Jeríkókjúklingur með lauk, döðlum og granatepli

Sæta döðlunnar, mildur blaðlaukur og safaríkt granatepli kyssast í rétti sem minnir á Jeríkó.

Í 4Mós 11.5 segir frá hve ákaft Ísraelsmenn söknuðu lauks, hvítlauks og blaðlauk sem þeir nutu í Egyptalandi. Döðlur voru gjarnan kallaðar „brauð eyðimerkurinnar“ og voru helsti orkugjafi á ferðalögum (2Sam 6.19). Granatepli voru tákn lífs, frjósemi og blessunar (5Mós 8.8; 2Mós 28.33–34). Hér sameinast þessi þrjú hráefni í rétti með áhugaverðar bragðvíddir. Í unaðsborginni Jeríkó var hægt að elda svona mat og halda veislu.

Hráefni (fyrir 5 manns)

  • 15 kjúklingaleggir (Gallus gallus)
  • 2 rauðlaukar (Allium cepa), grófsaxaðir
  • 2 blaðlaukar (Allium porrum), þverskornir í þunnar sneiðar
  • 1 heill hvítlaukur (Allium sativum), klofinn í geira en óafhýddur
  • 2 stilkar sellerí (Apium graveolens) þverskornir í ca 1 cm búta
  • 2 msk ólífuolía (Olea europaea)
  • 4 lárviðarlauf (Laurus nobilis)
  • 1 msk fersk salvía (Salvia fruticosa) eða þurrkuð
  • 1 msk ferskt rósmarín (Salvia rosmarinus)
  • 1 tsk kúmmín (Cuminum cyminum)
  • ½ tsk kanill (Cinnamomum verum)
  • 6 döðlur (Phoenix dactylifera), saxaðar smátt eða maukaðar í soði
  • Safi og fræ úr 1 granatepli (Punica granatum)
  • ½ glas vatn + grænmetissoð (bygg- eða linsukraftur)
  • Maldonsalt eða gróft sjávarsalt
  • Nýmalaður svartur pipar

Aðferð

  1. Marínering: Kryddið kjúklinginn með salti, kúmmín, kanil og ólífuolíu. Látið liggja í kæli í nokkrar klukkustundir eða yfir nótt.
  2. Grunnurinn: Steikið rauðlauk, blaðlauk og sellerí á pönnu þar til allt mýkist. Bætið hvítlauk og lárviðarlaufi út í.
  3. Steiking kjúklings: Brúnið kjúklingaleggina á heitri pönnu þar til húðin er gullin. Hellið grunninum yfir kjúklinginn. Og steikið áfram.
  4. Sósan: Maukið döðlur í vatni. Hellið öllu yfir kjúklinginn á pönnunni. Stráið salvíu og rósmaríni yfir. Notið þurrkað krydd ef ferskt er ekki til.
  5. Steiking: Látið réttinn malla á meðalhita á pönnunni í 45 mínútur. Gætið þess að vökvinn á pönnunni þorni ekki upp. Bætið vatni við ef þarf.

Berið fram á pönnunni: Dreifið granateplum yfir og skreytið með ferskri steinselju. Rétturinn er bestur með soðnu byggi og ósýrðu brauði sem dregur í sig ríkulegan sósukeim.

Bæn: Þökkum Drottni, því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen.