Rifið, fjölkryddað lambakjöt

Lambakjöt er dásamlegur matur. Mikilvægt er að standa með íslenskum landbúnaði og bændum og stuðla að sjálfbærni Íslendinga í matarmálum. Því þarf að halda lambakjöti að uppvaxandi kynslóð og þessi réttur hefur reynst mér vel til þess. Það þarf ofurlitla fyrirhyggju ef hægelda á lambakjöt en það er auðvitað mun betra – bragðlega og tilfinningalega. Best er að bera fram í tortillum en líka hægt að nota með hrísgrjónum og litríku salati. Svo er píta einn valkosturinn. 

Fyrir 4-6

2 rauðar paprikur, skornar í fjórðunga og fræ hreinsuð frá (360-400 gr)
2 rauður chilli. Fræ og stilkar hreinsuð frá
1 heill hvítlaukur – þverskorinn
800 gr lambakjöt – bógur er ljómandi eða læri. Kjötið skorið í nokkur stykki. Sinar og fita hreinsuð frá
3 msk ólífuolía
salt and svartur pipar
3 msk tómatþykkni
2 msk malað kúmmín (cumin)
1¼ tsk malaður kanill
½ msk kóríanderfræ kramið (coriander seeds)
4 lárviðarlauf

1 appelsína – þ.e. safinn
500 ml kjúklingakraftur
1½ msk límónusafi
1½ msk (ca 5gr) grófsaxaður kóríander
1½ msk hlynsíróp
8-10 mjúkar tortillur – hitaðar fyrir notkun. Nota oft grill til snögghitunar. Svo er líka hægt að hita á plötu eða við vægan gashita.
2 vorlaukar, skornir. Mæli með að fín- og lang-skera í ca. 2 cm búta

Ofninn settur á grill-stillingu. Paprikur, chilli og hvítlaukshelmingarnir settir á plötu – mæli með að setja bökunarpappír undir. Baka í ca 12 mínútur og fylgjast með og snúa jafnvel þar til bökunareinkenni koma í ljós.

Setja stóra pönnu á eldavélina og steikingar-ólífuolíu á pönnuna og síðan kjötið. Salta vel og einnig pipra vel með svörtum pipar. Brúna kjötið í 8-10 mínútur.

Hægt er að langsteikja á lágum hita á eldavél en ég set yfirleitt kjötið frekar í ílát sem má vera í ofni. Stundum nota ég fallegan pottjárnspottinn (mér finnst gaman að sjá hann í ofninum J) eða í stórt steikingarfaat. Þá er tómatþykkninu, kúmmín, kanil, kóríanderfræi og lárviðarlaufi smellt yfir kjötið. Þá er bætt við kjúklingasoðinu, bökuðu paprikunum, chilli og hvítlauk (þ.e. mjúka kjarnann úr hvítlauknum en pappírs-hlutanum er hent). Svo má krydda í viðbót með salti og pipar.

Langsoðið á lágum hita í nokkrar klst. Tilbúið þegar auðvelt er að skilja kjötþræði úr stykkjum – sem sé rífa. Ég hef svona rétt oft í ofninum í 5-6 tíma á eitt hundrað gráðum. Þegar komið er að máltíð er lokið tekið af. Appelsínu, límónusafa, kóríanderlaufi og hlynsírópi bætt út í.

Notið tortillur en það er smekksatriði hvernig maturinn er framreiddur, hvort kjötið er tekið upp úr sósunni og rifið og soðið og maukið borið fram með. Notið salat, vorlauk eða annan fínskorinn lauk, fínskornar paprikur og salat. Sýrður rjómi eða majó er ljómandi – líka chilli-majó. Stundum set ég upphitaða hrísgrjónaafganga með. Þetta er glæsilegt næðifæði borið fram sem skyndibiti.

Verði ykkur að góðu og takk íslensk bændastétt.

Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu.

