Nú er berjatími. Það eru ekki bara bláber, aðalbláber og hrútaber sem eru nýtanleg. Krækiberin eru ofurfæða og hægt að sulta þau, safta eða frysta til vetrarins. Við fórum í berjamó til vina okkar í nágrenni Reykjavíkur og komum til baka með um 10 lítra af krækiberjum. Sultunin er hamingjutími í kokkhúsi okkar. Og þar sem ég var með lambalæri í ofninum setti ég sultuð krækiber í skál og bætti við balsamediki og rauðvíni og hellti yfir steikina til að glasera lærið í lokin. Hér er uppskrift að gæðasultu og við lágmörkum sykurnotkunin. Og bragðið er undur.
Hráefni
1 kg krækiber
500 g sykur (minna en hefðbundið, til að halda sýrubragðinu)
100 ml vatn
1 sítróna lífræn (safi + börkur)
1 vanillustöng (fræ og stöng)
1 lítið stykki af fersku engifer (5–10 g, fínsaxað)
1 stjörnuanís eða ½ kanilstöng (valfrjálst)
1 tsk sjávarsalt (lyftir berjabragðinu)
Framkvæmd
Hreinsa berin. Sjóða ber + vatn + sítrónusafa þar til þau mýkjast og springa (ca. 10 mín). Bæta við sykri, vanillu, engifer og hinu hráefninu. Láta sjóða á miðlungshita, hræra vel og fjarlægja froðu ef einhver er. Fjarlægja kryddstöngina, anís (og öðru sem skemmir útlitið) og hella sultunni í heitar, sótthreinsaðar krukkur.
Hægt er að nota dropa af krækiberjasultu með villibráð t.d. hreindýr, gæs eða önd til að skreyta og veita nett bragðundur! Svo má glasera lambakjöt með blöndu af sultu, smá rauðvíni og balsamico.