Flórens-kjúklingur með rjómasósu og spínati

Einföld pönnuuppskrift. Safaríkar kjúklingabringu í smjörkenndri hvítvíns-rjómasósu með spínati og rjómaosti. Rjómaosturinn gefur sósunni mýkt og fyllingu. Í stað spínats má nota sólþurrkaða tómata, steikta sveppi eða niðursoðin þistilhjörtu – eða bæta þeim við. Borið fram með stöppuðum eða ofnbökuðum kartöflum – en brauð er nauðsyn til að þerra síðustu sósudropana! Það er uppskófla eða scarpeda í ítölskunni. 

Hráefni:

60 ml hveiti (ca. ¼ bolli)

60 ml rifinn parmesanostur (ca. ¼ bolli), auk þess sem stráð er yfir í lokin fyrir áferð – lúkkið. 

Salt og nýmalaður pipar

4 þynntar, beinlausar kjúklingabringur – án húðar (um 450 g)

1 msk ólífuolía

4 msk smjör

1 meðalstór skalottulaukur, smátt saxaður – nú eða graslaukur/vorlaukur

2 hvítlauksrif, smátt söxuð

120 ml þurrt hvítvín (½ bolli)

120 ml kjúklingasoð (½ bolli)

1 tsk þurrkuð basilíka (eða 1 msk ferskt, saxað)

1 tsk þurrkuð óreganó (eða 1 tsk ferskt, saxað)

120 ml rjómi (½ bolli)

60 g rjómaostur (við stofuhita)

2 bollar spínat (um 85 g)

Aðferð:

  1. Blandað saman hveiti, parmesan, 1 tsk salti og 1 tsk pipar á disk. Kjúklingabringunum velt upp úr blöndunni þar til þær eru vel þaktar báðum megin.
  2. Stór panna hituð á meðalhita. Setjið ólífuolíu og 2 msk af smjöri á pönnuna og bræðið saman. Steikið kjúklinginn í um það bil 4 mínútur á hvorri hlið, þar til hann er orðinn gullinbrúnn (en þó ekki eldaður í gegn). Takið kjúklinginn af pönnunni og leggið til hliðar.
  3. Bætið afganginum af smjörinu (2 msk) á pönnuna. Setjið skarlottulauk, hvítlauk og smávegis salt saman við. Hrærið í 2 mínútur eða þar til laukurinn er orðinn mjúkur og hvítlaukurinn ilmar.
  4. Hellið hvítvíni og soði út á pönnuna. Bætið við basilíku og óreganó. Hrærið og skafið upp karamelliseruðu bitana af botninum. Látið sjóða niður í um helming (3–4 mínútur). Bætið þá við rjómanum og rjómaostinum. Hrærið þar til osturinn hefur bráðnað og sósan þykknar (um 6 mínútur).
  5. Bætið spínatinu við og hrærið þar til það hefur linast og blandast vel við sósuna (um 1 mínúta).
  6. Leggið kjúklinginn aftur á pönnuna og látið malla þar til hann er fulleldaður (4–5 mínútur). Takið af hitanum og berið strax fram með ferskum parmesanosti yfir.

Ljómandi að skreyta með ætum blómum á sumartímanum. 

Meðlæti við  hæfi

Stappaðar kartöflur með hvítlauk, salti og smjöri. Mjúkar og rjómakenndar kartöflur eru fullkomnar og þær draga í sig rjómasósuna. Bætið rifnum parmesan eða örlitlu múskati við til að ná fram ítölskum blæ.

Ofnbakaðar litlar kartöflur eða sætar kartöflur, kryddaðar með ólífuolíu, rósmarín og sjávarsalti.

Grillaðar eða gufusoðnar grænmetisspírur.

Grænmeti eins og brokkolí, blómkál, grænar baunir eða aspargus.

Bagettebrauð – til að þerra upp sósuna! Getur verið súrdeigsbrauð, focaccia eða einfaldlega brauð með hvítlauksolíu og kryddi.

Ferskt salat, t.d. rúkkola og kirsuberjatómatar með sítrónu-ólífuolíudressingu og parmesanflögum.

Grunnuppskriftina fann. ég í NYT.

Borðbæn

Gef oss í dag vort daglegt brauð,

vor Drottinn Guð, af þínum auð.

Vort líf og eign og bústað blessa

og blessa nú oss máltíð þessa.

En gef vér aldrei gleymum þér

er gjafa þinna njótum vér.

V.B.