Leita Guðs en sjá menn


KórÍ þessari viku hef ég nokkrum sinnum gengið inn langan kirkjugang Hallgrímskirkju – og alla leið upp að altarinu. Á mánudaginn síðasta hóf ég prestsþjónustu í þessu húsi og í þágu Hallgrímssafnaðar og þessa dagana er mér flest nýtt. En framgangan og upp að altarinu var ekki ný fyrir mér og rifjaði upp óvænta og sterka upplifun þegar ég gekk í fyrsta sinn fyrir altari kirkjunnar.

Hver er miðjan í kirkjunni? Flestar kirkjur eru svo skipulagðar, að nálgast altari veki tilfinningu fyrir mikilvægi. Miðjan, staður hins heilaga er jafnan á áhrifaríkasta bletti rýmisins. Þegar þangað er komið finnur fólk, að það er statt á „heitum“ reit, sem trúmaðurinn kallar heilagan stað.

Þið, sem hafið gengið inn kirkjugang Hallgrímskirkju vitið vel, að leiðin er löng, ferðalag sem gefur tilefni til skynjunar og hugsana.

Kórgluggarnir veita ljósi greiða leið og kórinn er jafnan bjartasta rými kirkjunnar á messutímum að degi. Því er það eins og að halda inn í ljósríkið að ganga að altarinu – og auðvitað enn fremur þegar sól skín. Sjónlínurnar í kirkjunni eru mikilvægar og stýra úrvinnsu upplifunarinnar.

Hvað sérðu þegar þú situr á kirkjubekknum og horfir inn í kórinn? Þú sérð ekki bíla, hús eða mannlíf heldur himinn – ef ekki bláan, þá leik skýja og stundum leik ljóssins í skýjabólstrum. Kórinn verður því upphafinn ljósveröld. Og kirkjan verður eins og forskáli himinsins. Augun leita fram og upp og hlið himins opnast. Sjá himins opnast hlið… segir í sálminum (sem er yfirskrift þriggja tónleika Mótettukórsins þessa dagana).

En hvað sér presturinn í kórnum? Ég gekk fyrir altarið áðan og þá breyttist útsýnin. Það, sem sést í kórnum, sjáið þið ekki sem eruð í kirkjunni. Sjónsvið prestsins er allt annað en sýn safnaðarins. Við altarið leita augun ekki lengur upp í himininn, til skýja eða himinljósa. Augun leita þvert á móti fremur niður! Upp við altarið sér maður beint út og niður um lága gluggana í bogahring kórsins. Frá altarinu blasa við borg, hús og mannlíf. Þessa borgarsýn hefur söfnuðurinn ekki og fjöllin eru í fjarska sem sjónarrönd

Þetta er raunar makalaus útsýn og áminning fyrir prest og önnur þau sem eiga erindi í kór og að altari. Þegar komið er í hið allra heilagasta breytist sjónsviðið. Fyrir augliti Guðs sér maður menn! Þetta skipulag kirkjunnar má verða okkur öllum til íhugunar og visku hvernig við megum skilja og túlka Guð, veröld, menn og kirkju. Þegar við komum næst Guði förum við að sjá með nýjum hætti. Við lærum að sjá með augum Guðs sem er ekki upptekinn af eigin upphöfnu dýrð, heldur tengslum við sköpun sína og menn – við þig.

Guð þráir að tengjast þér, tala við þig, vera vinur þinn og eiga trúnað þinn. Það merkir að Guð er meðal manna. Þegar menn leita Guðs sem ákafast þá opnar Guð mönnum sýn til systra og bræðra, mannlífs og náttúru. Við menn erum kölluð til að elska – ekki aðeins að elska Guð – heldur fólk, hvert annað og þjóna öðrum. Þegar við sjáum Guð beinir Guð sjónum okkar að veröldinni, sem þarfnast okkar og verka okkar.

Hinn starfandi Guð

Í guðspjalli dagsins hljómar skýrt og klárt boðið: Vakið. Í þessum stutta guðspjallstexta er það m.a.s. þrítekið. Vakið. Að trúa er ekki að sofna frá þessum heimi og vakna til annars, heldur lifa glaðvakandi og vera til taks fyrir hið góða, sem Guð gefur – vaka fyrir Guð. Trú er ekki að skutlast frá jarðlífi til einhverrar geimstöðvar eilífðar. Í öllum bókum Biblíunnar er dregin upp vekjandi mynd af Guði, að Guð er ekki fjarlæg vera, heldur ástríðuvera sem elskar, grætur, faðmar, syrgir og gleðst.

Samkvæmt kristninni er Guð altengdur – þegar allt var brotið í mannheimi svaf Guð ekki heldur kom sem barn, mennsk vera til að þurrka tár, lækna mein og skapa grundvöll lífsins. Guð skapar fólk til frelsis og yfirgefur menn aldrei þrátt fyrir bresti. Fagnaðarerindið er, að lífið er góður gerningur Guðs, verk elskunnar.

Niður er leiðin upp!

Kirkjugangurinn og leiðin að altarinu er til íhugunar á aðventu. Leiðin fram og upp er jafnframt niður. Leiðin til jóla, leiðin upp í himininn er alltaf í gegnum mannheim. Leið elskunnar til Guðs er vegleysa nema um raunheim mennskunnar.