Bach, Gould og Víkingur Heiðar

Goldberg-tilbrigðin hafa verið vinir mínir í nær þrjátíu ár. Ég eignaðist humm-útgáfu Glenn Gould frá 1981 og það er sú útgáfa af Goldberg sem ég hlustaði á. Ég spilaði gjarnan píanó- flautu- og gítartónlist þegar ég var að lesa og skrifa og Bach, Gould, John Williams gítarleikarinn, Keith Jarret og Chopin sáu oft um hljóðtjöld kyrru og skrifa. Og eiginlega varð þetta dásamlega Bach-verk með árunum að Gould-tilbrigðum eða Gouldberg sem ég elskaði. Jarret-útgáfan hreif mig aldrei. Þegar Víkingur Heiðar og Deutsche Grammophone gáfu út tilbrigðin áður en hann lagði í heimsreisuna var ég viss um að hann hefði nálgast og túlkað persónulega. Þannig vinnur hann – sem sé vel. En ég var tortrygginn en fór að hlusta á spotify. En þetta var enginn Gouldberg, ekkert humm, engar stunur – önnur nálgun. Já, ný nálgun.

Svo voru febrúartónleikarnir auglýstir og ég keypti strax miða fyrir okkur Elínu mína. Afmælistónleikarnir voru uppseldir og ég var sáttur við að fá miða á föstudagstónleikana 16. febrúar. Enn betri dagur – afmælisdagur Bergs, afadrengsins míns. Ég fylgdist með heimsreisu Víkings Heiðars og gladdist alltaf þegar frægðarfréttir voru fluttar af tónleikum hans í einhverju tónmusteri heimsins.  Svo sagði Jón Kristján við kvöldverðarborðið í vikunni að hann vildi gjarnan koma með. Mamma hans gaf honum miðann sinn á 13. bekk og við feðgar fórum en mæðginin gerðu sér dagamun líka annars staðar.

Stemming var í Eldborg Hörpu og eftirvænting. Allir voru spenntir og tilbúnir og mér sýndist helmingur prestastéttarinnar vera mættur, skólafélagar úr MR og svo fjöldi fólks sem ég hef þjónað sem prestur. Sonur minn furðaði sig á öllu þessu fólki sem ég heilsaði. Fólk var beðið að slökkva á farsímum sínum. Svo gekk meistarinn í salinn og var fagnað. Himintónar upphafsstefsins hljómuðu en fjöldi hósta rauf kyrruna og svo hringdi sími framarlega til hægri. Víkingur leit upp, skimaði út í sal, hætti að spila – og beið eftir að síminn hætti og hóstum linnti. Pínlegt. Og svo byrjaði hann aftur. Ég dáðist að því hvernig hann nýtti sér pirringinn til að magna flutninginn. Tilfinningar hans og áheyrenda flæddu inn í músíkina. Fyrstu mínúturnar lék hann sumt hraðar, kröftugar og þrungnara en annars hefði orðið. Tónleikar eru jú aldrei eins.

Tilbrigði Bachs eru mikil músík, eins og safnbú eða sjóður allra tilfinninga manna og spunareitur fyrir tjáningu á lífi og lífsviðburðum. Víkingur leyfir sér að túlka, spila mismunandi, vera persónulegur og skapandi af því hann gjörþekkir verkið og þar með möguleikana. Hann veit, skilur og hefur vald á grunninum í Bach og tilbrigðunum og getur því gefið því plús listrænnar túlkunar. Spuninn er í blæ, tjáningu og áherslum. Tónleikar kvöldsins urðu mikið ferðalag með lífsreisur okkar. Harmurinn í verkinu speglaðist í tárum fólks, gleðirispurnar voru glæsilegar og hrifu. Og eilífðin opnaðist mörgum sem skynja hina elskuríku dýpt í þessum tilbrigðum.

Jón Kristján sagði takk fyrir og báðir segjum við takk fyrir Víkingur Heiðar. Það var ekkert humm í þessum tónleikum en þeir voru frábærir samt. Bach stendur fyrir sínu sem fimmti guðspjallamaðurinn. Gould var mér og hefur verið eini alvöru túlkandinn á tilbrigðunum. Nú er Víkingur Heiðar búinn að opna mér nýjar víddir. Það er jú ekki spurning um annað hvort Gould eða Víking – heldur kannski fremur bæði og. Við lifum ekki í svart-hvítri veröld heldur litríkri og fjölbreytilegri. Og það er svo dásamlegt þegar elska himsins kyssir tíma og svo margt fólk. Ég mæli með að eftir þessa miklu tónleikareisu hljóðriti Víkingur Heiðar tilbrigðin að nýju – og kannski leyfi líka sínu hummi að fljóta með. Víkings-tilbrigðin. Víking-variations.

