Sigurður Norland í Hindisvík – náttúruverndarfrömuður

Þórir Kr. Þórðarson, lærifaðir minn í Biblíufræðum, sagði mér frá því að hann og Jakobína Finnbogadóttir heimsóttu Sigurð Norland í Hindisvík. Þórir var hrifinn af klerkinum á Vatnsnesinu, lærdómi hans, náttúrspeki og heimssýn. Þau Bíbí töluðu svo eftirminnilega um Hindisvík og náttúrufegurð svæðisis að hrifning þeirra snart mig. Hafði umhverfisguðfræðingurinn Sigurður áhrif á umhverfissýn þeirra? Þórir Kr. hlustaði alltaf á vitringa.  

Við Jón Kristján, sonur minn, fórum saman um Hveravelli og norður Kjalveg. Hann langaði að skoða Húnavatnssýslur og við vitjuðum helgidóma og dýrmæta sýslunnar og fórum m.a. fyrir Vatnsnes. Ég sagði syni mínum m.a. frá prestunum sem höfðu þjónað Tjörn, m.a. þeim Róberti Jack, þeim kúnstuga knattspyrnuklerki, og Sigurði Norland. Við horfðum heim að Hindisvík og fórum að Tjörn. Kríurnar vöruðu eindregið við að við færum heim á staðinn en alla leið ætluðum við. Kirkjan var læst,  skellótt og döpur en kirkjugarðurinn var nýsleginn. Ég fann fljótt leiði Sigurðar Norland og sá líka leiði Friðriks og Agnesar sem dæmd voru fyrir morðin á Illugastöðum í sömu sveit (sem margir hafa skrifað um og Hannah Kent eftirminnilega í Náðarstund).

Sigurður Norland fæddist  í Hindisvík 16. mars, 1885. Hann varð stúdent frá MR vorið 1907 og hélt svo utan og fór fyrst til Skotlands og síðan til Íslendingabyggða í Kanada. Sigurður varð svo góður enskumaður að hann gat ort  eftirminnilega hringhendu á ensku til að útskýra gerð og snið ferskeytlunnar fyrir enskumælandi útlendinga:

She is fine as morn in May,

mild, divine and clever,

like a shining summer day,

she is mine forever.

Þetta „she is mine forever“ varðaði ekki hjónalíf því enga átti Sigurður konu og ekki börn heldur önnur en sóknarfólkið. En Guð, söfnuðir hans, hestar, selir og náttúran í öllum sínum undravíddum voru viðmælendur Sigurðar í Hindisvík. Hann nam klerkleg fræði í Prestaskólanum og var sá síðasti sem útskrifaðist frá þeirri merku menntastofnun áður en hún rann inn í Háskóla Íslands við stofnun hans og þá sem guðfræðideild. Sigurður var vígður til prestsþjónustu í Vopnafirði en fór svo í heimahagana á Vatnsnesi. Hann vildi ekki sitja prestssetursjörðina á Tjörn heldur valdi að búa með móður sinni í Hindisvík utar á nesinu. Sigurður keypti svo jörðina þegar móðir hans lést árið 1919. Um tíma var hann prestur í Rangárvallasýslu en leitaði heim á ný og þjónaði Vatnsnesingum til ársins 1955. Ættmenni Sigurðar eiga paradísina Hindisvík nú. 

Sigurður var hestamaður og ræktaði frægt kyn sem var kennt við Hindisvík. Einhvers staðar sá ég að bláeygir hestar væru til í þeim stofni en ég veit fyrir víst að Sigurður var ekki talinn bláeygur í lífinu. Sigurður var hugsjónamaður og kunnur fyrir tillögur um verndun sela og hvala. Árið 1940 friðaði hann selalalátrið í Hindisvík. Sigurður var þekktur fyrir framúrstefnulegar hugmyndir sínar um náttúruvernd og var af ýmsum talinn fyrsti náttúruverndarmaður Íslands. Vænn þjónn Guðs, manna og náttúru. Guð blessi minningu Sigurðar Norland.

Mynd mín af legsteini sr. Sigurðar í kirkjugarðinum á Tjörn á Vatnsnesi, 20. júlí 2025.

Ef einhver lesenda þessarar greinar man Sigurð eða kann sögur um hann og hans fólk þætti mér vænt um að fá tilskrif á s@sigurdurarni.is