Calatafimi-kjúklingur í potti með orzo og sítrónum

Dásamlegur pottréttur sem kætir bragðlauka og nærir líkama og sál. Það er engin ástæða til að stressa sig yfir nákvæmum mælingum og hægt að sleppa hráefnum að vild og/eða bæta öðru við sem er til í búrinu og gæti passað. Orzo er skemmtilegt pasta sem hentar matarmiklum pottréttum og ég nota gjarnan orzo t.d. í kjötsúpu. Ég kemst í hátíðarskap þegar ég tek fram rauða hangikjötspottinn fram og fer að steikja. Á eldhúsbekknum haugur af gulrótum og blaðlauk. Þá er góðs að vænta. Grunnur uppskriftarinnar er frá Nigelu Lawson. 

Hráefni (fyrir 4–6)

2 msk ólífuolía

1 heill kjúklingur

Börkur og safi úr 2 lífrænum sítrónum

5 hvítlauksrif, afhýdd og söxuð smátt

6 gulrætur

3 meðalstórir blaðlaukar

2 tsk Maldonsalt

½ tsk chiliflögur

2 tsk þurrkað estragon

300 g orzo pasta

1 búnt steinselja söxuð

Undirbúningur

Hitið ofn í 180°C.

Skerið gulræturnar í stangir. Þverskerið blaðlaukinn í 1,5–2,5 cm búta.

Steikið kjúklinginn

Hitið olíu í þykkbotna pott með loki (emaileraður járnpottur er góður kostur).

Setjið kjúklinginn í pottinn og snúið bringunni niður. Brúnið í 3 mínútur þar til húðin er gullin. Snúið fuglinum svo við. Takið pottinn af hitanum eða lækkið hitann. Dreifið sítrónuberki og hvítlauk í olíuna kringum kjúklinginn og hrærið lítillega. Setjið gulræturnar og blaðlaukinn meðfram kjúklingnum. Kryddið með salti, chiliflögum og estragoni. 

Suðan

Hellið 1,25 lítrum af vatni í pottinn og bætið við vatni  þar til vökvinn nær upp á lærin. En brjóstið á að vera fyrir ofan vatnsyfirborðið. Hellið sítrónusafa út í og yfir fylginn. Ég sting kreistu sítrónunum inn kjúklingskviðinn að hætti Jamie Oliver. Hitið án loks þar til suðan kemur upp. Ýtið grænmetinu niður ef það flýtur upp eða of hátt.

Í ofninn

Setjið lok á pottinn og bakið í ofni í 1 klst og 10 mínútur. Bætið þá orzo út í og hrærið út í vökvann í kringum kjúklinginn. Setjið lokið aftur á og bakið í 15 mínútur til viðbótar í ofninum þar til orzo er orðið mjúkt og þrútið.

Lokafrágangur

Takið pottinn úr ofninum, takið lokið af og látið síðan standa í 15 mínútur. Hrærið lítilleg til að tryggja að orzo festist ekki við botninn. Orzo-ið mun halda áfram að sjúga í sig vökva. Hrærið 4 msk af steinselju saman við og stráið síðan afganginum ofan á.

Borið á borð

Setjið pottinn á borðið. Rífa má kjötið af beinunum og fjarlægja húð og bein. Hrærið kjöt og orzo saman áður en borið er fram. Setjið saxaða steinselju í skál á borðið fyrir þau sem vilja bæta seljunni við. 

Bæn. Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu.

 Og hvar er Calatafimi? Á vesturhluta Sikileyjar.