Þingvallavatn, vatnasvið, gróður og líf

Vatnasvið Þingvallavatns nær frá Langjökli í norðri til Hengils í suðri, um 55 km., frá Lyngdalsheiði í austri að Botnssúlum og Mosfellsheiði í vestri. Samtals er vatnasviðið um eitt þúsund ferkílómetrar, um 1% Íslands. Auk náttúrufegurðar og þróunarsögu Þingvallasvæðisins er vatn þess ómetanleg auðlind. Þingvalla- og Brúarársvæðið ofan Brúarfoss er helsti lindarvatnsbanki Íslands. Lindarvatn, háhitasvæði og raforka munu lengi verða Íslendingum ómetanlegt búsílag, ef notkun fer saman við ábyrga verndun svæðisins.

Þingvallavatn í tölum

Hæð Þingvallavatns yfir sjávarmáli er 100,6 m. (102,4 m. samkv. Sogsneti). Vatnasvið Þingvallavatns fylgir fjallahringnum, sem girðir Þingvallasigdældina af. Vatnið er 83,5 km2 að flatarmáli (86 ferkm. með eyjum), eða um 1/12 vatnasviðsins. Meðaldýpi er 34,1 m. Mesta dýpi, nærri Sandey, er um 114 m. og er því talsvert neðan sjávarborðs. Árssveiflur yfirborðs voru eftir 1960, við upphaf reksturs Steingrímsstöðvar, allt að einum meter, en eru nú um 20 cm. Í Þingvallavatni eru um 3 km3 vatns.

Úr Þingvallavatni rennur vatnsmesta lindá landsins, Sogið, yfir 100 rúmmetrar á sekúndu. Í vatnið renna þó aðeins lækir og þrjár smáár. Aðstreymi vatnsins er því mest úr lindum og gjám, aðallega við norðurhluta vatnsins. Mesta og tignarlegusta aðveituæðin er Silfra, sem veitir um 64% í vatnið. Þá er Vellankatla vatnsmikil, 22% aðrennslis. Sjá má lindirnar við vatnsbakka. Aðalhluti vatnasviðs er fjalllendið norðan vatns. Elsta vatnið hefur fallið á Langjökulsvæðið, farið djúpt í jörð og jafnvel niður í möttul jarðar á 8 km. dýpi og kemur að hluta upp við Vellankötlu. Hluti þess vatn féll jafnvel sem snjór eða regn á miðöldum. Vegna langferðar um hraun, sem tekur allt að tíu ár, er vatnið ríkt að efnainnihaldi og er ástæðan fyrir fjölbreytni og kröftugu lífríki vatnsins þrátt fyrir kulda þess. „Frjó eru vötn undan hraunum.“ Úrkoma á Hengilsvæðinu er um 2500-3000 mm. á ári, um 2800 mm. falla á Súlur, en 1300-1400 mm. á sjálft Þingvallavatn og umhverfi þess.

Myndun Þingvallavatns

Þingvallasvæðið er eitt af sérkennilegustu vatnasvæðum heims. Trúlega sjást hvergi glöggar skil og hreyfingar Ameríku- og Evrópuflekanna. Sprungulínurnar í landslagi Þingvallasvæðisins eru sýnilegar öllum sem fara um svæðið. Saga Þingvallavatns er saga átaka íss, eldgosa, stórfljóta og jarðskorpuhræringa. Við ísaldarlok lá jökultunga allt suður í Úlfljótsvatn. Jökullón stóðu 65 metrum hærra en núverandi vatnsyfirborð og skildu eftir hjalla og jökulgarða. Jökull hopaði síðan og yfirborð vatnsins lækkaði og skildi eftir ummerki í 35 og 10 metra hæð yfir núverandi vatnsborði. Skjaldbreiður gaus fyrir um tíu þúsund árum og tók fyrir rennsli jökulfljóta suður Þingvallalægðina. Síðar gaus í Hrafnabjargarhálsi, Eldborgum, og hraunin runnu, sem eru umhverfis norðurhluta vatnsins. Síðasta gosið varð fyrir um tvö þúsund árum þegar Nesjahraun rann og Sandey myndaðist. Vegna flekahniks hafa miklir landskjálftar orðið á Þingvallasvæðinu og land sigið. Á níu þúsund árum hefur land sigið við Almannagjá um 40 metra en gliðnun í sigdældinni allri er um 70 metrar. Í jarðskjálftum árið 1789 var sig í Vatnsviki og nærri Almanngjá frá 1,2 – 1,4 metrar á aðeins hálfum mánuði. Mest var sigið í Vatnskoti, 2,8 m. og túngarðsendinn er á því dýpi. Hólmarnir í vatninu sunnan Þingvallabæjar eru túnleifar Þingvallaklerka. Meðalsig við Þingvallabæ er nær hálfur cm. á ári.

Lífið í vatninu

Um þriðjungur vatnsbotns er gróðri þakinn. Lággróður er mikill á hörðum botni út á 10 m. dýpi. Kransþörungabelti er á leðjubotni á 10-30 m. dýpi, mikill skógur af allt að meters háum plöntum. Þetta belti er mjög mikilvægt fyrir dýralíf og þar með fiska. Um 150 tegundir plantna eru á botni. Um 120 þúsund dýr lifa á hverjum fermetra við vatnsbakka. Þar sem vatnið er dýpst, á Sandeyjardýpi, lifa um 10 þúsund dýr á hverjum fermetra. Um 1000 vatnabobbar lifa á hverjum fermeter á búsvæði bobbans. Í vatnsbolnum lifir jurtasvið um mánaðartíma áður en það fellur til botns og verður að seti. Lesa má gosasögu síðustu alda í þessu seti. Svifdýr lifa á jurtasvifi en fiskur nýtir sér síðan svifdýrin. Gróðurframleiðsla vatnsins er a.m.k. 30 tonn á ári af þurrmeti. Þingvallavatn er eina vatnið í heiminum, sem alið hefur fjögur afbrigði af bleikju. Þau eru murta, sílableikja, svartmurta og kuðungableikja. Auk bleikjunnar eru í vatninu urriði og hornsíli.

Samantekt SÁÞ 1994. Myndin er frá hitadeginum mikla, 14. júlí 2025, en þá var hitinn við Hrauntún í Þingvallahrauni um 30°C en opinber hiti veðurstofumælisins 28,1°C.

Ljómandi upplýsingar um vatnasviðið eru á vef Þingvalla að baki þessari smellu.  Bókin Þingvallavatn: Undraheimur í mótun er dásamleg uppspretta þekkingar á vatninu. Fjölmargir höfundar okkar bestu fræðimanna á viðkomandi fagsviðum.