Hið róttæka frelsi

Maðurinn á meðfylgjandi mynd hefur í mörg ár verið mér vottur og vitnisburður um frelsi. Maðurinn er fatlaður en lætur þó ekki fötlun sína takmarka sig. Hann hefur frekar áhuga á möguleikum en hindrunum. Hann kom einn í Hallgrímskirkju í hjólastól. Hann var svo frjáls hið innra að hann aflaði sér tækja til að bæta aðgengi sitt og möguleika. Hann ferðast um allan heim. Ég talaði við hann og hann sagði mér frá lífi sínu og að mikilvægt væri að virða frelsið meira en hömlurnar. Svo spurði ég hann hvort ég mætti taka mynd af honum því mér þætti vænt um hugrekki hans og frelsi. Það var heimilt.

Er ég frjáls, ertu frjáls? Lífsviskan staflast ekki upp innan í okkur af sjálfri sér. Það er ekkert sjálfsagt eða sjálfkrafa í lífinu. Vilji okkar, úrvinnsla, ákvarðanir okkar koma við sögu. Lífið er köflótt, oft flókið og erfitt og dregur okkur niður. En þó er lífið samt alltaf opið og veitir tækifæri til góðs og vaxtar. Mér var innrætt strax í bernsku þessi frumafstaða að fagna dögum og árum sem opnum veruleika. Ég las síðar bók Viktor Frankl um reynsluna af fangabúðalífi og að hver manneskja nýtur innra frelsis, jafnvel í hræðilegustu aðstæðum. Ég heillaðist af þessari afstöðu.

Ég aðhyllist róttækt frelsi en ekki niðurnjörvað líf og einhver skipuleggi líf okkar eins og við værum dúkkur í leikhúsi einhverra yfirskilvitlegra stjórnenda. Vissulega hafa erfðir og aðstæður áhrif en okkar er þó valið. Ég og þú veljum stefnu og hvað við gerum. Það er okkar ábyrgðarmál að bregðast við lífinu. Við megum velja hvort við tökum lífinu og vekefnum þess með skapandi hætti – eða ekki. Við getum valið að verða til góðs, þjóna öðrum og fara mjúklega með ungt og viðkvæmt líf. Þú velur lífssýn og lífsafstöðu. Róttækt frelsi opnar og hjálpar. Við búum öll við einhverjar skroður og hömlur en við ákveðum hvort  fötlun okkar verða heftandi skorður eða ekki. Róttækt frelsi er stórkostleg gáfa hvers manns.

Heilræði fyrir gott líf

Farðu með friði í ys og átökum heimsins.

Lærðu að njóta kyrrðar sem er fólgin í þögninni.

Láttu þér semjast við fólk án nokkurrar uppgerðar.

Segðu sannleikann greinilega en með stillingu.

Hlustaðu á aðra.

Allir hafa sögu að segja sem þarfnast hlustandi huga.

Forðastu hégóma og mannjöfnuð.

Ávallt munu einhverjir verða þér óstyrkari eða ofjarlar.

Njóttu áforma þinna og árangurs í lífinu.

Sinntu starfi þínu vel, hvert sem það er.

Vertu varkár í viðskiptum því veröldin er full af gylliboðum.

Gættu að eigin samkvæmni.

Gerðu þér ekki upp ástúð og hlýju.

Láttu ekki kulda næða um ástina þína.

Ástin er eilífðarblómstur á akri tímans.

Öðlastu visku áranna með stillingu og án eftirsjár.

Gefðu frá þér með reisn það sem tilheyrir æskunni.

Hlúðu að andlegum styrk þínum svo þú eigir festu í andstreymi.