Himinhopp trúarinnar verða engin nema með því að lifa með ábyrgð meðal þurfandi manna. Trú, sem ætlar sér bara að veita mönnum gott símasamband við Guð í hæðum – en tengir fram hjá fólki í vandræðum – er guðlaus og þar með trúleysa.

Guð elskar og því eiga menn að elska menn. Það er undur byltingarinnar, sem hófst við komu Jesú Krists. Elska varðar það hugrekki að segja nei við öllu því, sem hemur og kúgar fólk. Að elska Guð er að elska hvert annað, á ljósum dögum þegar allt gengur vel og líka á myrkum dögum veikinda og sorgar. Við erum kölluð til að elska – jafnvel það, sem okkur hugnast ekki.

Þegar þú gengur inn í Hallgrímskirkju horfir þú til himins og þegar þú ferð alla leið að altarinu sérðu veröldina. Þannig er hin kristna afstaða táknuð og ferð trúmannsins í veröldinni. Að horfa upp til Guðs leiðir til að þú ferð að horfa á veröldina með augum Guðs og með elsku Guðs.

Aðventa

Hvar ert þú stödd? Hvar ertu þú staddur á aðventu? Hvernig getur aðventan nýst þér? Er margt sem þú þarft að puða við? Hefur þú áhyggjur af einhverju, af fólkinu þínu, sjálfum þér – eða sjálfri þér?

Ógnar þér allt sem þú átt eftir að gera? Hvernig er ferðalagið þitt? Ertu á leið inn einhvern kirkjugang? Hvað sérðu fyrir þér? Leitar þú í ljósið, ertu á leið að altari lífsins?

Aðventan er í samtíma okkar orðinn tími anna og undirbúnings. Fagnaðarefni kristnninnar er að við þurfum ekki að umbylta veröld okkar til að Jesús Kristur komi til okkar – hann fæddist jú ekki heima heldur í óvæntum aðstæðum, annars staðar en skipulagt hafði verið. Guð kemur til þín óháð ati og önnum. Guð kemur ekki til þín vegna þess að þú verður búin með öll verkin, heldur jafnvel þvert á skipulagið. Aðventan er eftirvæntingartími. Þú mátt opna huga, vænta og vona – það eru stef aðventunnar.

Af hverju heldur þú að Jesús hafi komið í þennan heim? Af því Guð horfir á mennina og lætur sig þig varða. Að elska Guð er jafnframt að elska mennina – að verða augu, afstaða, hendur og faðmur Guðs í heimi. Það er að vaka. Gakktu fram til Guðs og þá sérðu heiminn.

Amen.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju, 7. desember, 2014. 2 sd. í aðventu.

Textaröð: B

Lexía: Jes 35.1-10


Eyðimörkin og skrælnað landið gleðjist,
öræfin fagni og blómstri.
Eins og dverglilja skal hún blómgast,
gleðjast, gleðjast og fagna.
Vegsemd Líbanons veitist henni,
skart Karmels og Sarons.
Menn munu sjá dýrð Drottins og vegsemd Guðs vors.
Styrkið máttvana hendur,
styðjið magnþrota hné,
segið við þá sem brestur kjark:
„Verið hughraustir, óttist ekki,
sjáið, hér er Guð yðar, hefndin kemur,
endurgjald frá Guði,
hann kemur sjálfur og bjargar yður.“
Þá munu augu blindra ljúkast upp
og eyru daufra opnast.
Þá stekkur hinn halti sem hjörtur
og tunga hins mállausa fagnar.
Já, vatnslindir spretta upp í eyðimörkinni
og lækir í auðninni.
Glóandi sandurinn verður að tjörn
og þyrst jörðin að uppsprettum.
Þar sem sjakalar höfðust við áður
sprettur stör, reyr og sef.
Þar verður breið braut
sem skal heita Brautin helga.
Enginn óhreinn má hana ganga
því að hún er ætluð lýð Guðs að fara um
og heimskingjar munu ekki villast þar.
Þar verður ekkert ljón,
ekkert glefsandi rándýr fer þar um,
þar verður þau ekki að finna.
Þar munu aðeins endurleystir ganga.
Hinir endurkeyptu Drottins hverfa aftur
og koma fagnandi til Síonar,
eilíf gleði fer fyrir þeim,
fögnuður og gleði fylgja þeim
en sorg og mæða flýja.

Pistill: Heb 10.35-37


Varpið því eigi frá ykkur djörfung ykkar. Hún mun hljóta mikla umbun. Þolgæðis hafið þið þörf, til þess að þið gerið Guðs vilja og öðlist fyrirheitið. Því að:
Innan harla skamms tíma
mun sá koma sem koma á og ekki dvelst honum.

Guðspjall: Mrk 13.31-37


Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða.
En þann dag eða stund veit enginn, hvorki englar á himni né sonurinn, enginn nema faðirinn. Gætið yðar, vakið! Þér vitið ekki nær tíminn er kominn. Svo er þetta sem maður fari úr landi, skilji við hús sitt og feli þjónum sínum umráðin, hverjum sitt verk. Dyraverðinum býður hann að vaka. Vakið því, þér vitið ekki nær húsbóndinn kemur, að kveldi, á miðnætti, í óttu eða dögun. Látið hann ekki finna yður sofandi þegar hann kemur allt í einu. Það sem ég segi yður, það segi ég öllum: Vakið!“