig um það að segja. Andi nýju laganna styrkir kirkjuþingið og styrkir aðkomu leikmanna í kirkjunni að stofnunum og stjórnsýslu kirkjunnar. Það er afar mikilvægt skref að mínu mati. Aukinni þátttöku og ábyrgð leikmanna ber að fagna.

Samhliða búsetuþróun landsins hefur kirkjan viljað laga þjónustu sína að aðstæðum. Það hefur m.a. þýtt að prófastsdæmi hafa verið lögð niður og sameinuð öðrum. Það hefur ekki endilega reynst jákvætt. Hins vegar hefur aukin áhersla og aukin meðvitund á mikilvægi samstarfs komið til síðustu misseri. Sú þróun verður að fá að halda áfram til þess að tryggja gæði þjónustunnar, ánægju í starfi, fjárhagslega hagræðingu og nýtingu starfskrafta.

3. Er það í takt við þróun samfélagsins að kirkjan skipuleggi sig landfræðilega eins og á miðöldum? Sérðu fyrir þér breytingar þar – og ef svo er, hverjar?

Þjóðkirkjan er skipulögð í afmarkaðar sóknir. Og sóknir eru grunneiningar kirkjunnar. Þetta hefur kosti og galla. Kostirnir við landfræðilegar sóknir eru að þær tryggja þjónustu við öll þau sem búa á tilteknu svæði, hvort sem það er í sveit, bæ eða borg. Gallarnir eru að þetta kerfi virðist styðja einsleitni í starfi kirkjunnar. Svo dæmi sé tekið af höfuðborgarsvæðinu þá er merkilegt að fólk getur valið á milli þess að fara í um það bil 30 guðsþjónustur kl. 11 á sunnudagsmorgni en mjög fáar á öðrum tímum.

Síðan megum við ekki gleyma sérþjónustunni, sem er mikilvægur þáttur í starfi kirkjunnar. Sérþjónustan byggir ekki á landfræðilegum einingum heldur þjónar einstaklingum sem tímabundið eða varanlega geta ekki nýtt sér þjónustu sóknarkirkjunnar sinnar. Sérþjónustunni sinna m.a. fangaprestur, prestur fatlaðra, prestur heyrnarlausra, og prestar og djáknar á sjúkrastofnunum. Öll veita þau afar mikilvæga þjónustu og það þarf að styðja og efla sérþjónustuna.

Ég vil nýta sóknafyrirkomulagið betur. Fjölbreytni í kirkjustarfi og samstarf sókna er lykilatriði í því sambandi. En ég hef líka lagt til breytingu eða viðbót sóknafyrirkomulagið, þ.e. óstaðsetta söfnuði. En sú hugmynd hefur enn ekki fengið hljómgrunn. En ég á von á því að á næstu árum verði betur hugað að henni, enda hefur hún marga kosti.

4. Þarf kirkjan að standa betur vörð um kenningu sína og boðskap Biblíunnar?

Það er sístætt verkefni þjóðkirkjunnar að miðla kenningunni og boðskap Biblíunnar inn í samfélagið. Nú er ekki síður brýnt en áður að horfa til þeirrar leiðsagnar, sem við finnum í Biblíunni og byggja á siðferðilegum gildum um náungakærleik og ráðsmennsku.

Kannski getum við sagt, að það sé sótt að kenningu kirkjunnar úr tveimur áttum. Annars vegar er það guðleysið og skeytingarleysið, sem máir út tilfinninguna fyrir gildi trúarinnar í samfélaginu. Hins vegar er það bókstafshyggja, sem þrengir og smættar og hefur lítið umburðarlyndi fyrir því að samfélag og menning taka breytingum.

Við þurfum að forðast báða öfga. Lúthersk kirkja hvílir á þeim arfi að Biblían skuli lesin út frá persónu og frelsisverki Jesú Krists og boðskapur hennar túlkaður í ljósi reynslu manneskjunnar. Þannig þjónar Guðs orð velferð og frelsi manneskjunnar.

5. Guðfræðilegar áherslur presta eru mjög misjafnar og geta leitt til vaxandi spennu á komandi árum.  Er það gott mál og ef ekki, hvað er til ráða?

Að vera þjóðkirkja er að rúma og þola ólíkar skoðanir og ólíkar guðfræðilegar áherslur en standa samt vörð um kjarna trúarinnar – sem er fagnaðarerindið um Jesú Krist, krossfestan og upprisinn. Þjóðkirkjan stendur á þeim grunni og játningar hennar túlka kjarnaboðskap Biblíunnar. Það er sístætt verkefni að túlka og tjá Biblíuna í ljósi samfélags og aðstæðna á hverjum tíma. Ég er þakklátur fyrir þá fjölbreytni, sem er að finna innan kirkjunnar og lít á það sem styrkleika að innan hennar rúmist ólík afstaða og áherslur. Ég hvíli líka í þeirri vissu, að trúin á Jesú sameinar okkur.

