Kúmenkjúklingur með trönuberjafyllingu

Þetta er einn af þeim kjúklingaréttum sem mitt fólk minnir á og óskar eftir. Kúmen er aðalkryddið og svo eru trönuber í fyllingunni. Matseldin er einföld og ilmur fyllir húsið. Ljómani matur fyrir helgar sem hátíðir. Ég hef eldað þennan rétt fyrir eina af jólamáltíðum  og líka sem aðalrétt nýársdags.

Fyrir 4

Hráefni

  • 80 gr smjör
  • 5 tsk kúmenfræ, ristuð og létt mulin
  • 7 hvítlauksrif, pressuð
  • 1 msk mjúkur dökkur púðursykur
  • 1 heill stór kjúklingur
  • 3–4 stórir sellerístilkar, skornir í 1 cm teninga
  • 1 laukur, skorinn í 1 cm teninga
  • 100 g þurrkuð trönuber
  • 100 g forsoðnar kastaníur, grófsaxaðar (má sleppa)
  • 4–5 sneiðar súrdeigsbrauð úr rúgi og hveiti, skorpan fjarlægð, létt ristað og rifið í ca 2 cm bita
  • 15 g steinselja, grófsöxuð
  • 120 ml kjúklingasoð
  • Salt og nýmalaður pipar

Matseld

Marinering fyrir kjúklinginn

Bræðið 40 gr af smjörinu og hrærið saman við 1 msk af kúmenfræjum, 2 hvítlauksrif, púðursykurinn og ½ tsk salt. Setjið kjúklinginn í stórt fat, nuddið marineringunni vel yfir allan fuglinn og leggið til hliðar. Hitið ofn í 190°C (blástur).

Fyllingin

Setjið afganginn af smjörinu (40 g) á stóra pönnu við meðalháan hita. Bætið faganginum af kúmenfræjunum út í og steikið í 1–2 mínútur þar til þau ilma vel. Setjið síðan afganginn af hvítlauknum, sellerí, lauk, trönuber, kastaníur og 1 tsk salt á pönnuna. Steikið í 12–13 mínútur, hrærið reglulega í þar til grænmetið er orðið mjúkt. Setjið blönduna í skál og bætið við brauðinu, steinseljunni og kjúklingasoðinu og hrærið saman við.

Fylla og undirbúa kjúklinginn

Setjið kjúklinginn í lítið ofnfast fat. Kryddið ríkulega með salti og pipar. Fyllið holið með fyllingunni. Ef eitthvað eftir af fyllingunni má setja það í ofnfast fat og hita síðustu 30 mínúturnar á meðan kjúklingurinn er að fullsteikjast.

Steiking

Steikið kjúklinginn í 70–75 mínútur. Ausið yfir hann á 20 mínútna fresti þar til skinnið er gullið og stökkt og safinn sem rennur úr kjúklingnum er tær.

Hvíld

Takið kjúklinginn úr ofninum og látið hann hvíla í 10 mínútur áður en hann er skorinn og borinn fram.

Ljómandi að bera fram með góðum hrísgrjónum eða kúskús og uppáhalds sósunni. 

Uppskriftin er upprunalega frá Ottolenghi sem þakkar vini sínum fyrir að miðla henni.

Bæn. Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen.