Hvert er að þínu mati hlutverk Biskups Íslands?

Margar spurningar hljóma þessa dagaa um kirkjuna og biskupsþjónustuna. Ein þeirra er: “Hvert er að þínu mati hlutverk Biskups Íslands?” Þessari spurningu má auðvitað svara með ýmsu móti. En meginmálið er, að biskup er fyrst og fremst prestur. Hann er prestur prestanna – en líka prestur þjóðarinnar. Sem prestur prestanna lítur hann til með söfnuðunum, starfi þeirra, kenningu, starfsfólki og þjónustu. Biskupinn á að veita athygli, sjá og veita tilsjón bæði fólki og lífsháttum þess í kirkjusamhengi.

Andardráttur trúarinnar er bænin og öll kirkjuþjónusta þarf að lifa í bæn. Mikilvægur þáttur biskupsþjónustunnar er fyrirbæn – fyrir kirkjunni og lífi hennar. Sem prestur þjóðarinnar er biskupinn fyrirmynd og leiðtogi í bæn og boðun.

Trúarleg leiðsögn felst m.a. í að prédika á stórum stundum í lífi þjóðarinnar og túlka meiningu trúar í samtíð okkar og benda til vegar. Til að sinna hlutverki andlegs leiðtoga þarf að létta af biskupsembættinu hlutverki framkvæmdastjóra kirkjunnar. Biskup á að vera kirkjubiskup fremur en stjórnsýslubiskup. Kristinn maður lifir í vídd himins en einnig í vídd tímans. Kirkjunni er ætlað að miðla ást Guðs. Biskup á m.a. að vera fús til samtals og að vera virkur þátttakandi í menningarþróun.

Ríkar kröfur eru gerðar til að biskup hlúi með natni og alúð að prestum, djáknum, starfsfólki og ábyrgðarfólki kirkjunnar. Til að kirkjan geti sinnt vel uppbyggingarstarfi þarf að byggja upp starfsfólk kirkjunnar. Biskup á að vera þolgóður græðari. Biskupi ber ekki aðeins að beita sér fyrir eflingu kirkjustarfs, heldur einnig að reyna að lækna sár, sem myndast hafa á líkama kirkjunnar og í samskiptum fólks.