6. Líf kirkjunnar birtist í starfi safnaðanna. Hvernig þarf að efla það og trúarlíf einstaklinganna og þjóðarinnar í heild?

Trúin lifir og dafnar vegna þess að Guð er nálægur í lífinu. Þegar kirkjan þjónar trú og trúarþörf manneskjunnar er hún á réttri leið. Að vera þjóðkirkja er að starfa um allt land. Til að starfið í söfnuðunum dafni, þurfum við að búa vel að starfsfólki og sjálfboðaliðum og tryggja fjármagn til starfsins.

Ég hef sett þrjú mál á oddinn sem mín fyrstu verkefni á biskupsstóli: 1) Að kalla barnafræðara kirkjunnar til átaks í þágu barna og barnafjölskyldna. Börnin eru dýrmæti og framtíð þjóðarinnar og kirkjunnar. 2) Að hefja virkt samtal og samfylgd með prestum, djáknum og sjálfboðaliðum í þjóðkirkjunni. Í starfsfólki kirkjunnar er mannauður. Biskupinn á að fylgjast með, uppörva og leiðbeina, samgleðjast þegar vel gengur og benda á það sem betur má fara. Við þurfum að breyta sinnuleysi og kulda í athygli og umhyggju því glatt fólk vinnur vel. 3) Að berjast fyrir leiðréttingu á trúfélagsgjöldum, en skerðing á þeim hefur þrengt mjög að kirkjustarfi um allt land. Biskup á að beita sér fyrir að endurheimta félagsgjöldin.

Það er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að kirkjan sé virk og haldi sjó í þeim erfiðleikum sem eru þaulsetnir í íslensku samfélagi. Öflugt starf í söfnuðum þjóðkirkjunnar um allt land mun skila sér til þjóðarinnar allrar.

7. Hverjir eru styrkleikar þínir og veikleikar?

Ég hef haldgóða menntun og fjölbreytta reynslu af kirkjustarfi í sveit og borg, í sóknum og á landsvísu. Ég á auðvelt með að tala við fólk og er góður hlustandi. Ég leitast við að ganga erinda Jesú Krists í mannlegum samskiptum og í afstöðu til fólks. Í því felst mannvirðing. Ég hef skýra sýn á erindi kirkjunnar og þau verkefni sem er nauðsynlegt að ráðast í á næstunni.

Einn af veikleikum mínum er, að ég hef gaman af nýstárlegum orðum. Stundum getur það að nota óhefðbundin orð eins og t.d. orðin valdefling, dreifræði eða elskuiðja skapað fjarlægð í stað þess að tengja. Ég reyni passa mig á þessu. Svo á ég til að gefa fólki of marga sénsa, en í því er líka fólgið þolgæði og kærleikur.

8. Hvernig hyggstu bæta upp veikleika þína?

Enginn veldur að vera biskup án góðs samstarfsfólks. Biskup ber ábyrgð og þarf að hafa hugrekki, dómgreind, þekkingu og yfirsýn. En raunsæi á eigin mörg er mikilvægt og því þarf biskup að njóta öflugs samstarfsfólks, sem er heiðarlegt og áræðið og þorir að segja meiningu sína, líka þegar biskupinum kann að líka það illa. Ég á auðvelt með að starfa með fólki og þiggja góð ráð og mun leitast við að velja mér samstarfsfólk, sem bætir mig og bætir upp veikleika mína.

9. Hvert er álit þitt á Kristniboðssambandinu og kristniboðsstarfinu? Hvernig sérðu fyrir þér tengsl þess og kirkjunnar í framtíðinni?

Ég hef frá unga aldri fylgst með kristniboði og kristniboðum. Ég drakk ást til kristniboðs með móðurmjólkinni og sú afstaða hefur ekki breyst.

Nýlega var samþykkt kristniboðsstefna á kirkjuþingi. Þar er sett fram sýn á kristniboðsstarfið í samhengi þjóðkirkjunnar. Þessi stefna hefur verið hjartans mál fráfarandi biskups, hr. Karls Sigurbjörnssonar. Í henni er mörkuð stefna til næstu ára hvað varðar aðkomu þjóðkirkjunnar að  kristniboði og samstarfinu við Kristniboðssambandið. Þessa stefnu þarf að kynna vel og útfæra verkáætlanir þannig að hún verði kirkju og kristniboði til góðs.

10. Hvað viltu sérstaklega segja við lesendur Bjarma?

Á meðan biskupskjörið hefur staðið yfir hef ég hitt fjölda presta, djákna og leikmanna í kirkjunni út um allt land. Það hefur verið einstaklega ánægjulegt og lærdómsríkt. Ég er sannfærður um að framundan er vor í kirkjunni og að við þurfum að taka höndum saman um vorverkin. Það er gott að hefjast handa við það á gleðidögum, í upprisubirtu páskanna.