Þjóðgarðurinn á Þingvöllum er helgistaður og fræðslustaður þjóðar um náttúru, sögu og menningu. Gunnar Grímsson, landvörður og fornleifafræðingur á Þingvöllum, hefur rannsakað götur og stíga í Þingvallalægðinni og fundið gamlar leiðir sem voru týndar.
Gunnar stýrði fræðslugöngu sunnudaginn 27. júlí 2025 í Hrauntún og að fjárhelli og hraunskýlinu Gapa í austurhluta Þingvallalægðarinnar. 140 manns komu (verkfræðingurinn taldi), nutu frábærrar fræðslu, náttúrufegurðar og veðurblíðu. Gunnar er ekki aðeins góður sögumaður, fræðimaður og landvörður heldur líka hugmyndaríkur fræðari. Sísí, kona hans, bakaði brauð fyrir allan söfnuðinn. Og af því hefð var fyrir í Hrauntúni að gefa ferðafólki brauð með kæfu matbjó Gunnar kæfu og smurði bakkelsi Sísíar. Þegar hann útdeildi brauðinu og Þorgeir Adamsson, landvörður, kleinum var eins og mettunargjörningur Jesú við Galíleuvatn væri uppfærður til nútímans við Þingvallavatn.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir bætti við sögum um Sigurveigu Guðmundsdóttur í Hrauntúni en Ingibjörg Sólrún skrifaði ævisögu hennar: Þegar sálin fer á kreik. Við fengum svo sannarlega innsýn í líf fólksins í Hrauntúni og Þingvallasveit. Gamall Þingvallafræðari var stoltur af metnaði starfsmanna þjóðgarðins, getu og snilld. Glæsilegt og loflegt – takk fyrir.
Vefheimild um Hrauntún: “Sumar í Hrauntúni – Sigurveig Guðmundsdóttir“ – Lesbók Morgunblaðsins, 34. tbl. 22.12.1984, bls. 39-41. Viðtalið við Sigurveigu um mannlífið í Hrauntúni og karlana þrjá var birt í heild á vefsíðunni: https://ferlir.is/82198-2/
Í hinni frábæru bók Sigrúnar Helgadóttur um Þingvelli eru skemmtilegar lýsingar á sögu Hrauntúns og mannlífi