Er hægt að nota krækiber með fiski? Á berjatíma og þegar grænmetið er tilbúið í garðinum er gaman að leika sér með afurðirnar. Vinir komu í heimsókn. Við ákváðum að elda þorsk, nota blómkál og prufa krækiberjasultu með. Þá varð til þessi réttur. Þegar búið er að sjóða og steikja er blómkáli komið fyrir á diski, fiskurinn settur yfir. Svo er ferskt krydd látið falla yfir. Krækiberjasósunni er síðan dreift af hógværri smekkvísi og öguðum einfaldleika yfir fisk og í kringum hann. Kraftaverkin verða þegar vinir hittast, hjartastöðvar eru opnar og matarástin lifir.
Hráefni fyrir 4
800 gr þorskflök (skorin í 4 jafna bita)
Salt og hvítur pipar
2 msk ólífuolía og/eða smjör til steikingar
Krækiberjasósa
Hægt er að nota krækiberjasultu og þynna lítillega – best með hvítvíni.
Annars er uppskriftin þessi:
150 g krækiber (fersk eða fryst)
50 g sykur (ca. 3 msk, eftir smekk)
30 ml vatn
30 ml hvítvín
1 msk sítrónusafi
½ msk smjör (til að ná gljáa í lokin)
Blómkál
1 lítið blómkál – kjarninn skorinn frá og hitt brotið í litla blómkálssprota eða blóm
30 g smjör
Salt
Ferskar kryddjurtir (t.d. dill eða steinselja)
Matseld
Krækiberjasósa
Krækiber, sykur, vatn og sítrónusafi í pott. Sjóðið á lágum hita í 10 mínútur, þar til berin eru sprungin og sósan orðin svolítið seig. Hrærið smjöri út í í lokin til að fá fallegan gljáa. Mér finnst skemmtilegt að hafa berin með og nota þau sem fegurðarauka og viðbit. En það er líka hægt að sikta þau frá og skreyta með safanum.
Þorskur
Saltaðu og pipraðu þorskbitana. Hitaðu pönnu með olíu/smjöri, steiktu bitana 2–3 mínútur á hvorri hlið (fer eftir þykkt). Í steikingarlok á þorskurinn að vera hvítur og safaríkur en fiskrifin eiga að losna auðveldlega sundur.
Blómkál
Sjóðið blómkálið í söltuðu vatni í 3–4 mínútur (al dente). Steikið síðan stutt í smjöri til að ná fram hnetukeim.
Diskurinn
Setjið blómkál á miðju hvers disks. Þorskbitarnir eru síðan lagðir ofan á blómkálið.
Skreytt með ferskum kryddjurtum, t.d. graslauk eða dilli.
Krækiberjasósunni er dreift af hógværri smekkvísi og öguðum einfaldleika yfir fisk og í kringum hann.
Borðbæn:
Allt sem í dag er borið borði
blessaðu nú með þínu orði,
eilífi Drottinn; þelið þitt
þvoi og lýsi’ upp hjarta mitt.
Bæn Sigurðar Ægissonar, Siglufirði
Mynd sáð