Temdu þér sjálfstjórn en einnig ljúfmennsku gagnvart eigin sjálfi.

Mundu að einmanaleiki og hræðsla eru gróðrarstía óttans.

Eins og gróður jarðar og stjörnur á himni ert þú barn alheimsins.

Þú breytist eins og hin mikla lífkeðja veraldar.

Lifðu í sátt við Guð hver sem verk þín hafa verið eða munu verða í sviftingum lífsins.

Mundu að þrátt fyrir sorgir og áföll er veröldin undurfögur.

Hafðu hamingjuna að stöðugu markmiði.

Heimildir greinir á um aldur og uppruna þessa heilræðabálks sem ég snaraði fyrir „löngu.“

Karl Sigurbjörnsson – blessuð veri minning hans

Karl Sigurbjörnsson er látinn. Ég fylgdist með honum yfir sex áratugi og vann náið með honum í nokkur ár. Karl var hæfileikaríkur maður og frábær prestur. Ég man eftir honum sem glaðværum, kurteisum en hlédrægum unglingi í biskupshúsinu við Tómasarhaga. Nokkrum árum síðar var hann sem ungprestur kominn upp á land úr eldinum í Eyjum. Mér þótti hann heillandi þegar hann kom til að eiga orðastað við háskólanema. Hann kom til okkar með uppbrettar ermar í vorbirtu til að fræða um viskuefni kristninnar. Hann var trúverðugur, spaugsamur og vel upplýstur. Þá gerði ég mér grein fyrir getu hans sem fræðara og ræðumanns. Verkefnin sem hlóðust á hann voru mörg og sum flókin. Einu sinni hringdi hann og bað mig um að gera sér greiða í þungbæru máli sem okkur þótti báðum sem grískur harmleikur með tvo kosti og báða vonda. En hann markaði stefnu út úr ógöngunum. 

Karl var listrænn, smekkvís og drátthagur eins og fínlegar vinjettur hans sýna vel. Hann var vel skáldmæltur. Þá hafði hann auga fyrir húsagerð og las hús vel. Karl var alla tíð hamhleypa til vinnu, afar glöggur, flokkaði ákveðið, var fljótur til verka og vann af skilvísri alúð. Hann vantaði aldrei verkefni en afrekaði langt umfram verkastöðu og væntingar. Prestsþjónusta Karls var frábær og allir hæfileikar hans nýttust. Tíminn í Hallgrímskirkju var Karli gleðiríkari en biskupstíminn þar á eftir.  Á holtinu ríkti frelsi en helsi sótti stíft að á Laugaveginum. 

Karl var hamingjumaður í hjúskap og heimilislífi. Kristín Guðjónsdóttir stóð við hlið bónda síns í öllum verkum og málum. Saman bjuggu þau þremur börnum sínum kærleiksríkt uppvaxtarheimili.

Það var gaman að fylgjast með Karli í tengslum við fólk. Hann var jafnan hlýr, næmur, opinn og glaður í samskiptum. Tengsl Karls við ungu kynslóðina og börn voru alltaf gefandi. Hann sá fólk og líka börnin sem hann umvafði hlýrri elskusemi. Vísitasíuferðir hans voru því ekki aðeins gagnlegar heldur oftast gleðilegar. Hann hafði lag á að gleðja sóknarnefndarfólk og þau sem hann hitti á þessum ferðum. Í þessum ferðum var Karl veitull í stól og á stéttum.

Mannvinur og Kristsvinur Karl Sigurbjörnsson er laus úr helsi heims og farinn inn í frelsi eilífðar. Guð geymi hann og styrki og blessi ástvini hans.

Myndina hér að ofan tók ég af Karli á prestastefnu í Neskirkju 2011. Hann stýrði fundum með glettinni hlýju og festu. Að baki honum er mynd af Munib Younan sem var lútherskur biskup í Betlehem. Þeir voru báðir hugumstórir friðarmenn. Á hinni myndinni hér að neðan ávarpar Karl ungsveininn Jón Kristján. Barnelska Karls birtist í brosi hans við íhugandi barninu.