Það er munur á handhnýttu slaufunum og drengjaslaufunum, sem er smellt á kraga með smellu eða teygju. Slaufumenn veraldar hafa oftast fyrir því að læra að binda slaufunnar. Smátt og smátt verður fléttuhandverkið að vana og hægt að binda blindandi og óháð aðstæðum. Oft eru þeir vönu kallaðir til í neyðartilvikum, t.d. við hjónavígslur! Tilefnum fyrir slaufunotkun hefur fækkað síðari árin en alltaf er nú spennandi að standa við rekkann og velja slaufu fyrir tilefnið. Hver slaufa á sér samhengi, oft gefanda sem ég hugsa til og þakka, oft tengingar við einhverja mikilvæga viðburði sem ég minnist. Slaufurnar mínar eru því tilfinningabúnt og minna mig á svo margt frá liðinni ævi. Það væri skemmtilegt verkefni að skrifa örsögu hverrar slaufu. Það gæti orðið litrík dramaflétta. Hugmynd að örsögusafni, smásagnasafni, ævisögu eða bara bullbókverki? Svo hanga þessar hvíslandi söguverur, n.k. minnisfléttur, á diskarekka ömmu og afa. Mér þykir gott að hugsa til þeirra líka, hugsa um uppvöxt pabba undir þessum rekka í litlu koti á Grímsstaðaholti og leyfa minningum um fólk og áhrif þess líða um hugann. Litlu, ljósu smelluslaufurnar efst í rekkanum eru frá bernsku minni. Það eru nú aldeilis tilfinningar í þeim og þykk saga. Morgunsólin skín fallega inn ganginn og kyssir slaufurnar blíðlega. Þær eru til í gleði dagsins, talandi fortíð og til í ný ævintýri.
